Geir S. Björnsson - viðbót Í dag er til moldar borinn skólabróðir okkar, Geir S. Björnsson, en hann lést eftir erfiðan sjúkdóm á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri aðfaranótt 21. janúar sl. Geir var fæddur á Akureyri, sonur hins mæta manns Sigurðar O. Björnssonar prentsmiðjustjóra og fyrri konu hans, Maríu Kristjánsdóttur. Geir missti móður sína aðeins 7 ára gamall, og var það mikið áfall svo ungum dreng. Síðar ólst hann upp hjá föður sínum og seinni konu hans, Kristínu Bjarnadóttur, og tókust kærleikar með honum og Kristínu er árin liðu. Geir eignaðist 6 hálfsystkini sem eru Bjarni prentari, Akureyri, Sólveig sem er látin, Ingibjörg skólastýra, búsett í Lúxemborg, Ragnar augnlæknir Akureyri, Oddur jarðfræðingur, Reykjavík og Þór prentari á Akureyri.

Ungur að árum fór Geir í sveit á sumrum og var m.a. á Hofi í Vatnsdal og voru hjónin þar, þau Ingunn og Ágúst og dætur þeirra, honum mjög kær.

Að barnaskólanámi loknu hóf Geir nám í Menntaskólanum á Akureyri, og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1944. Jafnframt námi í MA hóf Geir nám í prentiðn í POB. Eftir stúdentspróf var Geir eitt ár við enskunám í Háskóla Íslands. Árið 1946 lá leiðin til Ameríku til framhaldsnáms í prentiðn við Rochester Institute of Technology. Hann fékk meistararéttindi í prentiðn þaðan 1949. Þá hóf hann störf við hlið föður síns í POB og starfaði þar allt til ársins 1988, er hann varð að hætta vegna veikinda. Auk annasamra starfa við prentverkið sá hann um bókaútgáfu Forlags POB og ábyrgðarmaður tímaritsins Heima er best frá 1975.

Hann lét félagsstörf mikið til sín taka og sat í stjórnum margra félaga.

Eftir að Geir hætti störfum í prentverkinu settist hann ekki í helgan stein. Hann hóf þá vinnu við nafnaskráningu úr Heima er best frá því ritið hóf göngu sína um 1950. Í nafnaskránni eru komin vel yfir 30 þúsund nöfn. Þar er getið um fæðingardag, búsetu og dánardægur þeirra sem látnir eru. Geir leitaði víða heimilda og var umhugað um að allar upplýsingar væru réttar, og vitum við að með eljusemi og vandvirkni sinni fann hann ýmsar skekkjur, t.d. í opinberum gögnum, sem hann kom réttum inn í nafnaskrána. Draga má í efa að fullkomnari nafnaskrá finnist hér á landi og er leitt til þess að vita að honum skyldi ekki endast aldur til að ljúka þessu einstæða verki, sem hann naut að vinna við.

Í Rochester kynntist Geir eftirlifandi konu sinni Anitu Floru, f. Saur, hinni ágætustu konu og gengu þau í hjónaband 26. apríl 1951. Anita hefur tekið ástfóstri við Ísland og vill ekki annars staðar vera. Þau eignuðust þrjú börn, sem eru Barbara María hjúkrunarfræðingur, Akureyri, gift Magnúsi Garðarssyni tæknifræðingi, Gunnhildur fóstra, búsett í Lundi í Svíþjóð og Sigurður Oddur, Akureyri, sambýliskona Kristbjörg Eiðsdóttir.

Geir var skólabróðir okkar frá barnæsku og samstúdent. Betri og tryggari vin höfum við ekki átt. Undanfarin ár höfum við farið í daglegar gönguferðir okkur til mikillar ánægju og hressingar. Í þessum gönguferðum bar margt á góma. Auk þess að kunna skil á mönnum og málefnum hafði Geir mikinn áhuga á náttúrunni og þekkti flestar plöntur og fugla hérlendis.

Í sumar kom í ljós að hann gekk með krabbamein, sem ekki var hægt að meðhöndla vegna erfiðs hjartasjúkdóms. Þá sýndi Geir hvílíkt karlmenni hann var. Hann lét aldrei deigan síga. Hann var jafnan með gamanyrði á vör, þegar hann sá áhyggjur og depurð hjá okkur.

Undir það síðasta hafði hann á orði að gaman væri að koma með okkur á göngutúr, en líkast til vekti það helst til mikla athygli að þurfa að draga súrefniskútinn á eftir sér.

Við ásamt konum okkar, Ólöfu og Guðrúnu, þökkum ómetanlega vináttu og vottum Anitu og börnunum einlæga samúð.

Baldur Jónsson,

Gunnar Steindórsson.