Breytt afstaða Breta til mannvirkjagerðar á Keflavíkurflugvelli Varnarliðsframkvæmdirnar ráðast nú á Bandaríkjaþingi SVERRIR Haukur Gunnlaugsson, sendiherra Íslands hjá NATO í Brussel, segir að vissulega hafi sú ákvörðun Breta í stjórn Mannvirkjasjóðs...

Breytt afstaða Breta til mannvirkjagerðar á Keflavíkurflugvelli Varnarliðsframkvæmdirnar ráðast nú á Bandaríkjaþingi

SVERRIR Haukur Gunnlaugsson, sendiherra Íslands hjá NATO í Brussel, segir að vissulega hafi sú ákvörðun Breta í stjórn Mannvirkjasjóðs NATO að falla frá andstöðu sinni við nýframkvæmdir á Keflavíkurflugvelli rutt ákveðinni hindrun úr veginum, en eftir sem áður sé það undir Bandaríkjaþingi komið og nýjum valdaherrum í Washington hvort ákveðin verði aukafjárveiting til Mannvirkjasjóðs NATO. Sverrir Haukur segir útilokað að segja til um það hvenær niðurstaða fáist á Bandaríkjaþingi í þeim efnum. Stefán Friðfinnsson, forstjóri Íslenskra aðalverktaka, tekur í sama streng og Sverrir Haukur.

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu síðastliðinn sunnudag afhenti fulltrúi Breta í stjórn Mannvirkjasjóðsins Þorsteini Ingólfssyni, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, bréf til utanríkisráðherra á fundi í Lundúnum sl. föstudag þess efnis að Bretar hefðu fallið frá andstöðu sinni við fyrirhugaðar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli. Þorsteinn Ingólfsson er formaður nefndar utanríkisráðuneytisins um varnar- og öryggismál.

Sverrir Haukur sagði í samtali við Morgunblaðið að það að Bretar setja sig ekki upp á móti framkvæmdum vegna byggingar tveggja flugskýla og frágangi eldsneytislagnakerfis væri gott út af fyrir sig. "En málið kemst ekki á neina hreyfingu fyrr en lausn fæst á framlagi Bandaríkjamanna til Mannvirkjasjóðsins, eða að önnur ráð finnist til þess að hreyfa þessum framkvæmdum," sagði Sverrir Haukur. Hann segir að það sé undir nýjum ráðamönnum í Washington komið hvort ákveðið verður að sækja um aukafjárveitingu til Bandaríkjaþings, til Mannvirkjasjóðs NATO.

Vissulega áfangi

"Þessi viðhorfsbreyting Bretanna í stjórn Mannvirkjasjóðsins er vissulega áfangi, því áður en þeir skiptu um skoðun var möguleiki á að sú staða kæmi upp að Bandaríkjamenn gæfu vilyrði sitt en Bretar segðu nei. Enn er óvíst hver verður niðurstaða Bandaríkjaþings hvað varðar aukafjárveitingu, en framhaldið úr þessu ræðst alfarið af því hver verður niðurstaða þingsins," sagði Stefán Friðfinnsson, forstjóri Íslenskra aðalverktaka í samtali við Morgunblaðið.

Verður byggt?

Eftir að Bretar féllu frá andstöðu við framkvæmdir fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli er málið nú eingöngu undir Bandaríkjaþingi komið.