Ég vil gera hlutina vel

„Við höfum sagt að þetta taki einhverja mánuði. Og svo …
„Við höfum sagt að þetta taki einhverja mánuði. Og svo það sé alveg á hreinu, þá er hvorki hægt að loka þessa veiru inni né úti. Hún fer um allan heim,“ segir Alma D. Möller landlæknir. Morgunblaðið/Ásdís

Alma D. Möller hræðist ekki mikla vinnu enda alin upp við fiskvinnu á Siglufirði sem barn. Sem unglæknir vann hún með Gæslunni og vílaði ekki fyrir sér að síga niður í skip í tíu metra ölduhæð. Nú siglir hún annars konar stórsjó sem landlæknir á tímum kórónuveirunnar. Alma stýrir því skipi sem best hún má og segist vona það besta en búa sig undir það versta.

Það hefur líklega aldrei verið jafn mikið annríki hjá landlækni síðan í spænsku veikinni og síðustu daga og vikur. Alma Dagbjört Möller gaf sér þó tíma eftir langan vinnudag til að setjast niður og ræða málin. Í fallegu húsi í Kópavogi býður hún í bæinn og bendir að sjálfsögðu strax á stóran sprittbrúsa í anddyrinu. Í þessari nýju heimsmynd fer að verða jafn sjálfsagt að spritta sig eins og áður þótti að heilsast með handabandi. Alma býður vel sprittuðum blaðamanni til stofu þar sem hægt er að spjalla í ró og næði. Í bakgrunni má heyra eiginmanninn, hjartalækninn Torfa Fjalar Jónasson, stússast við matargerð því senn líður að kvöldmat. Og jafnvel á óvissutímum þurfa landlæknar að borða.

Starf landlæknis hefur oftast verið unnið fyrir luktum dyrum en nú þarf Alma að vera vel sýnileg almenningi sem fylgist grannt með málum í fjölmiðlum. Daglega mæta þau Alma, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á blaðamannafundi sem sjónvarpað er beint til landsmanna. Ber öllum saman um að þar sé á ferð afar gott tríó sem svarar öllu vel og af yfirvegun. En áður en við ræðum veiruna skæðu er ekki úr vegi að skyggnast inn í líf Ölmu og kynnast konunni á bak við landlækninn.

Vann ung í fiski

„Ég er fædd og uppalin á Siglufirði. Móðir mín heitir Helena og er 96 ára og mjög hress. Faðir minn hét Jóhann Möller og var verkstjóri í síldarverksmiðju á Siglufirði og móðir mín vann ýmis störf; var húsmóðir og í síldarsöltun.“

Mér skilst að amma þín hafi látið fleyg orð falla við móður þína þegar hún frétti að hún ætti von á þér, sjötta barninu?

„Já, hún sagði: „Fár veit hverju fagna skal. Ég hélt þú værir sloppin.“ Mamma var 38 ára þegar hún átti mig sem þótti gamalt í þá daga til að eignast barn. En það var fínt að alast upp sem yngsta barnið. Systur mínar voru farnar að heiman í menntaskóla þegar ég fer að muna eftir mér þannig ég er eiginlega bara alin upp með bróður mínum Kristjáni, sem síðar varð ráðherra,“ segir hún og útskýrir að átta ár eru á milli þeirra og því hafi hún að lokum verið ein eftir heima af þeim systkinum.

„Það var frábært að alast upp á Siglufirði. Það var annaðhvort gott veður eða brjálað veður og mér fannst hvort tveggja jafn skemmtilegt. Þarna var gríðarlegt frelsi og mikið um að vera fyrir krakka; skíði, skautar, sleðar og kajakar á sumrin. Ég fór ung að vinna í fiski og saltfiski,“ segir Alma og segist hafa náð aðeins í skottið á síldarævintýrinu.

„Systkini mín unnu öll mikið í síld, en ég, örverpið í hópnum, hef líka saltað. Við erum fimm systur og einn bróðir, en elsta systirin Helga Kristín er látin fyrir löngu. Dóttir mín fæddist sama ár og hún lést og heitir í höfuðið á henni. Hún lést úr krabbameini 49 ára gömul þegar ég var um þrítugt. Hún var fyrirmynd fyrir okkur öll og hún er með okkur alla tíð.“

Allt heillandi við læknisfræði

Þrátt fyrir að foreldrar Ölmu hafi ekki sjálf fengið tækifæri til að ganga menntaveginn hvöttu þau börnin óspart til þess.

„Aðstæður þess tíma voru aðrar, en mamma fór í Húsmæðraskólann á Laugum sem var ekki sjálfgefið, og þar kynntist hún pabba. Pabbi lagði áherslu á það alla tíð að við börnin myndum mennta okkur; það var efst á lista hjá honum! Okkur gekk öllum vel að læra,“ segir Alma sem fór ung að heiman til að stunda nám við Menntaskólann á Akureyri. Hún átti góð ár í menntaskóla og segir það hafa verið lítið mál að standa á eigin fótum svona ung.

„Það er margt sem ég lærði þar sem ég bý að alla tíð.“

Alma segist hafa ákveðið frekar snemma í menntaskóla að leggja læknisfræðina fyrir sig.

„Mér fannst gaman í líffræði og öllu sem henni tengist og eins fannst mér gaman að fólki. Það hafði enginn nálægt mér farið í læknisfræði en síðan þá hafa nokkur systkinabörn fetað þá braut,“ segir hún.

