Flugrekstur British Airways vill ekki sleppa USAir Samkvæmt heimildum breska dagblaðsins Financial Times hefur British Airways gert nýtt tilboð í hlutafé USAir, sjötta stærsta flugfélags Bandaríkjanna.

Flugrekstur British Airways vill ekki sleppa USAir Samkvæmt heimildum breska dagblaðsins Financial Times hefur British Airways gert nýtt tilboð í hlutafé USAir, sjötta stærsta flugfélags Bandaríkjanna. Vænta má opinberrar tilkynningar frá flugfélögunum fljótlega eftir embættistöku Bills Clintons, hins nýja forseta Bandaríkjanna. Í kosningabaráttunni lýsti Clinton reyndar yfir eindreginni andstöðu við upphaflega tilboðið.

Talsmenn British Airways staðfestu að viðræður um einhvers konar samstarf við USAir héldu áfram. Þeir vildu aftur á móti ekkert segja um hvort nýr samningur væri í burðarliðnum.

Bandaríska samgönguráðuneytið hafði í reynd ómerkt fyrri samning félaganna, áður en British Airways dró tilboð sitt til baka skömmu fyrir áramót. Alríkislög mæla svo fyrir að erlendir aðilar megi ekki ráða yfir bandarískum flugfélögum. Hugtakið yfirráð hefur hins vegar óljósa merkingu. Samningurinn hefði fært British Airways 44% hlut í USAir fyrir 750 milljónir dala (48,3 milljarða ÍSK).

Samkvæmt nýja samningnum myndi British Airways greiða 340 milljónir dala (21,9 milljarða) fyrir um 20% hlutafjár USAir og samsvarandi atkvæðamagn á hluthafafundum. Félagið hefur að líkindum fallið frá fyrri kröfu sinni um neitunarvald við ákvarðanir sem hafa í för með sér mikil fjárútlát. Sú krafa var ein af ástæðum þess að tilboðið hlaut ekki náð fyrir augum bandarískra ráðamanna.

Endurskoðun samningsins eykur líkur á að bandarísk yfirvöld staðfesti hann. Vel má þó vera að stærstu flugfélög Bandaríkjanna haldi áfram baráttu sinni gegn honum. American, United og Delta beittu yfirvöld miklum þrýstingi og kröfðust þess meðal annars að í skiptum fyrir staðfestingu upphaflega samningsins fengju bandarísk flugfélög fleiri og rýmri heimildir til flugs um Heathrow-flugvöll í Lundúnum.

Þótt hlutur British Airways í USAir verði minni en upphaflega stóð til verður samstarf flugfélaganna tveggja eins náið og frekast er unnt. Félögin munu sameinast um markaðsstarf og leggja áherslu á að bæði séu þau hluti af sama kerfi.

British Airways lítur á slíkt Atlantshafsbandalag" sem leið til að notfæra sér afnám hamla á mörkuðum Í Evrópu og Ameríku. Félagið fengi mun greiðari aðgang að austurströnd Bandaríkjanna en aðrir evrópskir keppinautar.

Sameiginlega gætu British Airways og USAir selt farmiða til 204 borga í Bandaríkjunum og flutt fleiri farþega en nokkurt annað flugfélag. Bandarísku flugfélögin American og United yrðu þó enn sem fyrr stærri þegar vegalengdir eru teknar með í reikninginn og miðað er við svokallaða farþegakílómetra.