Móðir tveggja telpna sem bandarískir menn rændu af hóteli í Reykjavík "Ég vaknaði og þau voru farin með dætur mínar" Sérfræðingur í málum af þessu tagi handtekinn á Keflavíkurflugvelli "Ég fékk verkjatöflu hjá henni og það síðasta sem ég man var að ég var...

Móðir tveggja telpna sem bandarískir menn rændu af hóteli í Reykjavík "Ég vaknaði og þau voru farin með dætur mínar" Sérfræðingur í málum af þessu tagi handtekinn á Keflavíkurflugvelli "Ég fékk verkjatöflu hjá henni og það síðasta sem ég man var að ég var að spjalla við hana og einn mannanna. Þegar ég vaknaði voru þau farin af hótelinu og höfðu tekið dætur mínar með sér." Þetta segir 32 ára íslensk kona, móðir 5 og 10 ára hálfsystra, sem í gærmorgun var rænt af hóteli í Reykjavík. Konan sem móðir telpnanna þáði verkjatöfluna hjá hafði í u.þ.b. mánuð reynt að vinna trúnað hennar og hafði meðal annars boðið henni og annarri telpunni í fimm daga ferð til Sviss en reyndist tilheyra hópi barnsræningja á vegum bandarískra feðra telpnanna. Faðir annarrar telpunnar og aðstoðarmaður hans, sem samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er sérfræðingur í ránum af þessu tagi, voru handteknir á Keflavíkurflugvelli, áður en þeir komust með barnið úr landi.

Handtekin í Lúxemborg

Hinn faðirinn og fyrrnefnd kona komust úr landi með eldri telpuna en voru handtekin í Lúxemborg. Telpan kom til landsins með flugvél í gær en yfirvöld í Lúxemborg slepptu fólkinu úr haldi áður en handtökuskipun barst héðan.

Móðir telpnanna flutti með dætur sínar til Íslands í fyrra eftir að hafa verið búsett í Bandaríkjunum í rúman áratug. Í Bandaríkjunum hafði hún verið tvíkvænt og átti eina dóttur í hvoru hjónabandi. Eftir að konan var flutt með börnin til Íslands voru kveðnir upp að henni fjarstaddri í Bandaríkjunum dómsúrskurðir þar sem feðrunum var dæmt forræði telpnanna. Eftir það mun, samkvæmt upplýsingum Rannsóknarlögreglu ríkisins, hafa verið leitað samninga í málinu.

Mennirnir sem handteknir voru á Keflavíkurflugvelli eru nú í Síðumúlafangelsi og nú fyrir hádegi verður gerð krafa um gæsluvarðhald yfir þeim fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Aðgerðir kannaðar

Eldri telpan sem flogið var með til Lúxemborg var send aftur til Íslands í gær að kröfu íslenskra yfirvalda. Faðir hennar og aðstoðarfólk, þar á meðal konan sem fyrr var getið, voru látin laus áður en handtökuskipun frá Héraðsdómi Reykjavíkur barst til Lúxemborgar.

Rannsóknarlögregla ríkisins annast rannsókn málsins. Þórir Oddsson vararannsóknarlögreglustjóri sagði í samtali við Morgunblaðið að skoðað yrði til hvaða aðgerða væri unnt að grípa gegn fólkinu sem komst úr landi.

Sjá viðtal við móðurina, "Þáði verkjatöflu og missti skömmu síðar meðvitund," á bls. 20