Ásgerður Skjaldberg ­ Minning Fædd 31. maí 1894 Dáin 19. janúar 1993 Það að eiga góða ömmu er dýrmæt gjöf. Amma mín, sem hér er kvödd, var svo sannarlega dýrmæt gjöf og fyrir það verð ég ævinlega þakklát. Það að geta litið um öxl og kallað fram minningar sem aðeins eru manni til gleði er það sem getur hjálpað hverjum manni til að líta björtum augum fram á veg.

Amma mín var fædd á Leikskálum í Dalasýslu 31. maí 1894 og var því 98 ára er hún lést. Þetta er hár aldur og amma var orðin þreytt. En í minningunni á ég mynd af mildri og góðri ömmu. Ömmu sem hafði lifað tímana tvenna, með öllum þeim breytingum í búskaparháttum sem tæknivæðingin hafði í för með sér, ömmu sem stjórnaði stóru heimili hávaðalaust. Tilhlökkunin gat ekki verið meiri en þegar ég, sem barn, mátti fara í heimsókn til ömmu og afa, sem þá bjuggu í Hveragerði. Þar var tekið á móti með opinn faðm. Dagarnir liðu bara alltof fljótt, en eftir sitja bernskuminningar baðaðar sólskini. Amma og afi fluttust til Reykjavíkur og bjuggu þar við Laugaveginn. Það var gott að eiga ömmu að á unglingsárunum, gott að getað verið umvafin mildi og skilningi. Hún var vinur sem hægt var að treysta og sem treysti manni. Þegar haldið var af hennar fundi var lundin létt. Ef eitthvað hafði angrað mann var það horfið, amma kunni ráð við því. Já, hún amma hafði alltaf tíma og það fannst mér á unglingsárunum alveg sjálfsagt, en með árunum hef ég séð það betur og betur að þetta var ekkert sjálfsagt, heldur var ég bara svona einstaklega heppin.

Og fyrir þetta allt, sólskinið, mildina og skilninginn þakka ég af alhug.

Með ömmu er gengin góð kona og bið ég Guð að vera með henni.

Ó, hve heitt ég unni þér -

Allt hið besta í hjarta mér

vaktir þú og vermdir þinni ást.

Æskubjart um öll mín spor

aftur glóði sól og vor,

og traust þitt var það athvarf,

sem mér aldrei brást.

(Tómas Guðmundsson)

Hallfríður Konráðsdóttir.