27. janúar 1993 | Minningargreinar | 1258 orð

Jón Páll Sigmarsson - viðbót Harmur berst um hyggjusvið. Sorg og tómleiki

Jón Páll Sigmarsson - viðbót Harmur berst um hyggjusvið. Sorg og tómleiki skárust gegnum huga manns og hjarta, þegar hin lamandi harmafregn barst að Jón Páll væri allur. Okkur félagana, sem staddir voru í Orkulind á æfingu síðla dags laugardaginn 16. janúar, setti hljóða, og við vorum hnípnir er staðfestingin á því kom að Jón Páll væri rétt í þessu látinn. Öll orð féllu máttvana og tilgangslaus niður og æfingu varð sjálfhætt.

Öllu er afmörkuð stund og allir hafa sinn vitjunartíma. Enginn fær stöðvað örfleygan dauðann sem spyr hvorki kóng né prest þegar hann sækir heim líf jafnt ungra manna sem gamalla.

Jón Páll Sigmarsson fæddist í Hafnarfirði 28. apríl 1960, frumburður Sigmars Jónssonar og Dóru Jónsdóttur. Jón var þannig aðeins 32ja ára er hann féll svona skyndilega frá, en hver segir að það sé betra að verða ellinni að bráð 100 eða 200 ára? Jón Páll afrekaði meira á sinni stuttu ævi en mörgum tekst á löngum tíma.

Afreksferill hans í íþróttum var óvenju glæsilegur og vakti honum virðingu og aðdáun ekki aðeins hér á landi heldur víða um heim. Fyrir afrek sín í aflraunum varð hann einn þekktasti og dáðasti Íslendingur sem nokkru sinni hefur verið uppi. Hin galsvaska og líflega framkoma hans samfara afburðagetu og glæsilegum líkamsvexti urðu til þess að hann varð svona óhemju vinsæll.

Jón Páll kynntist íþróttum ungur að aldri, var aðeins 5 ára þegar fósturfaðir hans, Sveinn Guðmundsson þekktur sem glímukóngur Íslands, kynnti honum þjóðaríþróttina, íslensku glímuna. Sem barn og unglingur stundaði Jón boltaíþróttir og síðar karate. Íþróttaáhuginn og kappsemin voru honum í blóð borin.

Árið 1976 kynntist hann fyrst lyftingaíþróttinni er hann mætti á námskeið í Sænska frystihúsinu, en við lyftingamenn höfðum þá aðsetur þar. Námskeiðið stóð aðeins í viku því húsið var að hruni komið. Þaðan lá leiðin í Ármannsheimilið þar sem Jón æfði með okkur Guðmundi Sigurðssyni í fokheldu íþróttahúsinu við svo frumstæðar aðstæður að fólk trúir því varla í dag. Við þurftum oft að æfa kappdúðaðir með trefil um háls vegna kuldans. Jón æfði þarna í 2 mánuði en hætti síðan alveg um tíma. Hann var alltaf harðákveðinn í því að byrja aftur um leið og aðstæður leyfðu. Þráin til að verða sterkur og líta vel út blundaði í honum. Í janúar 1978 hóf Jón Páll aftur að lyfta, en að þessu sinni í Jakabóli, frægum samastað lyftingamanna í Laugardalnum. Þar tók hann þátt í sínu fyrsta lyftingamóti og stóð sig mjög vel og vann til sinna fyrstu gullverðlauna af mörgum. Áhuginn og eljan hjá þessum unga pilta magnaðist mjög eftir þetta svo að eftir var tekið, alltaf mætti Jón á æfingar hvernig sem viðraði.

Árið 1979 sneri hann sér alfarið að kraftlyftingum, þeirri íþrótt sem hann fann sig verulega í og færði honum landsfrægð á tiltölulega skömmum tíma. Í september það ár vann hann til fyrstu verðlauna á alþjóðlegu móti er hann hlaut silfur á Norðurlandamótinu sem haldið var hér heima og vakti Jón þá geysimikla athygli fyrir keppnishörku sína. Á næstu árum fóru í hönd gífurlegir velgengnistímar hjá Jóni Páli í kraftlyftingunum. Hann vann ótal meistaratitla og verðlaun hér heima og erlendis og setti met af öllu tagi. Af helstu afrekum hans má nefna: Þrjá Norðurlandameistaratitla, þar af einn unglinga; þrenn silfurverðlaun á Evrópumótum og ein á heimsmeistaramótinu 1981 í Indlandi þar sem hann var óumdeilanlega vinsælasti keppandinn. Ég minnist þess að hafa lesið í erlendu blaði sem fjallaði um mótið, að hinn ljóshærði, glæsilega vaxni Íslendingur, Sigmarsson hefði heillað viðstadda.

