8. janúar 1993 | Minningargreinar | 784 orð

Minning Sigríður Hagalín leikkona Föðursystir mín, Sigríður Hagalín, fæddist í

Minning Sigríður Hagalín leikkona Föðursystir mín, Sigríður Hagalín, fæddist í Voss í Noregi

7. desember 1926. Hún var yngra barn afa míns og ömmu, Guðmundar G. Hagalín og Kristínar Jónsdóttur frá Hvanná. Fyrir áttu þau föður minn, Hrafn, en hann fæddist á Seyðisfirði 16. ágúst 1921.

Sigga, amma og afi, eru samofin fyrstu bernskuminningunum frá árunum, þegar við áttum öll heima hér á Ísafirði. Þau bjuggu þá uppi á lofti í Bókhlöðunni, en við niðri í Neðstakaupstað og leiðin á milli þessara staða var oft farin og mikið sótzt eftir að fá að vera hjá þeim á Bókhlöðuloftinu. Sigga var okkur systrum sem stóra systir og litum við mjög upp til hennar og þeirra vinstúlkna hennar er jafnan héldu hópinn á Ísafjarðarárunum og sýndi hún okkur endalausa þolinmæði og væntumþykju. Margt kemur fram í hugann frá þessum tíma. Sigga var heilmikil íþróttakona, var í fimleikaflokki, handbolta og á skíðum. Frá 17. júní 1944, á ég það minningarbrot, að sjá Siggu í hvítum leikfimikjól í úrhellisrigningu að sýna ásamt fleirum fimleika uppi í Stóruurð, sýningarpallurinn rennandi blautur og þær sýningarstúlkurnar ekki síður blautar og auðvitað bláar af kulda, en mikið var ég stolt af henni frænku minni þarna upp á pallinum. Einu sinni fékk ég að fara með henni og Hiddu vinkonu hennar upp á Dal í skíðaviku. Það var ævintýri, sem í minningunni er sveipað dýrðarljóma. Snævi þakinn Seljalandsdalurinn og glampandi sólskin, hvaða Ísfirðingur kannast ekki við þá dýrðartilfinningu er fyllir hug og hjarta við þær kringumstæður. Þá er mér ekki síður minnisstætt, er ég fékk að fara og sjá leikritið "Ráðskonu Bakkabræðra", sem Sigga lék í. Þá var maður nú ekki lítið stoltur af henni. Ótaldar eru þær svo og ógleymanlegar stundirnar sem hún hefur síðar veitt okkur af list sinni á sviðinu.

Árin liðu og Sigga hélt suður í skóla, amma og afi fluttu suður og lífið tók margvíslegum breytingum. Í Reykjavík bjuggu þær Sigga og amma aldrei langt hvor frá annarri og lengst af bjuggu þær saman, órjúfanleg heild, amma og Sigga. Þegar við að vestan komum suður, var haldið til hjá ömmu og Siggu og alltaf var tekið á móti okkur af sömu ástúðinni og hlýjunni og til þeirra var leitað með flest hjartans mál. Við systur höfum stundum haft á orði, eftir að við eltumst, að sjálfsagt höfum við nú verið mestu plágur, þegar við birtumst svona til mislangrar dvalar, hvenær sem var og hvernig sem á stóð. Mér verður hugsað til heimilanna hennar Siggu, heimila sem hún mótaði af sinni einstöku smekkvísi og hlýju, fyrst í Lönguhlíðinni, þá á Kvisthaganum, Framnesveginum, Fjörugrandanum og loks á Austurströndinni. Allt heimili er stóðu fjölskyldu og vinum opin og buðu mann svo innilega velkominn. Sigga útbjó alltaf notalegan setkrók í eldhúsinu sínu, kertaljósið á borðinu og kaffikannan að sjálfsögðu innan seilingar. Þarna hefur verið setið saman, spjallað um allt milli himins og jarðar, jafnvel grátið, en mikið oftar hlegið dátt. Stundum hefur orðið býsna áliðið kvölds, áður en hægt var að hætta og ekki laust við að karllegg fjölskyldunnar hafi stundum blöskrað þaulsætnin í kvenfólkinu.

Frænka mín var trúuð kona og sótti styrk í trú sína, þó ekki væri hún alltaf jafn sátt við himnaföðurinn. Hún ber það með sér biblían á náttborðinu hennar, að vera mikið lesin, og stundum var bók bókanna komin fram á eldhúsborð og þá vissi maður, að nú væri Sigga að íhuga eitthvað sem á henni hvíldi.

Sigríður var tvígift. Með fyrri manni sínum, Ólafi Ág. Ólafssyni, eignaðist hún dótturina Kristínu. Kristín er gift Birni Vigni Sigurpálssyni og eiga þau börnin Sigríði Hagalín og Kolbein Atla, augasteina ömmu sinnar. Síðari maður hennar var Guðmundur Pálsson leikari og áttu þau dótturina Hrafnhildi. Guðmundur lézt fyrir fimm árum, langt um aldur fram. Þær mæðgur, Sigga, Hrafnhildur og Kristín, stóðu þétt saman við það áfall, vel studdar af eiginmanni Kristínar og börnum. Samband þeirra mæðgna hefur einkennst af sömu ástúðinni og var með þeim ömmu og Siggu og hefur verið einkar náið.

Í maí síðastliðnum veiktist Sigga og erfiður tími fór í hönd. Dætur hennar, þær Hrafnhildur og Kristín, hafa vart vikið frá sjúkrabeði móður sinnar og á sinn einstæða hátt stóðu þær við hlið hennar unz yfir lauk.

Og nú er komið að kveðjustund. Í huga mér á ég perluband. Á því bandi geymi ég perlur minninganna og í birtu þeirra og yl er gott að leita, þegar syrtir að. Perlan hennar Siggu minnar bætist nú á þetta band.

Fjölskylda Hrafns bróður hennar, kveður Siggu með söknuði og þakklátum huga. Við biðjum góðan Guð að halda verndarhendi sinni yfir dætrunum hennar og ástvinunum þeirra og vaka yfir frænku okkar á nýjum leiðum.

Guð blessi minningu hennar.

Auður H. Hagalín.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.