LÍÚ fær tæpar 40 milljónir í félagsgjöld á ári Útgerðin greiðir 15% aflaverðmætis til Fiskveiðasjóðs, tryggingariðgjalda, lífeyrisiðgjalda sjómanna og LÍÚ FÉLAGSGJÖLD til Landssambands íslenskra útvegsmanna eru reiknuð á þann veg, að greiddar eru 40...

LÍÚ fær tæpar 40 milljónir í félagsgjöld á ári Útgerðin greiðir 15% aflaverðmætis til Fiskveiðasjóðs, tryggingariðgjalda, lífeyrisiðgjalda sjómanna og LÍÚ

FÉLAGSGJÖLD til Landssambands íslenskra útvegsmanna eru reiknuð á þann veg, að greiddar eru 40 krónur fyrir hverja rúmlest fiskiskipa, þar sem hámarksgjald er miðað við 600 rúmlestir og getur því orðið 24 þúsund krónur á skip, en að lágmarki er miðað við 50 rúmlestir, sem þýðir, að sögn Kristjáns Ragnarssonar, formanns LÍÚ, að lágmarksfélagsgjald á skip er 2.000 krónur. Auk þessa gjalds fær LÍÚ tekjur af 0,08% aflaverðmætis og á árinu 1991 reyndust þær vera 33,5 milljónir króna. Bein félagsgjöld, þ.e. rúmlestagjald, til LÍÚ á árinu 1991, voru rúmar 3,6 milljónir króna, að sögn Kristjáns.

Kristján sagði að þegar útflutningsgjöldin hafi verið lögð niður árið 1986, þá hafi verið tekin upp greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, þar sem samtals væru innheimt 15% aflaverðmætis. 7% aflaverðmætis færu til Stofnfjársjóðs fiskiskipa, sem væri í vörslu Fiskveiðasjóðs og væru nýtt til þess að greiða afborganir og vexti af lánum Fiskveiðasjóðs. 6% færu til LÍÚ til þess að annast greiðslur tryggingariðgjalda af fiskiskipum, sem LÍÚ stæði skil á til tryggingafélaganna mánaðarlega. Í þriðja lagi væri um að ræða að tekin væru 2% aflaverðmætis, sem færu í ákveðna greiðslumiðlun, þar sem 1,84% færu til iðgjaldagreiðslna í Lífeyrissjóð sjómanna, en sú tala samsvaraði nokkurn veginn hluta útgerðarinnar af iðgjöldum til sjómanna.

"Þá er eftir 0,16% og af því fer 0,08% til LÍÚ en hinn helmingurinn skiptist á milli samtaka sjómanna: Sjómannasambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Vélstjórafélags Íslands, Alþýðusambands Vestfjarða og Alþýðusambands Austfjarða," sagði Kristján.

Kristján sagði að LÍÚ borgaði félagsgjöld útgerðarmanna vegna útgerðarreksturs skipa, til Vinnuveitendasambands Íslands og næmi sú greiðsla um 7 milljónum króna á ári.

"Þetta kom þannig út til dæmis hjá Ísfélaginu í Vestmannaeyjum, árið 1991, samkvæmt útreikningum þeirra sjálfra, að þeirra félagsgjald til LÍÚ var samtals 296 þúsund krónur, af 4,5 milljónum króna sem þeir greiddu í heild í félagsgjöld það árið," sagði Kristján.

Kristján benti á að sú ávöxtun sem LÍÚ næði á 500 milljóna króna sjóðum sínum á ári, væri 40 til 50 milljónir króna, sem hefði haldið niðri félagsgjöldum LÍÚ

"Beinu félagsgjöldin eru innheimt í gegnum 11 útvegsmannafélög okkar um land allt, en innheimtan á aflaverðmætishlutanum fer í gegnum bankakerfið við útflutning og er skilað til þeirra aðila sem ég taldi upp hér áðan með beinum hætti," sagði Kristján Ragnarsson.