Sigríður Hagalín leikkona látin SIGRÍÐUR Hagalín leikkona lést annan í jólum, 26. desember sl., á 67. aldursári. Sigríður var um árabil ein þekktasta leikkona landsins. Sigríður Hagalín fæddist 7. desember 1926 í Voss í Noregi, dóttir Guðmundar Gíslasonar...

Sigríður Hagalín leikkona látin

SIGRÍÐUR Hagalín leikkona lést annan í jólum, 26. desember sl., á 67. aldursári. Sigríður var um árabil ein þekktasta leikkona landsins.

Sigríður Hagalín fæddist 7. desember 1926 í Voss í Noregi, dóttir Guðmundar Gíslasonar Hagalíns rithöfundar og fyrri konu hans, Kristínar Jónsdóttur. Sigríður stundaði nám í Samvinnuskólanum 1941­42 og lagði síðan stund á leiklistarnám í Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar 1945­46 og við Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1951­53. Hún fékkst við verslunar- og skrifstofustörf í Reykjavík 1942­46 og var leikkona hjá Þjóðleikhúsinu og Leikfélagi Reykjavíkur 1953­63 en frá 1964 var hún fastráðin hjá Leikfélagi Reykjavíkur.

Auk þess að leika á sviði lék Sigríður í útvarps- og sjónvarpsleikritum og kvikmyndum. Hún hlaut íslensku leiklistarverðlaunin, silfurlampann, árið 1970 fyrir leik sinn í hlutverki Nell í leikritinu Hitabylgju. Þá var Sigríður tilnefnd til evrópsku Felix-kvikmyndaverðlaunanna á síðasta ári fyrir leik sinn í kvikmyndinni Börnum náttúrunnar. Það ár kaus Alþingi hana í heiðurslaunaflokk íslenskra listamanna.

Sigríður var tvígift. Fyrri eiginmaður hennar var Ólafur Ágúst Ólafsson forstjóri, en þau skildu. Síðari eiginmaður Sigríðar var Guðmundur Pálsson leikari og framkvæmdastjóri Leikfélags Reykjavíkur en hann lést árið 1987. Sigríður lætur eftir sig tvær uppkomnar dætur, Kristínu Ólafsdóttur bókasafnsfræðing og Hrafnhildi Hagalín Guðmundsdóttur nema og leikritahöfund.

Sigríður Hagalín