Bjarni Th. Guðmundsson fv. sjúkrahúsráðsmaður ­ Minning Fæddur 22. mars 1903 Dáinn 21. janúar 1993 Látinn er í Reykjavík Bjarni Th. Guðmundsson, fyrrv. sjúkrahúsráðsmaður og bæjarfulltrúi á Akranesi. Útför hans verður gerð í dag frá Fossvogskirkju.

Bjarni Th. fæddist á Skagaströnd 22. mars 1903. Foreldrar hans voru hjónin María Eiríksdóttir og Guðmundur Kristjánsson. Hann var fimmta barn foreldra sinna, sem eignuðust alls 10 börn en eitt þeira lést í æsku. Foreldrar hans fluttust síðar að Hvammskoti á Skagaströnd og þar ólst Bjarni upp til 15 ára aldurs í glöðum og fjölmennum hópi systkina. Síðan tók hin venjulega lífsbarátta við. Vinna og aftur vinna hvar sem hana var að fá.

Bjarni Th. var tvíkvæntur. Fyrri konu sinni, Ingibjörgu Sigurðardóttur frá Kálfshamarsvík, kvæntist hann 1926 og hóf þar búskap. Eftir 7 ára hjónaband eða 1933 andaðist Ingibjörg er hún fæddi þriðja son þeirra. Eftir lát konu sinnar bregður Bjarni búi og flyst á Akranes. Drengirnir þrír voru teknir í fóstur af skyldmennum þeirra hjóna. Tveir létust á æskuskeiði en sá þriðji er Ingibergur bifvélavirki og bóndi á Rauðanesi í Mýrasýslu. Hann er kvæntur Sigurbjörgu Viggósdóttur bónda í Rauðanesi og eru börn þeirra þrjú. Bjarni Th. kvæntist öðru sinni 1937 Þuríði Guðnadóttur ljósmóður á Akranesi. Þuríður var í rúm 30 ár ljósmóðir á Akranesi við mikinn og góðan orðstír, enda frábær ágætiskona að allri gerð. Sonur þeirra er Páll, cand. mag., menntaskólakennari í Reykjavík. Hann er kvæntur Álfheiði Sigurgeirsdóttur kennara frá Granastöðum í Köldukinn S-Þing. Þau eiga fjögur börn. Þuríður andaðist 12. desember 1987.

Áður en Bjarni Th. gerðist bóndi vann hann löngum á sumrin á Siglufirði og oft sem beykir á síldarplönum. Á vetrarvertríðinni fór hann til Keflavíkur og vann þar hjá ýmsum útgerðarfyrirtækjum. Hann var eftirsóttur til starfa, vinnufús og lagvirkur og hinn besti félagi að hverju sem hann gekk. Eftir að hann fluttist á Akranes réðst hann fljótlega til Haralds Böðvarssonar útgerðarmanns og starfaði þar m.a. við afgreiðslu- og innheimtustörf til 1949. Þá tók hann að sér umsjón með byggingarframkvæmdum sjúkrahússins, en smíði þess var þá komin á lokastig. Þegar rekstur þeses hófst 1952 var Bjarni Th. ráðinn framkvæmdastjóri þess eða ráðsmaður, eins og starfið var þá nefnt. Því gegndi hann fram á mitt ár 1965 er hann fluttist til Reykjavíkur. Þar gerðist hann gjaldkeri hjá versluninni Víði og starfaði þar til 70 ára aldurs. Öll þau 13 ár sem Bjarni Th. var ráðsmaður sjúkrahússins sá hann einn um allan rekstur þess í stóru sem smáu. Einnig fjármál og bókhald. Þetta var ákaflega erilssamt og umfangsmikið starf, sem hann rækti af einstakri samviskusemi og dugnaði, þótt aðstæður væru erfiðar á þessum frumbýlisárum sjúkrahússins. Hann naut álits og tiltrúar allra þeirra sem til starfa hans þekktu og vináttu lækna og hjúkrunarliðs. Haraldur Böðvarsson var stjórnarformaður sjúkrahússins og valdi Bjarna Th. til ráðsmennsku þar. Hann hafði reynslu fyrir því að honum mátti treysta.

Í félagsmálum kom Bjarni Th. víða við, enda fórnfús og samvinnuþýður. Hann var í 8 ár bæjarfulltrúi á Akranesi fyrir Framsóknarflokkinn, eða 1954­1962. Lengst af þann tíma var hann jafnframt ritari bæjarstjórnarinnar. Lagði hann mikla vinnu í það starf og leysti það frábærlega vel af hendi, eins og öll önnur störf, sem hann tók að sér. Hann átti löngum sæti í bæjarráði. Var í mörg ár í stjórn Sjúkrasamlags Akraness. Hann átti einnig sæti í ýmsum nefndum á vegum bæjarins. Gjaldkeri Framsóknarfélags Akraness var hann um langt skeið. Það var almannarómur að hverju því máli væri vel borgið sem Bjarni Th. tæki að sér. Hann naut trausts manna vegna einstakrar samviskusemi, heiðarleika og skyldurækni í öllum störfum. Hann vildi aldrei bregðast þeim trúnaði, sem honum var sýndur og hafði löngun til að gera heldur betur en ætlast var til.

