Evrópuþingið vill afnema vsk á bækur í EB Afnám bókaskatts hefði engin áhrif innan EES ÞINGMENN Evrópuþingsins í Strassborg hvöttu til þess í síðustu viku að virðisaukaskattur yrði afnumin af bókum, dagblöðum og tímaritum innan Evrópubandalagsins til að...

Evrópuþingið vill afnema vsk á bækur í EB Afnám bókaskatts hefði engin áhrif innan EES

ÞINGMENN Evrópuþingsins í Strassborg hvöttu til þess í síðustu viku að virðisaukaskattur yrði afnumin af bókum, dagblöðum og tímaritum innan Evrópubandalagsins til að stuðla að auknum lestri. Þingið hefur ekki völd til að taka ákvörðun um afnám virðisaukaskatts en beindi málinu áfram til framkvæmdastjórnar EB sem semur sameiginleg lög og reglur bandalagsins og þjóðþinga aðildarríkjanna. Framkvæmdastjórninni er í sjálfsvald sett hvort að hún tekur upp þessa tillögu þingsins.

Evrópuþingið samþykkti þessa ályktun í kjölfar umræðna um skýrslu sem fjallaði um hvernig örva mætti lestur í bandalagsríkjunum. Í skýrslunni kom m.a. fram að í ríkjum í suðurhluta EB lesa tveir íbúar af fimm ekki bækur og einn íbúi af fimm í ríkjum í norðurhlutanum.

Árni Páll Árnason, lögfræðingur í utanríkisráðuneytinu, segir að ef svo fari, að virðisaukaskattur verði afnumin á lesefni í ríkjum Evrópubandalagsins hafi það engin áhrif hér á landi þrátt fyrir aðild að Evrópska efnahagssvæðinu þar sem skattamál eru ekki hluti af samningnum. "Í tengslum við þessa umræðu hefur hins vegar komið fram að mikill vilji virðist vera til staðar innan EB um að koma upp samstarfi við Austur-Evrópuríkin og önnur samstarfsríki varðandi þýðingar og aðgerðir til að stuðla að aukinni bókanotkun," segir Árni Páll.