Jón Oddgeir Jónsson ­ Minning Vegna æskulýðsstarfs á borð við alþjóðlegu skátahreyfinguna byggist að verulegu miklu leyti á því að þeir einstaklingar sem ganga til liðs við hreyfinguna á unga aldri nái slíkum þroska í starfinu að þeir finni hjá sér þörf til að láta aðra njóta góðs af veru sinni og reynslu í félagsskapnum.

Þannig einstaklingur var Jón Oddgeir Jónsson. Ungur gekk hann til liðs við skátahreyfinguna og snemma valdist hann til foringjastarfa. Síðan tók hvert verkefnið við af öðru og frumkvöðull var hann á ýmsum sviðum innan hreyfingarinnar sem utan. Jón Oddgeir stóð m.a. að stofnun skátafélags Hafnarfjarðar, Blóðgjafarsveitar skáta, og Hjálparsveitar skáta í Reykjavík, sem er elsta hjálparsveit skáta á landinu. Kynni hans og reynsla af skátastarfinu mörkuðu að mörgu leyti æviferil hans og starfsvettvang þann er hann valdi sér. Slysavarna- og björgunarstörf voru honum ávallt hugleikin og má segja að hann hafi lagt grunninn að þeirri þjálfun í hjálp í viðlögum sem skátahreyfingin byggir enn á í dag.

Bandalag íslenskra skáta þakkar Jóni Oddgeiri hér með framlag hans til uppgangs skátahreyfingarinnar og tryggð hans við hana alla tíð. Enn einn skátinn er farinn heim og sendir skátahreyfingin eftirlifandi eiginkonu hans, börnum, vinum, vandamönnum og skátasystkinum innilegar samúðarkveðjur.

Með skátakveðju, f.h. Bandalags íslenskra skáta.

Gunnar H. Eyjólfsson,

skátahöfðingi.