Þjónusta Miðlun selur Gulu línuna til Danmerkur MIÐLUN hf. hefur selt Gulu línuna til TeleDanmark, eða öllu heldur KTAS sem er sjálfstætt fyrirtæki í eigu dönsku símaþjónustunnar og sér um símamál í Sjálandi og Kaupmannahöfn.

Þjónusta Miðlun selur Gulu línuna til Danmerkur

MIÐLUN hf. hefur selt Gulu línuna til TeleDanmark, eða öllu heldur KTAS sem er sjálfstætt fyrirtæki í eigu dönsku símaþjónustunnar og sér um símamál í Sjálandi og Kaupmannahöfn. Að sögn Árna Zophoníussonar, forstjóra Miðlunar, er samningurinn þríþættur. "Í fyrsta lagi er um að ræða beina útborgun og í öðru lagi kaupir KTAS af okkur þekkingu, forritunarþjónustu og þjálfunarþjónustu. Þá fáum við greitt hlutfall af veltunni í nokkur ár," sagði Árni. Hann sagði erfitt að meta verðmæti samningsins vegna óvissuþátta, en væntanlega yrði umfangið ekki minna en ársveltan hér á landi. Á síðasta ári nam velta Gulu línunnar um 30 milljónum króna.

"TeleDanmark velti 150 milljörðum íslenskra króna árið 1991 og þar af nam velta KTAS 60 milljörðum. Af 7-8.000 starfsmönnum KTAS starfa 800 í sérstakri tölvudeild, en samt sjá þeir ástæðu til að eiga viðskipti við okkur á grundvelli þekkingar okkar og reynslu," sagði Árni.

Gula línan hóf starfsemi árið 1987 og var þá fyrsta fyrirtæki sinnar tegundar í Evrópu. "Ástæðan er trúlega sú að í Evrópu er mjög sterk hefð fyrir gulum bókum. Þær eru hins vegar aðeins uppfærðar einu sinni á ári og veita ekki mjög ítarlegar upplýsingar. Gula línan er hins vegar uppfærð daglega og getur miðlað óendanlegu magni af upplýsingum sem gagnabanki þar sem sérfræðingar aðstoða við leitina."

KTAS áætlar að opna Gulu línuna í Danmörku í byrjun september nk. Að sögn Árna er stefnt að því að tölvukerfið verði komið upp 1. júní nk. og að í sumar fari fram þjálfun starfsfólks. Gunnar Hall hjá Tölvumyndum hf. sem hafa hannað tölvukerfi Gulu línunnar sagði að kerfið hefði verið í sífelldri þróun undanfarin ár. "Það var skrifað upp á nýtt með útflutning í huga og er nú opið í báða enda," sagði Gunnar. Að sögn Árna voru fulltrúar frá tölvudeild KTAS mjög sáttir við uppbyggingu tölvukerfisins og þær lausnir sem skapaðar hafa verið hjá Tölvumyndum.

"Hluti af því sem við seljum KTAS eru handbækur sem lýsa í starfsemi Gulu línunnar í smáatriðum. Þá er kerfið sem við höfum byggt umhverfis stjórnunina mjög mikilvægt, en Gunnar H. Guðmundsson, rekstrarráðgjafi hjá Ráðgarði, er höfundur þess. KTAS hefur hug á að nýta það víðar í fyrirtæki sínu," sagði Árni.

Að sögn Gunnars H. Guðmundssonar er stjórnkerfi Gulu línunnar í heimsklassa. "Starfsfólkið hefur tekið mikinn þátt í að hanna starfshættina sem ganga út á að byggja upp færni innan fyrirtækisins. Það hefur gengið svo vel fyrir sig að ég mun segja frá því í erindi á heimsráðstefnu um gæðastjórnun í Helsinki í vor," sagði Gunnar H. sem hefur smíðað sérstakt kerfi til að taka út stjórnunina og meta frammistöðuna. "Hluti af pakkanum sem við seljum KTAS er að nota kerfið til að fara yfir starfsemina þar fyrstu fimm árin og meta árangurinn."

Að sögn Árna var farið að vinna að útflutningi Gulu línunnar árið 1990 og stefnan þá sett á Danmörku. "Við undirbúninginn fengum við ómetanlega hvatningu og örvun hjá Útflutningsráði og Iðnlánassjóð. Þá var Ásgeir Páll Júlíusson ráðgjafi okkar við söluna, en hann hefur aðsetur í Kaupmannahöfn." Aðspurður um framhaldið sagðist Árni vilja forðast að skapa óraunhæfar væntingar, en stefnan yrði næst sett á önnur Norðurlönd. "Ég trúi því að okkar aðferð við að miðla gulum upplýsingum verði mikið notuð alls staðar í heiminum í framtíðinni. Það veltur síðan á getu okkar til að selja þá þjónustu sem við bjóðum hve hlutur okkar verður stór."

Morgunblaðið/Þorkell

ÚTFLUTNINGUR -

Miðlun hf. hefur náð samningum um sölu á Gulu línunni til Danmerkur. Á myndinni eru aðstandendur verkefnisins; Gunnar H. Guðmundson hjá Ráðgjöf, Gunnar Hall hjá Tölvumyndum og Árni Zophaníusson framkvæmdastjóri Miðlunar.