Slóvakía Hvorugur náði forsetakjöri Bratislava. Reuter. EKKI tókst að kjósa forseta Slóvakíu á þingi landsins í gær og er þetta í annað sinn á tveimur dögum sem frambjóðendur til embættisins fá ekki tilskilinn meirihluta.

Slóvakía Hvorugur náði forsetakjöri Bratislava. Reuter.

EKKI tókst að kjósa forseta Slóvakíu á þingi landsins í gær og er þetta í annað sinn á tveimur dögum sem frambjóðendur til embættisins fá ekki tilskilinn meirihluta.

Vladimir Meciar forsætisráðherra varð fyrir miklu áfalli þegar frambjóðandinn, sem hann hafði tilnefnt, Roman Kovac aðstoðarforsætisráðherra, fékk aðeins 78 atkvæði í forsetakjörinu í gær, en þurfti 90. Milan Ftachnik, frambjóðandi fyrrverandi kommúnista, fékk 31 atkvæði. Talið er að a.m.k. tíu þingmenn Lýðræðishreyfingar Slóvakíu, flokks Meciars, hafi ekki greitt atkvæði með Kovac, heldur setið hjá.

Efnt verður til nýs forsetakjörs 15. og 16. febrúar og þá verða nýir menn í framboði. Talið er að frambjóðandi Lýðræðishreyfingarinnar verði þá hagfræðingurinn Michal Kovac, fyrrverandi forseti þings Tékkóslóvakíu, sem leið undir lok um áramótin og skiptist í tvö ríki, Tékkneska lýðveldið og Slóvakíu.