Ásdís Skjaldberg Þorvarðardóttir - viðbót Hinn 19. janúar sl. andaðist Ásgerður Skjaldberg Þorvarðardóttir í Dvalarheimili aldraðra Hrafnistu í Reykjavík í hárri elli. Útför hennar hefur farið fram í kyrrþey að eindreginni ósk hinnar látnu.

Ásgerður Skaldberg var fædd að Leikskálum í Haukadal í Dölum hinn 31. maí 1894, dóttir hjónanna Þorvarðar Bergþórssonar, bónda og hreppstjóra, sem lengi bjó við mikla rausn að Leikskálum, og síðari konu hans, Höllu Jóhannesdóttur.

Ásgerður ólst upp í skjóli foreldra sinna í stórum systkinahópi, og vandist hún eins og að líkum lætur allt frá æsku sveitastörfunum við búskaparhætti eins og þeir gerðust um og eftir aldamótin síðustu í sveitum þessa lands. Búskapurinn var þrotlaus vinna og strax og börnin gátu farið að létta undir við störf, tóku þau virkan þátt í því margháttaða starfi, sem búskapnum fylgdi, bæði við útiverk og innanhússtörf. En margs þurfti búið við, ekki síst á svo mannmörgum heimilum og ávallt var að Leikskálum á æskuárum Ásgerðar.

En unga fólkið gerði sér í þá daga, eins og nú, ýmislegt til skemmtunar, þótt tómstundir væru færri, og eins og að líkum lætur hefur oft verið glatt á hjalla í stórum barnahópnum á æskuheimili Ásgerðar, enda Leikskálar þá nánast eins og miðstöð sveitarinnar. Það var spilað og sungið og dansað og langt fram á fullorðinsár hafði Ásgerður mikið yndi af söng og hverskyns tónlist. Á fögrum sumardögum, þegar annir leyfðu, var farið í útreiðartúra um sveitina og nágrenni, en í Haukadalnum er einstaklega sumarfagurt og veðurblítt, áin og vatnið setja unaðsríkan svip á sveitina á lognkyrrum sumarkvöldum.

Oft minntist Ásgerður slíkra unaðastunda frá æskuárum sínum, og rifjaði upp atburði frá æskuheimili sínu og fram á efstu ár fylgdist hún með fólki því sem þá bjó á Leikskálum og lét sér annt um velferð þess. Svo lengi sem nokkur möguleiki var fyrir hana átti hún reiðhesta, sem hún hafði mikið dálæti á, valdi þá af betri endanum, fór vel með þá og brá sér eins oft í reiðtúr og hún framast gat. En þegar hún yfirgaf sveitina og hætti búskap, þá varð hún að sjá á bak þessu tómstundagamni sínu, henni fannst að hestar ættu ekki heima á malbikinu, enda var hestamönnum í þá tíð ekki búin sú aðstaða sem þeir njóta nú til dags í þéttbýlinu.

Á æskuárum Ásgerðar var hverskyns nám og skólaganga eigi svo auðsótt, sem nú er, sérstaklega ekki fyrir stúlkur, enda þótt hugur stæði til. Um tvítugsaldur tók Ásgerður sig þó upp, hélt til Reykjavíkur og stundaði þar nám í saumaskap og matreiðslu, jafnframt því sem hún vann fyrir sér. Auðvitað varð þetta henni góður skóli, haldgott veganesti út í lífið og veitti henni víðari sýn.

Hinn 19. apríl 1923 giftist Ásgerður Bergþóri Bergþórssyni, bóndasyni frá Ölvaldsstöðum í Borgarhreppi. Að honum stóðu merkar bændaættir af Mýrunum, frá Hjörsey og Staumfirði. Það varð úr að þau settust að á föðurleifð Bergþórs og hófu búskap að Ölvaldsstöðum. Þar bjuggu þau bestu starfsár sín. Um nokkurt skeið ráku þau hjón þó hótel í Borgarnesi. Um nokkurt árabil bjuggu þau svo að Þórustöðum í Ölfusi. Eftir að þau hjón hættu öllum búskap settust þau að í Hveragerði, reistu sér þar hús og bjuggu þar í nokkur ár, en fluttust loks til Reykjavíkur um 1950 og áttu þar heima síðan.

