Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1993 ­ Noregur Rannsóknarréttur settur Bókmenntir Dagný Kristjánsdóttir ÞEIR menn, sem telja sig handhafa hins eina sannleika og réttlætis, geta orðið afar hættulegir ef þeim er gefið vald yfir lífi annars fólks.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1993 ­ Noregur Rannsóknarréttur settur Bókmenntir Dagný Kristjánsdóttir

ÞEIR menn, sem telja sig handhafa hins eina sannleika og réttlætis, geta orðið afar hættulegir ef þeim er gefið vald yfir lífi annars fólks.

Djöfulóðar nunnur

Önnur bókin sem Norðmenn leggja fram til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs gæti heitið á íslensku Sá hreini (Renhetens pris) og er eftir Bergljot Hobæk Haff. Hún hefur skrifað margar merkilegar skáldsögur áður, er ákaflega alþjóðlegur höfundur og sækir efni sitt alls staðar að. Í þetta sinn gerist sagan á Norður-Spáni og hefst árið 1549. Gamall og háttsettur stórdómari í rannsóknarréttinum finnur dauðann nálgast og notar síðustu vikurnar til að skrifa um yfirsjónir sínar þegar hann var ungur maður - en hann iðrast ekki.

Hann er nýkominn til starfa í spænska Rannsóknarréttinum sem svo mikil ógn stóð af, þegar hann er sendur í ferðalag til nunnuklausturs nokkurs langt inni í Baskahéruðunum til að rannsaka vafasamt kristnihald þar og orðróm um dulsmál í klaustrinu.

Það er skemmst frá að segja að ekkert fer eins og þessi ungi, metnaðargjarni og harði maður hafði hugsað sér. Alþýðan virðist alls ekki hafa sama skilning og hann á hinu illa. Nunnurnar reynast hundheiðnar, fjandsamlegar og virðingarlausar og dómarinn ungi, Desiderius, flækist meira og meira inn í leyndarmál sem reynast varða hann á persónulegasta hátt og leiða hann að lokum til voðaverka.

Hreinleikinn

Bergljot Hobæk Haff kafar djúpt og flýgur hátt í þessari skáldsögu. Spurningarnar sem hún glímir við eru grundvallarspurningar um trú, siðfræði og mannsskilning Vesturlandabúa. Desiderius aðhyllist hinn algera aðskilnað líkama og sálar og hatar líkama sinn af ofstæki sem jafnvel klausturbræðrunum ofbýður. Hann getur aldrei orðið nógu hreinn, aldrei nógu ósnortinn, aldrei nógu ómennskur. Hann tuktar líkama sinn, ræðst gegn honum af hatursfullri ástríðu sem hlýtur óhjákvæmilega að hverfast yfir í afbrigðilega nautn.

Hreinleikinn er þráhyggja þessa manns. Það er stutt leið frá viðbjóði hans á því "óhreina" yfir í viðbjóð á lífinu yfirleitt. Sé lífið ekki nógu hreint fyrir Guð ber að hreinsa það í eldi. Umburðarlyndari trúmenn reyna að segja honum að Guð og Djöfullinn, hið góða og hið illa, geti aldrei verið fastar stærðir en slíkar skoðanir geta kostað þá lífið, þær eru villutrú. Desiderius er sérfræðingur í kirkjurétti.

SkáldsaganSá hreini minnir um margt á Nafn rósarinnar eftir Umberto Ecco; báðar bækurnar eru hörkuspennandi og grípandi en um leið fullar af menningarsögulegum lærdómi og lífsspeki.

Ástin

Hin bókin sem Norðmenn leggja fram er ljóðabókin Nætursól eftir Stein Mehren (1935). Stein Mehren hefur skrifað yfir fjörutíu bækur innan flestra bókmenntagreina en þekktastur er hann sem ljóðskáld. Hann er "viðurkenndur en ekki vinsæll" segir norski bókmenntagagnrýnandinn Finn Jor.

Ljóðin í Náttsól eru löng og orðmörg, full af söknuði eftir konunni sem hefur yfirgefið ljóðmælandann. Meginþema bókarinnar er ástin eða kannski fremur ástleysið af því að flest ljóð bókarinnar fjalla um ástarsorgina, ástarþrána, ástarhatrið.

Stein Mehren hefur oft verið gagnrýndur fyrir að hrúga myndmáli upp í ljóðum sínum en hér fer hann spart með myndir, ljóðin eru tregróf þar sem togstreitan á milli varnarleysis og árásargirni byggir upp undarlega spennu. Aðdáendur Mehrens telja þetta bestu bók hans.

Bergljot Hobæk Haff hefur skrifað skáldsögu sem gerist á tímum spænska Rannsóknarréttarins.

Stein Mehren yrkir um ástina og ástleysið, þrá og sorg.