Verðbréfamarkaður Húsnæðisstofnun að semja um 9 milljarða lántökur VIÐRÆÐUR standa nú yfir milli samtaka lífeyrissjóðanna og Húsnæðisstofnunar ríkisins um hvernig skuldabréfakaupum sjóðanna á þessu ári verður háttað.

Verðbréfamarkaður Húsnæðisstofnun að semja um 9 milljarða lántökur

VIÐRÆÐUR standa nú yfir milli samtaka lífeyrissjóðanna og Húsnæðisstofnunar ríkisins um hvernig skuldabréfakaupum sjóðanna á þessu ári verður háttað. Í framhaldi af því mun stofnunin leita eftir samningum við einstaka lífeyrissjóði.

Stofnunin þarf að afla hér innanlands um 9 milljarða króna á árinu. Í rammasamingi samtaka lífeyrissjóðanna og stofnunarinnar er gert ráð fyrir að fjárþörfin verði að hálfu leyti uppfyllt með beinum skuldabréfakaupum af lífeyrissjóðum og að hálfu leyti með skuldabréfaútboðum. Þetta kann að einhverju leyti að verða endurskoðað þar sem ekki náðist að að uppfylla markmið um sölu bréfa í útboðum á sl. ári.

Húsnæðisstofnun efndi til aukaútboðs á húsnæðisbréfum sl. þriðjudag sem vakti góðar vonir um framhald útboða á árinu. Alls bárust 23 tilboð að upphæð 342 milljónir króna en ákveðið var að taka tilboðum samtals að upphæð 292 milljónir með 7,65% ávöxtun.

Alls seldust á sl. ári bréf fyrir 1.150 milljónir í útboðum eða að meðaltali fyrir 165 milljónir í hverju útboði. Hins vegar var fyrirhugað að selja 3 milljarða með þessum hætti og hefur með síðasta útboðinu tekist að selja um helming bréfa í þessum flokki.

"Það verður haldið áfram með útboð á húsnæðisbréfum á þessu ári og gert ráð fyrir því að þau færist í aukana fremur en hitt," sagði Sigurður E. Guðmundsson, forstjóri Húsnæðisstofnunar. "Það var mikil þátttaka í útboðinu á þriðjudag og okkur bárust tilboð í stærri stíl heldur en áður hafði verið. Við erum að gera okkur vonir um að þetta fyrirkomulag festist í sessi á þessu ári og lífeyrissjóðir taki þátt í útboðunum í ríkara mæli."

Sigurður sagði að samningaviðræður stæðu yfir við lífeyrissjóðina varðandi þennan þátt í starfseminni og væri vonast eftir að þeim lyki í næstu viku. "Þá kemur fram hvað við teljum líklegt að mikið fjármagn fáist með því að selja húsnæðisbréf á þessu ári. En það ríkir hófleg bjartsýni hér vegna þess hve útboðið gekk vel."

Á sl. ári samdi Húsnæðisstofun við Verðbréfamarkað Íslandsbanka um umsjón með útboðunum. Sigurður sagði að stjórn stofnunarinnar ætti eftir að taka ákvörðun um hvort verðbréfafyrirtæki yrði ráðið til að annast útboðin áfram, hvort útboðin færu fram á vegum stofnunarinnar eða veðdeildar Landsbankans.