Olía Engin tilboð í olíuleit við Grænland EKKI eitt einasta olíufélag gerði tilboð í olíuleitarleyfi við vesturströnd Grænlands í síðasta útboði þeirra.

Olía Engin tilboð í olíuleit við Grænland

EKKI eitt einasta olíufélag gerði tilboð í olíuleitarleyfi við vesturströnd Grænlands í síðasta útboði þeirra.

Yfirvöld í Grænlandi og Danmörku telja að ástæða lítils áhuga á þessu útboði megi fyrst og fremst rekja til núverandi efnahagslægðar um heim allan, og búast við að olíufélögin muni sýna meiri áhuga eftir nokkur ár þegar næsta útboð er fyrirhugað.

Þrátt fyrir fjölda funda ráðuneytismanna í Danmörku og fulltrúa grænlensku landstjórnarinnar við mörg olíufélög á síðustu árum sendi ekki eitt einasta þeirra inn tilboð áður en tilboðsfresturinn rann út í janúarlok.

Á fundunum með olíufélögunum kom fram almennur áhugi á olíuleit við Grænland en ljóst er að félögunum þykir áhættan fullmikil við núverandi aðstæður. Á fundunum var einnig ræddur möguleikinn á samstarfi nokkurra olíufélaga um verkefnið en enn sem komið er hefur ekkert áþreifanlegt orðið úr þeim hugmyndum.

Ráðgert er að næsta útboð verði haldið um áramótin 1995/96 og er þá ætlunin að bjóða út leyfi norðan við 68. lengdargráðu en ekki hefur enn verið ákveðið hvaða svæði úr síðasta útboði, sem var fyrir svæðin á milli 66. og 68. lengdargráðu, verða tekin með í það útboð.