Geir S. Björnsson - viðbót Í dag er til moldar borinn norður á Akureyri vinur minn og samstúdent, Geir S. Björnsson, prentsmiðjustjóri, eftir snarpa glímu. Við sátum saman í 3. bekk í MA og var hann fyrsti innfæddi Akureyringurinn sem ég kynntist. Síðan höfum við verið vinir, þó að oft liðu langir tímar milli funda, en þegar við hittumst var sem örskot væri síðan síðast. Við vorum saman í Háskóla Íslands veturinn 1944­45 í forspjallsvísindum og fleiru skemmtilegu og nutum þess tíma vel en strax næsta vetur skildi leiðir. Hann fór haustið 1946 vestur um haf til Rochester í New York-ríki, þar sem hann fór í framhaldsnám í list feðra sinna, prentlistinni, enda hafði hann lokið sveinsprófi í prenti mjög jafnsnemma stúdentsprófinu.

Á þeim tíma, sem við vorum sinn hvorum megin Atlantsála, iðkuðum við mjög bréfaskriftir, og þó að ég sé ekki mikill hirðumaður um bréf, geymi ég alltaf "Eitt lítið lettersbréf", sem hann reit mér á Linotype-setjaravél, prentaði í tveimur eintökum og myndskreytti með gömlum litógrafíum og viðeigandi myndatextum, eitt kostulegt tilskrif, þar sem hann gerði ótæpilegt grín að síðasta bréfi mínu.

Síðast hittumst við, er hann lá um tíma á Landspítalanum sl. haust, og enn var yfir honum, löggiltu gamalmenninu, sama æðruleysið sem á unglingsárunum. Hann lét mótlætið aldrei buga sig, en hafði í heiðri fyrirmæli eða heilræði Hávamála:

Glaðr ok reifr

skyli gumna hverr,

unz sinn bíðr bana.

Úr vesturvegi hafði Geir með sér brúði sína Anítu, sem fljótlega varð íslenzkari en margur landinn. Við Katrín sendum henni, börnunum og barnabörnunum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Geirs S. Björnssonar.

Guðni Guðmundsson.