Kostnaðarsöm yfirbygging r yfirbyggingin hjá atvinnuvegunum, hjá verkalýðshreyfingunni og hjá því opinbera of stór og of kostnaðarsöm miðað við veika undirstöðu að ýmsu leyti og breyttar aðstæður í þjóðarbúskapnum? Það er eðlilegt að spyrja þessarar...

Kostnaðarsöm yfirbygging r yfirbyggingin hjá atvinnuvegunum, hjá verkalýðshreyfingunni og hjá því opinbera of stór og of kostnaðarsöm miðað við veika undirstöðu að ýmsu leyti og breyttar aðstæður í þjóðarbúskapnum? Það er eðlilegt að spyrja þessarar spurningar - og leita svara við henni - á þrengingatímum, þegar nauðsynlegt þykir að flytja verulega skattbyrði af atvinnuvegunum yfir á almenning.

Forstjórar tveggja sjávarútvegsfyrirtækja í Vestmannaeyjum hafa viðrað hér í blaðinu skoðanir sem kalla á svör við framangreindri spurningu.

Í fyrsta lagi hafa þeir ritað hagsmunaaðilum í sjávarútvegi bréf, þar sem þess er farið á leit, að skylduaðild sjávarútvegsfyrirtækja að Útflutningsráði Íslands verði afnumin, "enda fari sama sölu- og kynningarstarf á íslenzkum sjávarafurðum fram á vegum sölusamtaka sjávarútvegsins". Fram kemur í erindinu að þessi tvö fyrirtæki greiði um tvær milljónir króna á ári til Útflutningsráðs - og að sjávarútvegurinn í Vestmannaeyjum í heild greiði 3 til 4 milljónir til ráðsins á ári.

Í annan stað mælast þeir til þess að fram fari könnun á félagsgjöldum fyrirtækja til Landssambands íslenzkra útvegsmanna og annarra samtaka í sjávarútvegi. Þeir staðhæfa að fyrirtækin tvö, sem þeir eru í forsvari fyrir, greiði á annan tug milljóna á ári í félagsgjöld - og að sjávarútvegurinn í Eyjum greiði um 20 m.kr. á ári í félagsgjöld.

Forstjórarnir segja nauðsynlegt að leita hagræðingar og sparnaðar í þessum útgjaldaþætti, sem öðrum, og ekki sé eðlilegt, að þeirra dómi, að LÍÚ safni "digrum sjóði með háum félagsgjöldum, þegar ekki árar betur en nú," eins og haft er eftir þeim í frétt hér í blaðinu. "Við erum líka að fylgja eftir þeirri samþykkt síðasta aðalfundar LÍÚ," segja forstjórarnir, "að sameina undir einn hatt hagsmunasamtök eins og LÍÚ, Samtök fiskvinnslustöðva og Félag íslenzkra fiskimjölsframleiðenda."

Í þessu sambandi er rétt að minna á umræður sem verið hafa í gangi um sameiningu Félags íslenzkra iðnrekenda, Landssambands iðnaðarmanna, Verktakasambands Íslands og Félags íslenzka prentiðnaðarins í ein heildarsamtök. Tilgangurinn er að skapa sterkan málsvara iðnaðarins, draga úr kostnaði og efla þjónustu við félagsmenn. Í frétt blaðsins um þetta efni í dag segir að tillögur um þessa sameiningu liggi nú fyrir og verði kynntar í viðkomandi félögum á næstu vikum. Tillögurnar gera ráð fyrir að félagsgjöld verði 0,15% af veltu og það markmið er sett fram með sameiningarhugmyndinni að rekstrarkostnaður viðkomandi samtaka lækki um allt að 30%.

Spurningin um stærð yfirbyggingar, miðað við burðarþol undirstöðu, spannar ekkert síður samtök launþega og gilda sjóði í þeirra höndum en samtök atvinnuvega. Á tímum atvinnu- og kaupmáttarsamdráttar er eðlilegt að launafólk leiti svara við þeirri spurningu, hvort yfirbyggingin á samtökunum og sjóðum þeirra sé ekki of stór og of kostnaðarsöm, m.a. í ljósi minnkandi greiðslugetu undirstöðunnar.

Síðast en ekki sízt er ástæða til að spyrja þessarar spurningar um stærð yfirbyggingar, miðað við burðarþol undirstöðu, hjá ríki og sveitarfélögum og margs konar samtökum og starfsemi á þeirra vegum. Hvað um Húsnæðisstofnun ríkisins? Hvað um Tryggingastofnun ríkisins? Hvað um ráðuneytin og þær stofnanir sem undir þau heyra? Og hvað um margs konar yfirbyggingu og samtök á vegum sveitarfélaganna?

Allir þeir aðilar og samtök, sem hér koma við sögu, Útflutningsráð, samtök atvinnugreina, samtök launþega og ýmiss konar opinber starfsemi og þjónusta sinna mikilvægum og oft óhjákvæmilegum verkefnum. Spurningin er einfaldlega sú, hvort ekki þurfi að stokka upp spilin, hvað yfirbygginguna varðar, að sníða endanlegum greiðendum kostnaðarins stakk eftir vexti í þessum efnum. Aðhald, hagræðing og sparnaður er ekkert síður nauðsynlegur í efri lögum samfélagsins en hjá undirstöðunni. Það á jafnt við um ríkið, sveitarfélögin, atvinnugreinar og verkalýðshreyfingu.