Geir S ­ Minning Í dag, 28. janúar, er kvaddur Geir bróðir minn. Þar sem ég kemst ekki til að fylgja honum síðasta spölinn, langar mig að senda smá kveðju. Geir var elstur í okkar systkinahópi en það er stórt skarðið sem höggvið hefur verið í þann hóp á stuttum tíma, því Sólveig systir okkar féll frá fyrir einu og hálfu ári, aðeins 54 ára gömul. Það eru alltaf þáttaskil í lífi manns þegar ástvinir hverfa og sárt er það.

Geir fæddist 6. desember 1924, sonur Sigurðar O. Björnssonar prentsmiðjustjóra og fyrri konu hans, Maríu Kristjánsdóttur. Móðir hans dó þegar Geir var lítill drengur. Var hann í umsjón ömmu okkar Ingibjargar og föðursystur Ragnheiðar O. Björnsson þar til foreldrar mínir giftust, þá tók móðir mín við uppeldinu. Hefur það vafalaust verið erfitt fyrst í stað. Geir sagði mér að augu hans hefðu ekki opnast fyrr en hann fór til Reykjavíkur í háskólann, hvað mamma var honum mikilvæg, og ég veit að hann mat hana mikils.

Eftir að Geir var búinn með prentnám sitt hjá pabba, fór hann til Bandaríkjanna í framhaldsnám og fannst mér mjög merkilegt að eiga bróður í Ameríku, enda nutum við yngri systkinin góðs af því; allt mögulegt kom svífandi heim sem hann hafði keypt handa okkur. Meðal annars voru stórir dúkkuvagnar, sem voru sjaldséðir þá, sem við Dídí systir fengum og voru það stoltar systur sem fóru út í labbitúr með fínu dúkkuvagnana sína frá Ameríku.

Þegar Geir kom alkominn heim 1950 kom hann með konuefni sitt með sér, hana Anitu. Það var mikil eftirvænting að hitta hana. Hún var bandarísk, og maður gat ekki einu sinni talað við hana. En það var fljótt að breytast. Það tók Anitu ekki langan tíma að aðlagast tungumálinu og íslenskum siðum. Anita og Geir giftu sig 26. apríl 1951 og fyrsta barnið þeirra, Barbara María, fæddist 23. janúar 1952. Önnur dóttir, Gunnhildur Margrét, kom í heiminn 13. janúar 1954 og seinast sonurinn Sigurður Oddur, 12. september 1957. Ég sendi þeim öllum mínar einlægustu kveðjur. Ég kveð nú bróður minn í hinsta sinn. Hvíli hann í friði.

Inga.