Kjarnorkukafbáturinn sem sökk undan norðurströnd Noregs Sementsblöndu dælt í bátinn til að stöðva geislamengun? Ósló. Reuter.

Kjarnorkukafbáturinn sem sökk undan norðurströnd Noregs Sementsblöndu dælt í bátinn til að stöðva geislamengun? Ósló. Reuter.

NORSKT fyrirtæki bauðst í gær til að stöðva leka geislavirkra efna úr rússneska kjarnorkukafbátnum Komsomolets, sem sökk undan norðurströnd Noregs í apríl 1989, með því að dæla sérstakri sementsblöndu í bátinn. Þessi tækni hefur stundum verið notuð við olíuvinnslu í Norðursjó.

Rússnesk yfirvöld tilkynntu í vikunni sem leið að ákveðið hefði verið að hafna tillögum um að reynt yrði að ná kafbátnum af hafsbotninum. Þau íhuga nú möguleikann á að hylja tvö tundurskeyti og kjarnakljúf með sérstakri froðu er harðnar í glerkennt efni sem myndi drekka geislavirku efnin í sig. Enginn tæknibúnaður er hins vegar fyrir hendi til að koma froðunni í kafbátinn.

Sonsub, norskt systurfyrirtæki Sonsub International í Bandaríkjunum, hefur kannað möguleikann á að loka kafbátinn af með því að dæla í hann sementi með sérstöku aukaefni. "Efnið getur stöðvað leka geislavirkra efna í sjóinn," sagði Einar Ramstad, sem hefur stjórnað rannsókninni. Hann vildi ekki upplýsa hvaða efni þetta væri, sagði það leyndarmál fyrirtækisins.

Sonsub áformar að beita tækni sem notuð hefur verið við olíuvinnslu í Norðursjó til að dæla sementsblöndunni í kafbátinn, sem er 1.685 m undir yfirborði sjávar. Skip búið háþrýstidælum og fjarstýringartækjum myndi þá dæla blöndunni í bátinn í gegnum leiðslur úr hertu stáli.

Samkvæmt frumathugunum myndu framkvæmdirnar kosta 40 milljónir norskra króna, 370 milljónir ísl., sem er mun minna en gert var ráð fyrir í þeim tillögum sem lagðar hafa verið fram til þessa.

Geislavarnir Noregs fengu skýrslu um rannsóknina í gær en Knut Gussgard, yfirmaður stofnunarinnar, neitaði að svara spurningum um hugmynd Sonsub vegna skorts á upplýsingum. Hann gagnrýndi rússnesk yfirvöld fyrir að hafa ekki veitt Norðmönnum nægilegar upplýsingar um kafbátinn og vopnin sem voru í honum.