Skipaflutningar Frekari lækkun rekstrarkostnaðar er lykilatriði Slök afkoma Samskipa á síðasta ári og frekari fækkun skipa framundan. Metflutningar voru í fyrra og Grænlandssamningarnir hafa lítil áhrif að sögn Ómars Hl.

Skipaflutningar Frekari lækkun rekstrarkostnaðar er lykilatriði Slök afkoma Samskipa á síðasta ári og frekari fækkun skipa framundan. Metflutningar voru í fyrra og Grænlandssamningarnir hafa lítil áhrif að sögn Ómars Hl. Jóhannssonar, framkvæmdastjóra félagsins.

REKSTUR Samskipa var erfiður á síðasta ári og ljóst að um verulegt rekstrartap var að ræða. Að sögn Ómars Hl. Jóhannssonar, framkvæmdastjóra félgasins, nam tapið fyrstu níu mánuðina 236 milljónum króna. Þar til viðbótar kemur gengistap á annað hundrað milljónir samfara gengisfellingunni í lok nóvember sl. "Þó afkoma ársins í heild liggi ekki enn fyrir er ljóst að hún mun kalla á enn frekari aðgerðir til lækkunar kostnaðar en áður var gert ráð fyrir," sagði Ómar. "Þrátt fyrir að við höfum unnið mikið starf frá sl. hausti við að draga úr rekstrarkostnaði félagsins hefur lækkun flutningsgjalda í almennum flutningum samfara minnkandi flutningsmagni orsakað mun minni tekjumyndun en gert var ráð fyrir fyrri part síðasta árs. Þá hefur harðari samkeppni og verðstríð valdið óeðlilegri lækkun ýmissa flutningsgjalda þó svo nokkur leiðrétting hafi náðst undir lok ársins."

Starfsemi Samskipa á síðasta ári einkenndist öðru fremur af mikilli spennu að sögn Ómars. Nýjungar í rekstri juku markaðshlutdeild félagsins miðað við síðustu ár, en verðstríð orsakaði verulega flutningsgjaldalækkun í almennum flutningum. Aðhaldsaðgerðum var því hrint í framkvæmd í meiri mæli en áður og með sameiginlegri þátttöku starfsfólks tókst að ná þar verulegum árangri.

"Það er ljóst að umfram allt þarf að draga úr rekstrarkostnaði í fyrirtækinu og auka arðsemi. Þegar á síðasta ári hófust aðgerðir í þá átt að draga úr almennum rekstrarkostnaði. Þeim verður fylgt eftir þar til sett markmið nást. Þá hefur að undanförnu verið unnið að stærri aðgerðum er snúa að flutningsförunum, einstökum rekstrarþáttum og því að létta skuldabyrði félagsins. Þannig var hlutur Samskipa í olíuskipinu Stapafelli seldur í lok síðasta árs og viðræður standa nú yfir um sölu eða langtímaleigu tveggja eldri skipa. Stefnan er að fækka skipum en stækka og leggja af óarðbæra rekstrarþætti. Þannig er nú t.d. vikulegum áætlanasiglingum til Vestur-Evrópu sinnt með tveimur stærri skipum í stað þriggja eða fjögurra á síðasta ári," sagði Ómar.

Í næsta mánuði verður tekið inn stærra gámaskip á móti Helgafelli á þessari áætlun og er þeirri breytingu ætlað að lækka framleiðslukostnað til muna. Í febrúar verður breyting á strandsiglingum félagsins er Kistufelli verður skilað úr leigu og í stað þess fengið stærra skip sem betur hentar til gámaflutninga sem eru orðnir ráðandi í strandþjónustunni jafnt sem millilandasiglingum. Þá verða stórflutningar milli hafna erlendis lagðir af á næstunni ef aukin arðsemi næst ekki."

Starfsfólki fækkað í kjölfar fækkunar skipa

Samskip eru nú með 8-9 skip í rekstri. Markmiðið er að þau verði orðin 5-6 í föstum rekstri síðari hluta þessa árs auk þess sem leiguskip verða notuð í tilfallandi verkefni. Að sögn Ómars er aðgerðum til frekari lækkunar kostnaðar í landi nú fylgt eftir. Á það bæði við um hafnarsvæðið að Holtabakka og rekstur gámaflotans en þær aðgerðir hófust í raun í lok síðasta árs. Samfara þessum aðgerðum hefur þegar verið fækkað um u.þ.b. 50 manns og mun væntanlega verða um enn frekari fækkun að ræða í kjölfar aðgerðanna, og þá sérstaklega við fækkun skipanna. "Það er sárt að þurfa að grípa til slíkra aðgerða, en því miður nauðsynlegt við núverandi aðstæður," sagði Ómar.

