10. janúar 1993 | Minningargreinar | 563 orð

Kristján Vattnes Jónsson ­ Minning Það var vorið 1936 sem undirritaður byrjaði

Kristján Vattnes Jónsson ­ Minning Það var vorið 1936 sem undirritaður byrjaði að æfa frjálsar íþróttir á gamla Melavellinum í Reykjavík. Fljótt veitt ég athygli háum glæsilegum ljóshærðum manni með fallegan svip. Ég komst fljótlega í kynni við piltinn sem var Kristján Vattnes Jónsson og var KR-ingur, en hann bar af öllum íþróttamönnum á vellinum fyrir fjölhæfni og getu. Engum tókst að sigra hann í hans úrvalsgreinum, sem voru spjótkast, kúluvarp, kringlukast og reyndar fleiri íþróttir. Kristján setti alls Íslandsmet í fimm íþróttagreinum, tugþraut, fimmtarþraut, kringlukasti, kúluvarpi og síðast en ekki síst í spjótkasti. Með okkur tókst mikil og sönn vinátta, sem haldist hefur ætíð síðan. Kristján var í hópi íslenskra íþróttamanna sem tóku þátt í Ólympíuleikunum í Berlín 1936 og stóð sig vel, þótt ekki kæmist hann á verðlaunapall. Hann var einnig fánaberi hópsins og vakti athygli vegna glæsileika.

Kristján fæddist á Vattarnesi við Reyðarfjörð, sonur hjónanna Magneu Torfadóttur frá Stokkseyri og Jóns Eiríkssonar bátasmiðs. Seinna fluttust þau hjón ásamt börnum sínum til Reykjavíkur.

Árið 1939 gerðist Kristján lögregluþjónn í Reykjavík og setti hann svip á lögregluliðið sökum þreks og gjörvileika. Við urðum vaktfélagar á svonefndri Matthíasarvakt. Kristján vann vináttu allra félaganna, því ekki var sá illa staddur sem hafði samfylgd hans í erfiðum verkefnum, sem svo oft kom fyrir á stríðsárunum. Einnig var hann ágætur sögumaður.

Eftirminnilegasta atvik í samstarfi okkar var þegar kviknaði í neðstu hæð hússins í Hafnarstræti 11, en við komum þar fyrstir á vettvang. Okkur var sagt að fólk væri í hættu á efstu hæð hússins en mikill eldur var í fordyri og lagði eldtungur að stiga. Við ákváðum að fara upp stigann þrátt fyrir mikinn eld og reyk er fylgdi okkur upp. Okkur tókst að bjarga að mig minnir þremur konum og tveimur börnum upp á þak hússins og þaðan niður með hjálp slökkviliðsins. Mikil mildi var að ekki varð mannskaði í þessum eldsvoða. Ég þakka snarræði og líkamsþreki Kristjáns hve vel tókst til í samstarfi okkar við þessar erfiðu aðstæður. Við vorum heiðraðir af lögreglustjóra, Agnari K. Hansen, fyrir björgunaraðgerðirnar.

Í frístundum stundaði Kristján fiskveiðar og skotferðir á góðum smábáti, sem faðir hans smíðaði. Ég fór oft í slíkar ferðir með honum og ávallt vegnaði honum vel í þessum ferðum sínum.

Hinn 29. október 1938 kvæntist Kristján Lovísu Helgadóttur frá Reykjavík, en hún var þekkt fimleikastúlka úr KR, dugleg og skemmtileg og hallaði ekki á með þeim hjónum.

Þeim fæddist fyrsta barnið 1939. Var það fönguleg dóttir, skírð Magnea. Alls eignuðust þau sjö börn, þrjá drengi og fjórar stúlkur. Börn þeirra sem nú lifa eru Magnea, Bryngeir, Guðríður, Eyþór og Sólveig. Tvo drengi misstu þau á besta aldri, Helga, sem fórst með vitaskipinu Hermóði, og Jón, sem lést af slysförum hér í Reykjavík. Mikill harmur var kveðinn að þeim hjónum við fráfall þessara efnilegu pilta.

Kristján hætti lögreglustörfum 1. september 1963 vegna meiðsla er hann hlaut á íþróttaferli sínum. Hann fluttist síðan til Hveragerðis og vann um tíma sem verkstjóri hjá bæjarfélaginu þar. Eftir að hann fluttist aftur til Reykjavíkur fór hann að kenna meins sem síðan dró hann til dauða. Hann bar sjúkdóm sinn sem hetja allt til dauðadags.

Stjáni vinur minn er horfinn til æðri heima og er hans sárt saknað. Blessuð sé minning um góðan dreng.

Einlægar samúðarkveðjur til þín Lúlla mín og allrar fjölskyldunnar. Þess óskar f.v. starfsbróðir og vinur.

Ólafur Guðmundsson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.