Ég kynntist þeim hjónum ekki meðan þau bjuggu í sveit, en það þykist ég vita af kynnum við þau síðar, að gestrisni og hverskonar rausn hefur einkennt heimili þeirra, og þá ekki endilega í samræmi við efnahag á hverjum tíma. En Ásgerður var einstaklega myndarleg húsmóðir, og það var með ólíkindum hvað hún gat töfrað fram af veitingum, þegar gesti bar að garði, og hún hafði einstakt lag á að láta tekjurnar endast án þess að spara í kosti. Sérstaklega var oft gestkvæmt hjá þeim hjónum eftir að þau fluttust til Reykjavíkur, en þar bjuggu þau við Laugaveginn miðjan, og aldrei var Ásgerður ánægðari og skemmtilegri en þegar sem flestir komu í kaffi til hennar.

Þau hjónin tóku mér einstaklega vel sem verðandi tengdasyni, og á þá vináttu, sem við bundumst, bar aldrei skugga til hinsta dag þeirra. Fyrir það stend ég í þakkarskuld.

En eins og nærri má geta var lífið ekki ætíð leikur hjá Ásgerði. Það fólk sem var á besta starfsaldri fram á miðja þessa öld, varð vissulega að leggja hart að sér til þess að hafa ofan í sig og fjölskyldur sínar. Og á mannmörgu heimili til sveita, þau hjón eignuðust 6 börn, var erfiðið ekki síst á herðum húsmóðurinnar.

Ásgerður fór heldur ekki varhluta af sorginni. Hún lifði allan hinn stóra systkinahóp sinn. Hún missti eiginmann sinn hinn 17. október 1967. Tvo syni sína missti hún, báða á besta aldri, Nóa árið 1963, og Kristinn árið 1983. Þessi áföll urðu Ásgerði þungbær raun, sem ég hygg að hún hafi aldrei komist fyllilega yfir, enda þótt hún flíkaði ekki þeim tilfinningum.

Eftirlifandi börn Ásgerðar eru: Dóra og Halla, sem báðar eru búsettar í Reykjavík, Halldís gift í Keflavík og Bergþór kvæntur og búsettur í Kópavogi.

Síðustu ár ævinnar dvaldi Ásgerður að Dvalarheimili aldraðra á Hrafnistu. Fyrstu árin og nokkuð fram eftir naut hún í ríkum mæli félagsskaparins við aðra vistmenn heimilisins, við spilamennsku, söng og föndur og annað það sem gert var til þess að stytta fólki stundir, enda var Ásgerður alla tíð afar félagslynd og tók virkan þátt í félagsstarfi á þeim stöðum sem hún bjó, sérstaklega í félagsstarfi kvenna. Ásgerður var mjög trúhneigð og tók virkan þátt í helgihaldi á dvalarheimilinu á meðan hún mátti því við koma. Síðustu árin var hún bundin hjólastól, en síðasta misserið dró hægt og hægt af henni og kraftar þurru. Ætíð þótti henni þó gaman að heimsóknum og allt fram á það síðasta brosti hún hvað innilegast og ljómaði í andlitinu, þegar komið var með yngstu barnabarnabörnin í heimsókn. Þau yngstu þótti henni ávallt fallegust og yndislegust.

Hún naut framúrskarandi umönnunar starfsfólks dvalarheimilisins, og fyrir það eru því nú færðar alúðarþakkir barna hennar og skylduliðs. Á engan er þó hallað þótt umhyggja Höllu, dóttur hennar, fyrir móður sinni, sé sérstaklega getið, en hún kom til hennar nánast á hverjum einasta degi öll þau ár, sem Ásgerður var á Hrafnistu. Þetta verður Höllu seint fullþakkað.

Ég þakka Ásgerði að leiðarlokum fyrir áratuga vináttu og góðvild. Hún var hvíldarþurfi og hún kveið ekki umskiptunum. Henni var ekkert að vanbúnaði að mæta skapara sínum, og ég veit að hún hlakkaði til endurfunda við ástvinina, sem á undan voru farnir. Megi Guð blessa hana í þessari hinstu för hennar.

Tómas Tómasson.