Djassaðir músíkdagar DJASS fær nú í fyrsta sinn rými á Myrkum músíkdögum, sem haldnir voru fyrst fyrir þrettán árum.

Djassaðir músíkdagar

DJASS fær nú í fyrsta sinn rými á Myrkum músíkdögum, sem haldnir voru fyrst fyrir þrettán árum. Skoski tenórsaxófónleikarinn Tommy Smith leikur á tónleikum með Djasskvartett Reykjavíkur annað kvöld og í kvöld leikur hann einleik með Sinfóníuhljómsveitinni í nýstárlegri blöndu af klassík og djass. Tónleikarnir eru liður í Myrkum músíkdögum og Skottís.

Tommy Smith er kunnur tónlistarmaður í heimalandi sínu og hefur leikið með ýmsum þekktum djassleikurum, s.s. Gary Burton, Chick Corea og Bobby Watson. Hann hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir hljóðfæraleik sinn, þau fyrstu aðeins 16 ára gamall á djasshátíðinni í Edinborg.

Djasskvartett Reykjavíkur var stofnaður af þeim Sigurði FLosasyni saxófónleikara og Tómasi R. Einarssyni kontrabassaleikara. Aðrir meðlimir kvartettsins eru píanóleikarinn Eyþór Gunnarsson og trommuleikarinn Einar Scheving. Jasskvartett Reykjavíkur lék ásamt Smith á íslenskri menningarhátíð í Skotlandi í júní síðast liðnum.

Tommy Smith.