22. desember 1992 | Miðopna | 409 orð

Fær að kanna skjöl Páfagarðs í mánuð

Fær að kanna skjöl Páfagarðs í mánuð KÁRA Bjarnasyni, starfsmanni handritadeildar Landsbókasafnsins, hefur verið veitt leyfi til að stunda rannsóknir í bóka- og skjalasafni Vatíkansins í Róm í mánaðartíma.

Fær að kanna skjöl Páfagarðs í mánuð

KÁRA Bjarnasyni, starfsmanni handritadeildar Landsbókasafnsins, hefur verið veitt leyfi til að stunda rannsóknir í bóka- og skjalasafni Vatíkansins í Róm í mánaðartíma. Hann fer utan í dag og kvaðst í samtali við Morgunblaðið ekki hafa mótaðar hugmyndir um hvers hann ætlaði að leita en kvaðst vonast til að finna í þeim 200 kílómetrum sem hillur skjalasafnsins spanna áður óþekkt skjöl sem vörðuðu Ísland og samskipti Íslendinga við páfagarð.

Hann sagði að eðli málsins samkvæmt væri það gífurlegt verk að fara í gengum þetta risavaxna safn og það hefði lítið verið kannað með tilliti til íslenskrar sögu þótt nokkrir þjóðkunnir fræði- og vísindamenn, svo sem Þórarinn Þórarinsson frá Eiðum, dr. Jónas Kristjánsson, og Jónas Gíslason vígslubiskup, hefðu dvalist þar við rannsóknir skamma hríð. Nokkur fornbréf sem þarna hafa fundist hafa verið birt í íslenskum fræðiritum.

Kári kveðst ekki gera sér neinar hugmyndir um að dvöl hans í safninu nægi til annars en lauslegrar yfirferðar yfir það hvað í safninu sé að finna sem snúi að Íslandi. Mikilvægt sé hins vegar að halda og efla tengsl við safnið með frekari rannsóknir í þágu íslenskra fræða í huga. Það sé fyrst og fremst í því skyni sem ferð hans sé farin.

Skjalasafn Vatikansins varð til í núverandi mynd árið 1612. Bókasafnið var stofnað árið 1475 en rætur þess liggja í frumkristni. Enn í dag er skjalasafnið kallað Leyndarskjalasafn Vatikansins manna á meðal og samkvæmt upplýsingum í bók sem Kári hefur undir höndum fá einungis um það bil 200 utanaðkomandi menn aðgang að því á ári hverju.

Kardínáli sá sem veitir safninu forstöðu ákveður sjálfur hverjum er hleypt þar inn og er skilyrði að viðkomandi hafi meðmælabréf frá biskupi. Biskup kaþólskra á Íslandi, Alfred Jolson, mælti með umsókn Kára og það gerði einnig faðir Bullivant, sem starfar nú við bókasafn Vatíkansins, en er íslenskumælandi og hefur dvalist hér um árabil, fyrst við háskólanám og síðar sem stundakennari við Háskóla Íslands.

Aðspurður um hvaða tímabil í íslenskri sögu upplýsingar gæti helst verið að finna í Vatíkaninu nefndi Kári að norrænir fræðimenn hafi verið þarna við rannsóknir frá ofanverðri nítjándu öld og allir skráð efni sem þeir hafi fundið og tengist Norðurlöndum. Hins vegar hafi þeir miðað rannsóknir sínar við siðaskiptin í eigin löndum, 20-30 árum á undan Íslandi. Ekki væri því loku fyrir það skotið að finna bréf sem snertu samskipti til dæmis Vatíkansins við Jón Arason.

Morgunblaðið/Ingibjörg

Kári Bjarnason

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.