Jón Páll Sigmarsson ­ viðbót Í dag kveðjum við úr lyftingadeild KR góðan vin og félaga, Jón Pál Sigmarsson. Fyrstu kynni undirritaðs af Jóni Páli urðu þremur árum eftir að hann hóf æfingar. Þá töluðu menn mikið um þennan bráðefnilega strák sem sýnt hafði hreint ótrúlegar framfarir þrátt fyrir stuttan æfingatíma. Þegar var farið að bera mikið á Jóni Páli á æfingum. Hann kunni vel við sig innan um æfingafélagana, var ávallt í góðu skapi og hafði skemmtilega frásagnartækni. Jafnframt virtist hann fylgjast nokkuð vel með okkur nýgræðingunum, því að oftar en ekki staldraði hann við hjá manni og kom með sínar hugmyndir um hvað betur mætti fara við æfingarnar. Þetta varð til þess að Jón Páll varð strax í miklum metum hjá manni og jók það til muna ánægjuna við að fylgjast með framgangi Jóns Páls hér heima fyrir sem og á erlendri grundu.

Þetta sama ár, 1979, hóf frægðarsól Jóns Páls sig á loft er hann vann til silfurverðlauna á Norðurlandameistaramóti í kraftlyftingum sem haldið var hér í Reykjavík. Vakti hann mikla athygli fyrir skemmtilega framkomu og varð það hans aðalsmerki alla tíð. Árið eftir vann hann til silfurverðlauna á Evrópumeistaramótinu í Sviss. Þá lá leiðin til Drammen í Noregi þar sem hann vann sín fyrstu gullverðlaun á erlendum vettvangi þegar hann varð Norðurlandameistari í kraftlyftingum. Árið 1981 vann Jón Páll sín önnur silfurverðlaun á Evrópumeistaramóti þegar hann lyfti samtals 852,5 kg í Parma. Þetta þótti geysigóður árangur og það var ekki laust við að manni hrysi hugur við þegar Jón Páll gaf út þá yfirlýsingu meðal félaganna að 900 kg múrinn skyldi falla. Þess varð ekki langt að bíða, en Jón Páll lyfti samtals 912,5 kg á Íslandsmeistaramótinu 1981 og varð þannig fyrsti Íslendingurinn til að lyfta yfir 900 kg. Þetta sama ár fór Jón Páll á heimsmeistaramótið á Indlandi, lyfti þar sömu þyngd og lenti í þriðja sæti. Þessi frábæri árangur tryggði honum titilinn íþróttamaður ársins 1981. Árið 1983 nældi Jón Páll í sín þriðju silfurverðlaun á Evrópumeistaramóti þegar hann lyfti 925 kílóum á Álandseyjum.

Jón Páll setti fjöldann allan af Íslands-, Norðurlanda- og Evrópumetum í gegnum tíðina. Mestri þyngd lyfti hann á Jötnamótinu í Jakabóli árið 1984 þegar hann lyfti samtals 970 kg sem jafnframt var Evrópumet. Á því móti setti hann einnig Evrópumet í réttstöðulyftu, 370 kg, og fór hann þá með setninguna fleygu: "Þetta er ekkert mál fyrir Jón Pál."

Jón Páll sneri sér nú meira að aflraunakeppnum og vann hann titilinn sterkasti maður heims alls fjórum sinnum og árið 1987 vann hann titilinn sterkasti maður allra tíma.

Jón Páll var hin fullkomna ímynd íþróttamannsins. Framkoma hans var til fyrirmyndar hvort sem var í keppni eða utan og hann var reglumaður á vín og tóbak. Hvar sem hann fór var eftir honum tekið og við Íslendingar getum verið stoltir af öðrum eins afreksmanni og Jón Páll var.

Megi minning um góðan dreng og mikinn íþróttamann lifa í hjörtum okkar um aldur og ævi.

F.h. lyftingadeildar KR,

Agnar Már Jónsson.