Álframleiðsla Minnkandi álframleiðsla í Samveldinu FULLTRÚAR iðnaðar í Samveldi sjálfstæðra ríkja telja að álframleiðsla innan Samveldisins muni dragast saman um að minnsta kosti 10% á árinu.

Álframleiðsla Minnkandi álframleiðsla í Samveldinu

FULLTRÚAR iðnaðar í Samveldi sjálfstæðra ríkja telja að álframleiðsla innan Samveldisins muni dragast saman um að minnsta kosti 10% á árinu.

Ennfremur er talið að útflutningur á áli muni dragast saman um 20% hið minnsta miðað við síðasta ár. Þrátt fyrir þetta er ekki talin ástæða til að gera ráð fyrir verðhækkun á áli, nema framleiðendur á Vesturlöndum dragi enn frekar úr framleiðslu sinni en þegar hefur verið gert.

Ástæða minnkandi framleiðslu í Samveldinu er fyrst og fremst skortur á hráefni og fjármagni. Af þeim sökum höfðu margir búist við hruni áliðnaðar í Samveldinu á síðasta ári. Svo fór þó ekki og Samveldismenn telja núverandi áætlanir raunhæfar.

Enn er því útlit fyrir erfiðleika hjá vestrænum álbræðslum vegna mikils framboðs og lágs verðs. Fréttir um lokun álbræðslu í Sviss og áform um samdrátt í framleiðslu á Spáni koma því ekki á óvart.