Stjórnarliði er á móti EES EGGERT Haukdal (S-Sl) telur það bestu gafir til þjóðarinnar að atvinnuleysi hyrfi og samningurinn um EES yrði felldur. Í gær voru greidd atkvæði um að vísa til ríkisstjórnarinnar frumvarpi stjórnarandstöðunnar um breytingu á 21.

Stjórnarliði er á móti EES

EGGERT Haukdal (S-Sl) telur það bestu gafir til þjóðarinnar að atvinnuleysi hyrfi og samningurinn um EES yrði felldur.

Í gær voru greidd atkvæði um að vísa til ríkisstjórnarinnar frumvarpi stjórnarandstöðunnar um breytingu á 21. grein stjórnarskrárinnar um að meirihluta þyrfti til samþykktar samnings sem fælu í sér afsal á fullveldi. Greidd voru atkvæði með nafnakalli. Eggert Haukdal (S-Sl) gerði grein fyrir sínu atkvæði. Þingmaðurinn sagði nú blasa við eftir að Kvennalistinn og Framsóknarflokkurinn hefðu skipt sér upp í fylkingar með og á móti frumvarpinu um EES, að það yrði senn að lögum. Afdrif þeirrar tillögu sem nú lægi fyrir virtust því ekki lengur skipta máli. Eggert sagði það vera bestu jólagjöfina til íslensku þjóðarinnar auk þess að losna við atvinnuleysið að frumvarpið um EES hefði verið fellt nú rétt fyrir jólin. Eggert sagðist í trausti þess að það mál sem nú væri til atkvæða yrði gaumgæfilega skoðað þá segði hann já við þeirri tillögu að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar.

Tillaga hinnar sérstöku stjórnlaganefndar um að vísa málinu til ríkisstjórnar var samþykkt með 32 atkvæðum gegn 24 en 7 þingmenn voru fjarverandi.