Sinfóníuhljómsveitin á opnunartónleikum Myrkra músíkdaga í kvöld Verk frá Skotlandi og Íslandi MYRKIR músíkdagar hefjast í kvöld klukkan 20 með tónleikum Sinfóníuhljómsveitar íslands í Háskólabíói.

Sinfóníuhljómsveitin á opnunartónleikum Myrkra músíkdaga í kvöld Verk frá Skotlandi og Íslandi

MYRKIR músíkdagar hefjast í kvöld klukkan 20 með tónleikum Sinfóníuhljómsveitar íslands í Háskólabíói. Leikin verða verk eftir tónskáld í Reykjavík og Glasgow, Gunther Schuller stjórnar hljómsveitinni og einleikari verður saxófónleikarinn Tommy Smith. Á tónleikunum verður frumflutt Sinfónía eftir Sally Beamish, fluttur verður saxófónkonsertinn An Rathad Úr, Nýja brautin, eftir William Sweeney og Afsprengi eftir Hauk Tómasson verður flutt í fyrsta sinn á Íslandi.

Reykjavíkurborg pantaði Sinfóníu Sally Beamish sérstaklega til flutnings á þessum tónleikum. Verkið byggir á fornri sekkjapípuhefð Skota, "piproch" eða "piobaireachd" á gelísku, og er flokkur tilbrigða við hægfara þema sem nefnt er "urlar". Tilbrigðin fylgja ákveðnu mynstri, í upphafi einföld flétta við upphaflegt stef en síðan eykst íburðurinn og tónarnir verða hraðir og flúraðir. Sally Beamish segir að henni þyki verkið tákna fegurð Skotlands og innblásturinn sem hún hefur fundið þar.

Haukur Tómasson samdi Afsprengi fyrir hljómsveit í Kaliforníu árið 1990. Hann líkir hreyfingu þess við skriðjökul, teflir saman tveim hljómagöngum af sama meiði sem skapa hægfara spennu og óvæntar breytingar. Verkið var frumflutt í Kaupmannahöfn árið eftir af Sinfóníuhljómsveit danska ríkisútvarpsins undir stjórn Leif Segerstam.

Nýja brautin eða An Rathad Úr heitir saxófónkonsert sem William Sweeney samdi fyrir Tommy Smith, sem leikur einleik á tónleikunum í kvöld. Sweeney reynir í verkinu að blanda saman einkennum úr djassi og sígildri tónlist á nýjan hátt. Þannig hljómar stundum leikur hljómsveitarinnar eins og spuni þótt hver nóta sé skrifuð, en einleikarinn hefur frjálsari hendur og spinnur í bland við nótur tónskáldsins.

Sally Beamish samdi Sinfóníu fyrir opnunartónleika Myrkra músíkdaga.