Bankar og sparisjóðir mæta útlánatapi Níu milljarðar á afskriftarreikning á þrem árum ÍSLENSKIR bankar og sparisjóðir hafa lagt um níu milljarða króna á afskrifarreikning útlána á síðustu þremur árum.

Bankar og sparisjóðir mæta útlánatapi Níu milljarðar á afskriftarreikning á þrem árum

ÍSLENSKIR bankar og sparisjóðir hafa lagt um níu milljarða króna á afskrifarreikning útlána á síðustu þremur árum. Þessi fjárhæð samsvarar um 45% af eigin fé alls íslenska bankakerfisins um síðustu áramót, en það var þá röskir 19,5 milljarðar.

Landsbankinn leggur mest fyrir

Landsbankinn hefur lagt mest allra lánastofnana á afskriftarreikning á síðustu þremur árum, eða samtals 3.619 milljónir króna, enda stærsti bankinn. Íslandsbanki lagði á sama tíma alls 2.779 milljónir fyrir í þessu skyni og sparisjóðirnir 1.262 milljónir. Ekki liggja fyrir staðfestar upplýsingar um hversu mikið Búnaðarbankinn hefur lagt á afskriftarreikning á þessu ári en áætla má að á síðustu þremur árum hafi bankinn lagt fyrir svipaða fjárhæð og sparisjóðirnir til að mæta útlánatapi, eða um 1.200 milljónir króna.

Útlánaafskriftir íslenskra banka og sparisjóða hafa að meðaltali verið rétt innan við 1% á ári frá árinu 1985 og samkvæmt fyrirliggjandi tölum verið mestar árið 1990, eða 1,4%, og 1,3% árið 1991.

Áþekkir Svíum

Í samanburði við bankakerfi hinna Norðurlandanna eru afskriftir sem hlutfall af útlánum og ábyrgðum síðustu sjö árin áþekkar því sem gerist í sænska bankakerfinu, eða rétt innan við 1% að meðaltali. Sænska bankakerfið hefur hins vegar lent í miklum hremmingum síðustu misseri, enda fór afskriftarhlutfallið í 3,8% árið 1991 á sama tíma og afskriftarhlutfall íslenska bankakerfisins var um 1,3%. Í Danmörku er afskriftarhlutfallið sem meðaltal síðustu sjö árin nokkru hærra, eða 1,3%, en það fór í 2,3% árið 1991. Erfiðara er með samanburð við Noreg og Finnland þar sem afskriftarhlutfallið þar tekur ekki til ábyrgða og hvað Noreg varðar nær það eingöngu til viðskiptabanka en ekki sparisjóða.

Sjá töflu í Viðskiptablaði c1