Hugbúnaður Þrjú sjúkraskrárkerfi sameinuð í Gagnalind hf. AÐSTANDENDUR þriggja sjúkraskrárkerfa stofnuðu um sl. áramót fyrirtækið Gagnalind hf. og er þar með samankomin á einum stað öll þekking hér á landi á gerð tölvuvæddra sjúkraskrárkerfa fyrir...

Hugbúnaður Þrjú sjúkraskrárkerfi sameinuð í Gagnalind hf.

AÐSTANDENDUR þriggja sjúkraskrárkerfa stofnuðu um sl. áramót fyrirtækið Gagnalind hf. og er þar með samankomin á einum stað öll þekking hér á landi á gerð tölvuvæddra sjúkraskrárkerfa fyrir heilbrigðisþjónustuna. Þetta eru sjúkraskrárkerfin Hippocrates, Medicus og Starri en þau hafa verið notuð á heilsugæslustöðvum, göngudeildum og öðrum heilbrigðisstofnunum hérlendis um árabil. Hlutafé hins nýja fyrirtækis er 15 milljónir.

Þróun á hugbúnaði fyrir heilbrigðisþjónustuna hér á landi hófst árið 1985. Á síðustu árum hefur Medis verið með Medicus hugbúnaðinn, Hugbúnaðarfélag Íslands var með Starra og Radíóbúðin stóð að gerð Hippokrates. Samkvæmt upplýsingum Guðmundar Ingva Sverrissonar, læknis, sem unnið hefur að þróun hugbúnaðarins, komust aðstandendur fyrirtækjanna að þeirri niðurstöðu að ekki væri grundvöllur fyrir fleiri en eitt fyrirtæki á þessu sviði og samvinna myndi leiða til vandaðri þróunar og auka útflutningsmöguleika. Eitt af markmiðum sameiningarinnar er að það besta skili sér úr hverju kerfi. Jafnframt verður tryggt að kerfið verður "opið" þannig að unnt verði að tengja t.d. bókhaldskerfi við það. Gagnalind mun sérhæfa sig í þarfagreiningu og hönnun á hugbúnaði en mestöll forritun verður boðin út. Gert er ráð fyrir að þróun og hönnun á næstu útgáfu geti tekið allt að 2 ár.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið lét á sl. ári kanna þá hagræðingu sem gæti náðst með tölvuvæðingu á heilsugæslustöðvum. Niðurstöður þessarar athugunar urðu þær að unnt er að spara tugi milljóna króna á hverju ári með tölvuvæðingu m.a. vegna minni vinnu við margskráningu upplýsinga og yfirferðar á eyðublöðum og reikningum. Jafnframt er unnt að tryggja markvissara kostnaðareftirlit og aðgang að nýjustu kostnaðartölum, Á þennan hátt fá læknar aðgang að upplýsingum um ódýrustu lyfin og geta sparað verulega fjármuni.

Í desember sl. afhenti Gagnalind sjúkraskrárkerfi á fjórar heilsugæslustöðvar og er tölvuvædd sjúkraskrá nú í notkun hjá 16 stöðvum. Viðræður eru í gangi um afhendingu á fleiri kerfum á þessu ári. Eitt íslenskt kerfi er nú í notkun á stórri heilsugæslustöð í Svíþjóð en frekari útflutningur er talinn mjög erfiður. Þó er talið að þróun þessara kerfa sé komin vel á veg hér á landi miðað við það sem þekkist í nágrannalöndunum. Er m.a. ætlunin að kanna möguleika á útflutningi til Bretlands þar sem sjúkraskrár hafa í litlum mæli verið tölvuvæddar. Framkvæmdastjóri Gagnalindar er Þorsteinn I. Víglundsson og stjórnarformaður Gunnlaugur M. Sigmundsson. Stærstu hluthafar Gagnalindar eru Þróunarfélagið, Myndmál, Radíóbúðin og Tæknival.