Hlutabréf Hlutabréf Skandia hækka stöðugt GENGI hlutabréfa í Skandia á hlutabréfamarkaðnum í Stokkhólmi hefur á síðustu dögum hækkað stöðugt og nemur hækkunin frá áramótum nú rúmum 20% umfram hækkun hlutabréfavísitölu.

Hlutabréf Hlutabréf Skandia hækka stöðugt

GENGI hlutabréfa í Skandia á hlutabréfamarkaðnum í Stokkhólmi hefur á síðustu dögum hækkað stöðugt og nemur hækkunin frá áramótum nú rúmum 20% umfram hækkun hlutabréfavísitölu.

Ástæða hækkunarinnar er orðrómur þess efnis að á næstunni muni tveir aðaleigendur Skandia, UNI-Storebrand og Hafnia, komast að samkomulagi um eignaraðild sína að Skandia og yfirtöku á hluta af Hafnia.

Samtals eiga UNI-Storebrand og Hafnia 43,7% hlutafjár í Skandia og hafa bæði félögin orðið fyrir miklu tjóni í kjölfar gengisfalls hlutabréfa Skandia á síðasta ári en þá féll gengið allt niður í 45 sænskar krónur á bréf.

Hvorki UNI-Storebrand né Hafnia hafa enn sem komið er fengist til að staðfesta orðróminn en ljóst er að spákaupmenn á sænska hlutabréfamarkaðnum hafa endurskoðað verðmat sitt á Skandia-bréfunum og er verðið nú komið upp fyrir 100 sænskar krónur, eða rúmlega tvöfalt hærra en þegar það var lægst.