RLR rannsakar innflutning á notuðum bílum árin 1989 og 1990 Interpol send verksmiðjunúmer af yfir 40 Benzum Rannsóknarlögregla ríkisins hefur sent höfuðstöðvum Interpol í París lista með verksmiðjunúmerum á yfir 40 Mercedes Benz bifreiðum sem fluttar voru...

RLR rannsakar innflutning á notuðum bílum árin 1989 og 1990 Interpol send verksmiðjunúmer af yfir 40 Benzum Rannsóknarlögregla ríkisins hefur sent höfuðstöðvum Interpol í París lista með verksmiðjunúmerum á yfir 40 Mercedes Benz bifreiðum sem fluttar voru hingað til lands notaðar á árunum 1989 og 1990. Samkvæmt upplýsingum frá Smára Sigurðssyni, sem sér um tengsl RLR við Interpol, barst embættinu beiðni um þessar upplýsingar nýlega en málið tengist rannsókn þýskra lögregluyfirvalda á þjófnuðum á bifreiðum af þessari tegund í Þýskalandi. Lögreglan í Hamborg stendur fyrir rannsókninni en beiðni um upplýsingar var send Interpol í gegnum þýsku alríkislögregluna Bundes Kriminal Amt.

Morgunblaðið greindi frá rannsókn þessari í lok ágúst á síðasta ári. Þá ræddi blaðið við Boga Nilsson rannsóknarlögreglustjóra og í máli hans kom fram að RLR hafði haft upp á nokkrum Mercedes Benz bifreiðum hérlendis sem vitað er að stolið var í Þýskalandi. Upplýsingar um þessar bifreiðar voru sendar utan en Smári Sigurðsson segir að þýska lögreglan hafi ekki haft samband aftur til RLR vegna þeirra. "Við höfum ekkert heyrt frá þýsku lögreglunni um þessar bifreiðar og vitum því ekki hvort Þjóðverjarnir muni leggja fram einhverjar kröfur vegna þeirra," segir Smári.

Sami aðili flutti inn Benzana

Í máli Smára kemur fram að sami aðili hérlendis hafi flutt inn flestar af þeim rúmlega 40 bifreiðum sem leitað var upplýsinga um af hálfu þýskra lögregluyfirvalda. Hins vegar hefur hann ekki upplýsingar um umfang rannsóknarinnar ytra.

Í umfjöllun Morgunblaðsins sl. haust um hina stolnu Benza kom m.a. fram að á árunum 1989 til 1991 voru alls fluttir inn 116 notaðar Mercedes Benz bifreiðar. Af þeim fjölda komu a.m.k. 60 bifreiðar beint frá verksmiðjunum þannig að svo virðist sem þýska lögreglan sé að kanna nær allan annan innflutning á notuðum Benz-bifreiðum á fyrrgreindu tímabili en þann sem kom beint frá verksmiðjunum.