Ómar sagði að á síðasta ári hefði farið mikill tími og kraftur í uppbyggingu og undirbúning verkefna sem ættu að skila sér á lengri tíma. Þar mætti m.a. nefna stóraukna strandflutningaþjónustu, ákvörðun um að gera félagið að almenningshlutafélagi með sem víðtækastri eignaraðild, flutningar fyrir varnarliðið í fyrsta sinn, áhersla á aukin gæði þjónustunnar og samstarfssamning við Grænlendinga sem reiknað var með að myndi auka nýtingu á skipum Samskipa.

"Grænlandssamningarnir lítilvægir fyrir heildarafkomu Samskipa"

Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu urðu Samskip af samningum um viðskipti við dansk-grænlenska skipafélagið Royal Artic Line sem þess í stað samdi við Eimskip. Aðspurður hversu stóran þátt viðskiptunum hefði verið ætlað að leika í rekstraráætlunum félagsins sagði Ómar að á þessu ári hefði verið reiknað með um 5.000 tonna flutningum fyrir Royal Artic Line og 40-60 milljóna brúttótekjum. "Þessi missir hefur því lítil áhrif á heildarafkomu Samskipa. Þess í stað hafa náðst samningar við Royal Greenland um flutninga þeirra fiskafurða sem þeir landa hér á landi, en fyrir höfðum við álíka samninga við Polar Seafood í Grænlandi."

"Hins vegar höfðum við lagt töluverða vinnu í þetta mál og væntum þess að sú þekking og reynsla sem þannig fékkst nýtist félaginu vel í framtíðinni. Þá hafa auknar landanir rússneskra togara aukið umsvif okkar í alhliða þjónustu við erlend skip hér við land. Við höfum einnig annast flutninga fyrir þá innanlands og til erlendra ákvörðunarstaða."

Ómar sagði að ekki væri von á frekari fækkun skipa eða starfsfólks vegna Grænlandsmálsins þar sem vægi þess væri lítið í heildarumsvifum Samskipa. "Við höfum hins vegar orðið varir við hörð viðbrögð margra vegna þessa máls þar sem m.a. er talað um óeðlilega viðskiptahætti, drottnunartilhneigingu og siðleysi og menn undrast að stjórn fyrirtækis standi þannig að málum."

Búist við 7% samdrætti í almennum flutningum

Á síðasta ári námu heildarflutningar Samskipa 588 þúsund tonnum sem er 6,5% aukning frá árinu áður. "Við lögðum aukna áherslu á reglubundnar áætlanasiglingar félagsins á síðasta ári og það er ánægjulegt að sjá svo greinilegan árangur þess starfs," sagði Ómar, en þar var um 14% aukningu að ræða. Hvað varðar áætlað flutningamagn Samskipa á þessu ári sagði Ómar að reiknað væri með nokkrum samdrætti, eða um 7% í almennum flutningum til og frá landinu miðað við síðasta ár. "Það á jafnt við um inn-, útog strandflutning. Þó má búast við mestum samdrætti í ýmsum stórflutningum s.s. sjávarfangi samfara minnkandi afla landsmanna og minni byggingarvöruinnflutningi. Þá má reikna með að rekstur frystiskips í flutningum milli erlendra hafna leggist af á árinu," sagði Ómar.

Heilbrigð samkeppni þarf að haldast í sjóflutningum landsmanna

"Þó heildarflutningsmagnið hafi aukist um 6,5% milli ára stóð tekjumyndunin svo gott sem í stað á þessum tíma. Heildartekjur félagsins námu tæpum 3,8 milljörðum króna á síðasta ári sem er tæpu 1% meira en árið 1991. Á þessu ári reiknum við með smávægilegum samdrætti í heildartekjum samfara minni flutningum," sagði Ómar.

Ómar sagði ennfremur að rekstrargjöld sem tengdust magni flutninga hefðu hækkað milli ára og vægi það þungt í afkomunni. 4% flutningsgjaldahækkunin í desember hefði skilað sáralítilli bót í tekjumynduninni á árinu þó svo að ásamt gengisfellingunni í nóvember myndi hún koma rekstrinum til góða á árinu 1993.

"Framtíðartakmark Samskipa er að auka hlut sinn í flutningum landsmanna og auka arðsemi félagsins með bættri nýtingu rekstrarþátta. Samskip munu áfram leggja sitt af mörkum svo heilbrigð samkeppni geti haldist í sjóflutningum landsmanna. Eins og áður hefur komið fram hafa raunflutningsgjöld lækkað um 30-40% á undanförnum árum. Helsta ástæða þess er sú að eðlileg samkeppni hefur lengst af ríkt á þessum markaði til góða fyrir út- og innflytjendur," sagði Ómar.

HKF

SJÓFLUTNINGAR - Frekari lækkun rekstrarkostnaðar er nauðsynleg fyrir framtíðarafkomu félagsins, segir Ómar Hl. Jóhannsson, framkvæmdastjóri Samskipa, en rekstur þess var erfiður á síðasta ári. Heildarflutningar hafa þó aldrei verið meiri eða 588 þúsund tonn.