Sveinn Ólafsson Sveinn Ólafsson, bóndi að Snælandi, lést að hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 21. þessa mánaðar, á 93. aldursári. Ég kynntist Sveini og fjölskyldu hans haustið

1958, þá nýkominn ásamt konu minni og tveimur börnum frá námi og starfi erlendis. Það reyndist erfiðara en mig hafð órað fyrir að fá húsnæði. Ógerlegt var að finna leiguíbúð fyrir hjón með tvö börn. Því virtist ekki koma annað til greina en að reyna með einhverju móti að kaupa íbúð. Á þessum árum var húsnæði allnokkru ódýrara í Kópavogi en í höfuðborginni og þar var meira um hús sem áttu sér að baki óhefðbundna byggingarsögu. Fjárhagsstaðan réð mestu um valið. Við hjónin keyptu eystri enda tvíbýlishúss að Snælandi í Kópavogi. Húsið var að mestu byggt úr efni sem féll til þegar nokkrir hermannabraggar voru rifnir í stríðslok í Kópavogi og það var byggt á svæði sem frekar minnti á sveit en bæ. Það var með blöndnum tilfinningum sem við fluttum á Snælandstorfuna. En þarna stigum við hið mesta gæfuspor. Húsið var traust og allt umhverfið bauð upp á fjölbreytilegt líf, fullorðnum jafnt sem börnum.

Þarna hafði Snælandsbóndinn, Sveinn Ólafsson, og Guðný Pétursdóttir kona hans, sest að með fjölskyldu sína árið 1943 þegar þau fluttu suður frá Borgarfirði eystra og þar höfðu síðan tveir mágar hans og tvö börn Sveins og Guðnýjar reist sér hús. Nú flutti ókunn fjölskylda inn í þetta ættarsamfélag sem átti svo sterkar rætur í heimabyggð sinni eystra. En frá fyrsta degi hlutum við órskoraðan þegnrétt í þessu samfélagi. Sveinn Ólafsson ríkti þarna af einstakri mildi og hjartahlýju, ekki síst gagnvart börnunum, en góðlegur svipur, yfirbragð hans og fas laðaði fullorðna jafnt sem börn að honum.

Þegar hann flutti í Kópavog var strjálbýlt á þessum útskika hins forna Seltjarnarneshrepps þar sem vart var gert ráð fyrir að fólk færi að setjast að. Skólaskyld börn urðu að ganga yfir Kópavogsdalinn og niður á Sogaveg til að ná þar í skólabílinn, sem flutti þau síðan inn í Laugarnesskóla. Á Seltjarnarnesi tóku íbúarnir að ókyrrast nokkuð þegar frumbyggjar Kópavogs fóru að hafa orð á því að þar þyrfti að reisa skóla fyrir börnin. Í hreppskosningum 1946 var annar tveggja kjörstaða hreppsins í eldhúsinu á Snælandi og kjósendur fengu þar kaffi og meðlæti hjá Guðnýju eftir að hafa kosið. Frumbýlingarnir í Kópavogi náðu meirihluta í hreppsnefnd og var þetta upphafið að því að Kópavogur varð að sjálfstæðu sveitarfélagi nokkrum árum síðar.

Á þessum árum bauð umhverfi Snælands upp á fjölmarga kosti sveitarinnar sem börn jafnt sem fullorðnir nutu. Við heyrðum í lömbunum á vorin, í kúnum þegar verið var að reka þær heim, í hænsnunum, gæsunum og svínunum Og hátíð ársins var þegar kúnum var hleypt út á vorin. Þá varð allt Snælandshverfið einn stór leikvöllur. Börnin í næsta umhverfi hópuðust að býlinu og frændfólk kom enn lengra að. Börnunum var komið fyrir á nærri flötu þaki, en hænsni og endur urðu þá að láta sér lynda fótaspark barnanna, köll þeirra og hlátur. Snælandshjónin keyptu til hátíðarinnar kassa af gosi og vart mátti sjá hvort kátínan væri meiri hjá börnunum eða kúnum, þegar þær stukku út í birtuna og vorblíðuna.

Börnin voru með í margvíslegum störfum á Snælandi hjá Sveini bónda börnum hans og barnabörnum eins og þegar þeim var staflað á heyvagninn þegar ekið var með ilmandi töðuna í hlöðu. Iðulega skilaði eldri sonur okkar sér í seinna lagi heim á kvöldin. Veikur ilmurinn sem fylgdi honum og sælusvipurinn á andliti hans sagði okkur þá að hann hafði verið með Sveini bónda í búverkunum. Af frásögnum drengsins mátti heyra að Sveinn hafði frætt hann um sitthvað sem snerti búskap.

Þegar fyrsti byggingarleikvöllur landsins var stofnaður í Kópavogi stóð ekki á samþykki Sveins að völlurinn fengi skika úr landi hans en þar fékk fjölmennur hópur barna og unglinga í Kópavogi útrás fyrir framkvæmdaþörf sína og smíðagleði.

Sveinn og Guðný stunduðu búskap á Snælandi fram til ársins 1973. Þá var brýn þörf fyrir lóðir undir viðlagasjóðshús sem reist voru yfir fólk sem varð að flytja frá Vestmannaeyjum vegna gossins og þá tók það hverfi, sem nú er þekkt sem Snælandshverfið, að rísa. En Sveinn og Guðný bjuggu áfram í húsi sínu allt fram til ársins 1988 og stunduðu þar garðrækt.

Ég og fjölskylda mín eigum honum, Guðnýju, börnum og barnabörnum þeirra mikið að þakka fyrir ógleymanlegan áratug sem við bjuggum á Snælandi. Við sendum Guðnýju Pétursdóttur og fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur við fráfall Sveins.

Páll Theodórsson.