Í starfi sínu sem bæjarfulltrúi var Bjarni Th. mjög virkur. Fylgdist vel með framkvæmdum bæjarins og rekstri og lét í sér heyra þætti honum eitthvað fara úrskeiðis. Þegar vel gekk leyndi hann heldur ekki gleði sinni. Hann lagði ríka áherslu á góða fjármálastjórn og reglusemi í öllum rekstri bæjarins. Þar yrðu allir starfsmenn að gera skyldu sína. Hann hafði gott samband við fólkið í bænum og næmt eyra fyrir skoðunum þess á stjórn bæjarins. Hann var einlægur og hjartahlýr. Fólk átti því auðvelt með að ræða vandamál sín við hann. Í öllu samstarfi var Bjarni Th. drengilegur og undirhyggjulaus og gerði kröfu til þess að aðrir beittu svipuðum leikreglum. Hann brást hinn versti við, ef út af þessu var brugðið. Refskák var honum andstæð og ógeðfelld, en drengilegt tafl var honum að skapi, enda lengi mjög virkur og áhugasamur skákmaður.

Lífsbraut Bjarna Th. er dæmigerð fyrir svo marga á fyrstu áratugum aldarinnar, sem ekki áttu kost á námi, en urðu að læra af bók lífsins það sem nauðsynlegt var hverju sinni. Skiluðu síðan verkefnum sínum með ágætum. Ævi Bjarna Th. er ljóst dæmi um menn, sem vaxa með hverju starfi. Þannig tekst til þegar saman fara mannkostir, góð greind, einbeittur vilji og sá ásetningur að láta jafnan gott af sér leiða öðrum til heilla.

Í einkalífi var Bjarni Th. hamingjusamur, enda þótt nístandi sorgin vitjaði hans af og til. Í fyrsta lagi þegar fyrri kona hans lést á besta aldri frá þremur ungum drengjum. Og aftur er hann missti tvo þeirra á æskuskeiði. Slíkt skilur eftir sig viðkvæm sár, sem aldrei gróa að fullu. Bjarni Th. var maður glaðsinna, góður heim að sækja og hafði einstaka frásagnargáfu. Hann mundi löngu liðna atburði fram á síðustu ár og gat haft eftir samræður manna um hin ólíkustu efni eins og þær væru nýjar. Eitthvað átti hann í fórum sínum af þáttum sem hann tók saman. Í mörg ár höfðu þau Bjarni og Þuríður þann sið að ferðast um landið í sumarleyfum sínum ef kostur var á. Heimsóttu þá gjarnan æskustöðvar sínar, frændur og vini. Bæði voru þau með afbrigðum trygglynd. Þannig kynntust þau landinu og komu endurnærð til starfa á ný. Gott var að heimsækja þau hjónin á fallega heimilinu þeirra í Reykjavík. Það gerðum við hjónin af og til okkur til mikillar ánægju. Þar ríkti ætíð gleði og hjartahlýja, ásamt mikilli velvild til allra samferðamanna á lífsleiðinni. Bjarni Th. var heilsuhraustur fram undir áttrætt er fæturnir tóku að gefa sig. Fyrir þremur árum fór skynjun hans á lífinu að þverra. Eftir það dvaldi hann á öldrunardeild Borgarspítalans.

Í lífi mínu var Bjarni Th. mikill örlagavaldur. Það var mest fyrir atbeina hans að ég tók að mér starf bæjarstjóra á Akranesi vorið 1954, þótt margir aðrir kæmu þar við sögu. Þar hef ég síðan eytt hálfri ævinni. Heimili hans tók á móti mér og fjölskyldu minni af mikilli vináttu og umhyggjusemi, sem entist alla tíð meðan það stóð á Akranesi. Samstarf okkar Bjarna Th. var mikið og gott. Þar bar aldrei neinn skugga á. Þegar leiðir skilja vil ég þakka honum samstarfið, vináttu og drengskap, sem aldrei brást. Framsóknarmenn á Akranesi eiga honum mikið að þakka fyrir langt og fórnfúst starf í þágu flokksins, þegar þörfin var mest. Allir sem með honum unnu eða höfðu af honum einhver kynni í sambandi við fjölþætti störf hans á Akranesi í 30 ár munu minnast hans með þakklæti og virðingu. Blessuð sé minning mikils sómamanns.

Dan. Ágústínusson.