Ýmis minningarbrot í þessum dúr þyrlast um hugann þegar maður lítur yfir feril þessa mikla afreksmanns. Í júlí 1984 vorum við staddir í Skotlandi á Landskeppni Íslands og Skotlands í kraftlyftingum. Jón Páll hafði þegar tryggt sér gullverðlaun með því að setja glæsilegt Evrópumet í samanlögðu í 125 kg flokki, 970 kg. Eftir keppnina flykktust skosk börn í tugatali að Jóni og báðu hann um eiginhandaráritun.

Jón Páll var sérstaklega vel gerður maður sem bar ætíð af sér einstakan þokka þar sem glaðværð og gamansemi voru í fyrirrúmi. Þetta gerði það meðal annars að verkum að hann var ávallt geysivinsæll á meðal barna og unglinga og var þeim fyrirmynd. Jón hafði sjálfur mikið dálæti á börnum og kunni á þeim lagið.

Kraftlyftingametin sem hann setti voru í tugatali: Íslandsmet, Norðurlandamet og Evrópumet. Á árunum 1981-84 setti Jón fjölda Evrópumeta sem juku mjög orðstír hans og hróður. Sum metin voru sett í beinni útsendingu íslenska ríkissjónvarpsins og á einni slíkri stundu varð til á vörum hans setningin: "Þetta er ekkert mál fyrir Jón Pál!" Setning sem meitlaðist inn í hina íslensku þjóðarsál og er orðin að nokkurs konar máltæki síðan.

Jón Páll var þegar orðinn tákn og stolt íslenskrar æsku þegar hann var heiðraður með því að verða kjörinn Íþróttamaður ársins á Íslandi fyrir árið 1981. Það var einmitt á því ári sem Jón tók þátt í sinni fyrstu kraftakeppni en það var í Svíþjóð í keppninni "Víkingur Norðurlanda". Hann lenti þarna í öðru sæti og þar með var tónninn sleginn. Honum var boðin þátttaka í helstu aflraunamótum heimsins á næstu árum og Jón stóð sig þar jafnan frábærlega vel samfara árangrinum í kraftlyftingum. Alhliða kraftar hans ásamt einstæðu keppnisskapi, lífslgeði og íþróttaanda varð til þess að hann naut sín best í slíkum kraftakeppnum.

Í janúar 1985 hlaut Jón Páll laun erfiðis og fórnfýsi. Honum tókst að sigra í keppninni um Sterkasta mann heims sem fram fór í Mora í Svíþjóð. Þarna vann hann frækilegan yfirburðasigur og heimsfrægðin varð staðreynd. Í kjölfarið varð Jón svo vinsæll og dáður að hann varð einskonar almenningseign á Íslandi sem hélst alla tíð síðan. Hann ferðaðist víða um veröld og vann frækna sigra. Þrisvar sinnum í viðbót sigraði hann í keppninni "Sterkasti maður heims" eða fjórum sinnum alls, oftar en nokkur annar maður til þessa. Í meira en áratug var Jón Páll ómetanleg landkynning fyrir Ísland, hvar sem hann fór hafði hann Ísland á vörunum. Víða um lönd var hann kynntur sem: "The Icelandic Viking" eða bara sem "Iceman". Jón var einnig oft á forsíðum erlendra íþróttablaða og tímarita.

En frægðinni fylgir oft öfundin fast að baki og illmælgin og rógurinn í humátt þar á eftir. Allt slíkt stóð Jón vel af sér og um það að hann væri í montnara lagi sagði hann: "Ég vil frekar vera álitinn montinn heldur en einhver leiðindapúki!" Jón var kunnur fyrir kímni og tvíræðni í svörum, og ósigrum tók hann drengilega. Dæmi um þetta er þegar hann sagði eitt sinn í sjónvarpi: "Ég er kannski sterkasti maður heims, en ég er ekki ósigrandi."

Íslendingar eiga ótal minningar um Jón Pál þar sem hann hreif landsmenn upp úr skónum á ýmsum uppákomum og keppnum. Hver man t.d. ekki eftir því er hann velti bílnum niður götuna Nóatún? Eða þegar hann setti heimsmet í réttlyftustöðu með annarri hendi 250 kg í Laugardalshöllinni? Eða þegar hann dansaði valsinn með Húsafellshelluna á sama stað? Og fleira og fleira.

Þótt ótrúlegt sé, naut Jón aldrei nokkurra styrkja frá íþróttahreyfingunni, utan Kraftlyftingasambandsins, eða hlaut opinbera viðurkenningu frá íslenskum yfirvöldum. Þessi kotungsháttur hinnar íslensku þjóðar er varla okkur eðlilegur og hlýtur að skoðast sem arfleifð frá kúgun og undirokun fyrri alda. Jón Páll braust til frægðar og frama af eigin rammleik og varð átrúnaðargoð þúsunda manna úti í hinum stóra heimi. Hann var íslensk þjóðhetja sem féll fyrir aldur fram.

Ég vil votta öllum aðstandendum og þá sérstaklega syni Jóns Páls, Sigmari Frey, mína dýpstu samúð.

Blessuð sé minning Jóns Páls Sigmarssonar. Hann mun lifa að eilífu í hjörtum sannra Íslendinga.

Kári Elíson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.