Geir S. Björnsson Minning mín um Geir S. Björnsson prentsmiðjustjóra á Akureyri er um traustan, metnaðarfullan stjórnanda í gömlu og góðu fyrirtæki, Prentverki Odds Björnssonar hf. á Akureyri. Við prentsmiðjustjórn tók Geir af föður sínum Sigurði O. Björnsson, en hann var sonur Odds Björnssonar, stofnanda prentsmiðjunnar. Undir handleiðslu þessara manna hefur Prentverk Odds Björnssonar tekið marga unga menn til iðnnáms og lagt í það óvanalegan metnað, að þeir geti borið fyrirtækinu gott vitni. Metnaður sá sem ætíð hefur verið lagður í gott handverk hefur vissulega skilað árangri hjá þeim sveinum sem í POB lærðu. Ennfremur sú áhersla sem ætíð var lögð á snyrtilega umgengni, sem leiddi til þess að vandvirkni varð aðalsmerki þeirra sem í Prentverki Odds Björnssonar störfuðu. Ég minnist þess að hafa maldað í móinn sem lærlingur, yfir því að þurfa að sópa gólf og pússa fleyga úr blýsetningarvélunum oftar en ég taldi nauðsynlegt í þá daga, en núna er ég þakklátur fyrir að hafa fengið svo gott verklegt uppeldi, sem Geir og Bjarni bróðir hans stýrðu. Ég veit að svo er einnig farið með aðra þá lærlinga sem hlutu starfsmenntun sína í POB.

Geir S. Björnsson naut mikillar virðingar og trausts meðal starfsmanna sinna. Hann stjórnaði fyrirtæki sínu með lagni og alla þá daga sem ég vann undir hans stjórn byrjaði hann daginn með því að ganga um prentsmiðjuna að morgni og ræða við starfsfólk og verkstjóra. Hann kunni að hlusta á menn, sem er sjaldgæfur kostur.

Ég votta Anitu eiginkonu Geirs innilega samúð mína, sem og börnum þeirra og fjölskyldum þeirra. Megi hinn hæsti höfuðsmiður himins og jarðar blessa þau og styrkja.

Guðbrandur Magnússon.