Jón Páll Sigmarsson - viðbót Þær stundir koma í lífi hvers og eins að mann setur hljóðan. Slíkt henti okkur feðgana þegar við urðum vitni að og fregnuðum andlát góðkunningja og vinar, Jóns Páls. Sá sterkasti af öllum sterkum, sá hraustasti af öllum hraustum. Margfaldur kraftameistari og aflraunamaður. Ímynd heilbrigðis og hreysti, falinn í valinn langt fyrir aldur fram. Víst eru vegir Guðs órannsakanlegir, en sjaldan eins og nú.

Kynni okkar við Jón Pál hófust fyrir um 10 árum síðan og fyrir þau viljum við þakka. Út á við var hann hinn stóri, hrausti, sterki víkingur, en við nánari kynni komu mannkostir og hæfileikar hans enn betur í ljós. Hjartahlýr, hógvær og hvers manns hugljúfi. Látlaus, meira að segja örlítið feiminn og strangheiðarlegur. Glaður og glettinn, sífellt boðinn og búinn að ráðleggja, aðstoða, hvetja og hjálpa. Góð fyrirmynd æskumannsins.

Víst er, að fáir hafa kynnt Ísland betur út á við en Jón Páll. Þessi síunga hetja, sem nú er um Gjallarbrú genginn. Eftir stöndum við hugsi, hljóðir og hnípnir. En minningin um góðan dreng lifir og gleymist seint.

Eftirlifandi ættingjum vottum við okkar dýpstu samúð.

Jóni viljum við þakka allt og allt og þegar að kallinu kemur, þá er ekki amalegt að mæta honum aftur, dansandi léttum með bros á vör, með tilsvarinu "Sæll hrikalegur, á ekki að taka á því?"

Guðbrandur og Kjartan.