Bjarni Th. Guðmundsson - viðbót Kæri tengdafaðir. Nú þegar þú ert horfinn okkur get ég ekki stillt mig um að taka mér penna í hönd og minnast þín í fáum orðum. Ég minnist þess ætíð að þegar við Ingi vorum nýtrúlofuð segir kona ein við mig: "Ég ætla að óska þér til hamingju með hvað þú eignast góðan tengdapabba." Og það reyndust orð að sönnu. Seinna þegar barnabörnin komu urðu þau strax hænd að afa og voru það mestu gleðistundir á bænum þegar afi og amma í Reykjavík komu í heimsókn í sveitina. Og eins var það mikið tilhlökkunarefni hjá börnunum að fara til Reykjavíkur að heimsækja afa og ömmu.

Fáa veit ég um sem afmælisdagastjörnuspá á jafn vel við en þar segir 22. mars: "Hin sterka persónugerð þín gerir það að verkum að þú gerir allt af heilum hug, vinnur af alhug og skemmtir þér af alhug, þú eignast marga og trygga vini sakir hins alúðlega og drengilega lundarfars." Og er þetta síst ofmælt.

Við fundum sárt til með þér síðustu árin þegar heilsan fór að bila og söknuðum þess að geta ekki spjallað eðlilega saman eins og áður því hugsun og skilningur voru í fullkomnu lagi til dauðadags. Með þér yfir landamærin fylgja innilegustu kveðjur og þakkir frá okkur syni þínum, sonarbörnum og fjölskyldum þeirra.

Vertu svo Guði falinn.

Þín tengdadóttir,

Sigurbjörg Viggósdóttir.