Jón Páll Sigmarsson - viðbót Þegar ég frétti andlát Jóns Páls þá var sem eitthvað gerðist innra með mér. Þótt kynni mín af Jóni Páli hefðu verið stutt myndaðist strax gagnkvæmt trúnaðarsamband á milli okkar. Dagana í Suður-Afríku þegar Jón Páll og Magnús Ver kepptu á móti sterkustu manna heims, náði Magnús Ver þriðja sæti, en Jón komst ekki á blað vegna meiðsla í handlegg. Samt sem áður fékk Jón Páll mestu umfjöllun í ríkissjónvarpinu þar í landi sem vinsælasti keppnismaðurinn á mótinu.

Eftir mótið hurfu sumir keppandanna strax af mótstað meðan Jón Páll var upptekinn við að gefa eiginhandaráritanir og halda á börnum fyrir myndatökur. Þetta lýsir manninum vel, það var enginn of lítill til að honum væri ekki gefinn tími og sýnd virðing.

Þegar ég fékk hugmyndina um að kynna Ísland fyrir umheiminum talaði ég einna fyrst við Jón Pál um að hann tæki þátt í því og hann gekk strax til liðs við átakið af heilum hug. Jón Páll kom mér fyrir sjónir sem óvenjulega hreinn og beinn og vildi láta gott af sér leiða með því að vera góð fyrirmynd, í fyrsta lagi fyrir son sinn sem honum þótti mjög vænt um og í öðru lagi alla aðra sem dáðu hann sem afreksmann í íþróttum.

Hann átti svo margt eftir ógert og stórar hugmyndir um framtíðina. Ég bið Drottin Jesú Krist og algóðan Guð að hugga son hans, ættingja og vini.

Halldór Pálsson.