Ég vil gera hlutina vel

„Við höfum sagt að þetta taki einhverja mánuði. Og svo …
„Við höfum sagt að þetta taki einhverja mánuði. Og svo það sé alveg á hreinu, þá er hvorki hægt að loka þessa veiru inni né úti. Hún fer um allan heim,“ segir Alma D. Möller landlæknir. Morgunblaðið/Ásdís

Alma D. Möller hræðist ekki mikla vinnu enda alin upp við fiskvinnu á Siglufirði sem barn. Sem unglæknir vann hún með Gæslunni og vílaði ekki fyrir sér að síga niður í skip í tíu metra ölduhæð. Nú siglir hún annars konar stórsjó sem landlæknir á tímum kórónuveirunnar. Alma stýrir því skipi sem best hún má og segist vona það besta en búa sig undir það versta.

Það hefur líklega aldrei verið jafn mikið annríki hjá landlækni síðan í spænsku veikinni og síðustu daga og vikur. Alma Dagbjört Möller gaf sér þó tíma eftir langan vinnudag til að setjast niður og ræða málin. Í fallegu húsi í Kópavogi býður hún í bæinn og bendir að sjálfsögðu strax á stóran sprittbrúsa í anddyrinu. Í þessari nýju heimsmynd fer að verða jafn sjálfsagt að spritta sig eins og áður þótti að heilsast með handabandi. Alma býður vel sprittuðum blaðamanni til stofu þar sem hægt er að spjalla í ró og næði. Í bakgrunni má heyra eiginmanninn, hjartalækninn Torfa Fjalar Jónasson, stússast við...