„Mér fannst allt heillandi við læknisfræðina og námið var skemmtilegt og starfið enn betra.“

Aldrei í lífinu

Að loknu grunnnámi hér heima hélt Alma til Lundar í Svíþjóð í sérnám í svæfinga- og gjörgæslulækningum.

„Það er gríðarlega fjölbreytt svið því á gjörgæslu koma sjúklingar með alls konar vandamál. Þar koma allir sérgreinalæknarnir saman og maður vinnur með þeim. Þannig þarf maður að hafa mjög breiða þekkingu. Svo er þarna skemmtileg blanda af fræðum og að vinna með höndunum. Ég sérhæfði mig mest í gjörgæslulækningum og varð yfirlæknir á sjúkrahúsinu í Lundi árið 1999 þegar ég hafði lokið doktorsnámi.“

Mitt í námi og krefjandi starfi eignuðust hjónin Helgu árið 1992 en hún er í dag í doktorsnámi í jarðfræði. Sonur þeirra Jónas fæddist í Svíþjóð árið 1996 en hann stundar meistaranám í lögfræði.

„Árið 2003 kom ég heim og var fyrst yfir svæfingum í Fossvogi og síðar gjörgæslu á Hringbraut. Árið 2014 varð ég framkvæmdastjóri en þá hafði ég bætt við mig meistaragráðu í stjórnun og lýðheilsu frá Háskólanum í Reykjavík. Svo var ég skipuð landlæknir árið 2018.“

Þegar þú bættir við þig námi í stjórnun og lýðheilsu, sástu fyrir þér að enda sem landlæknir?

„Aldrei í lífinu,“ segir Alma og hlær.

„Það var aldeilis ekki planið. En ég hef ofboðslega gaman af því að læra og sá áhugi hefur bara aukist með aldrinum. Á þessum tíma var ég orðin yfirlæknir og vildi styrkja mig í stjórnun.“

Þú slærð þá Georg Bjarnfreðarsyni við með háskólagráður?

„Já, líklega. Áður en ég varð landlæknir byrjaði ég í námi í opinberri stjórnsýslu í Háskóla Íslands. Það gerði ég af því að ég var orðin framkvæmdastjóri á Lansanum, yfir sex hundruð manns og með milljarða veltu á mínum herðum. Það var gríðarlega skemmtilegt starf. En eftir að ég var skipuð landlæknir fannst mér of mikið að klára það nám með vinnu. En ég hef aldrei gengið frá ókláruðu verki, þannig að ég kláraði þetta bara. Það var mikil vinna en ekkert mál. Og svakalega góður undirbúningur fyrir landlæknisstarfið,“ segir Alma og viðurkennir að hún sé líklega keppnismanneskja.

„En ég er bara að keppa við sjálfa mig, ekki einhvern annan. Ég vil gera hlutina vel.“

Alma þurfti oft að síga niður í skip í stórsjó …
Alma þurfti oft að síga niður í skip í stórsjó þegar hún vann sem þyrlulæknir hjá Gæslunni. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Sigið í tíu metra ölduhæð

Alma vann í mörg ár sem gjörgæslulæknir sem hún segir afar krefjandi starf en skemmtilegt.

„Mér hefur alltaf þótt gaman í vinnu, hvort sem það var í fiski eða sem læknir. En mér finnst líka gaman að breyta til þannig að ég hef alltaf skipt reglulega um starf. Mér finnst það gott vegna þess að þá læri ég eitthvað nýtt og það er ekki síður gott fyrir starfsemina. Það er ekki gott fyrir neina starfsemi að sami stjórnandinn sitji allt of lengi.“

En hvenær varstu þyrlulæknir hjá Gæslunni og hvernig var það?

„Það var sko gaman! Það var þegar ég var unglæknir og var byrjuð í svæfinga- og gjörgæslulækningum. Þetta var í kringum 1990, í tvö ár, þangað til ég varð ófrísk; ég hefði ekki getað sigið niður í skip ófrísk,“ segir hún og hlær.

Alma var þá með kalltæki og alltaf til taks þegar kallið kom en þess má geta að Alma var fyrst kvenna til að gegna þessu starfi.

„Þegar kallið kom þá hljóp maður.“

Í hverju lentir þú?

„Öllu. Ég þurfti margoft að síga niður í skip. Í fyrsta skipti sem ég var látin síga var tíu metra ölduhæð. Ég man þetta eins og það hafi gerst í gær. Það var nótt og stýrimaðurinn spurði mig hvort ég treysti mér niður. Ég svaraði: „Ég veit það ekki, þið verðið að meta það.“ Af því að ég hafði ekki gert þetta áður. Og niður fór ég og það gekk vel. Ég þurfti að búa um sjúkling sem álitið var að hefði fengið hjartaáfall. Ég bjó um hann í börunum og hann var hífður upp og ég á eftir,“ segir Alma og segist ekki hafa fundið fyrir hræðslu.

„Ég er hvorki hrædd né kvíðin yfir verkefnum. Ég bara fer í verkin.“

Fallegt stell fýkur ekki

Landlæknir á sér mörg áhugamál og nýtir tímann vel þegar stund gefst milli anna.

„Útivist er mikið áhugamál en við hjónin höfum farið víða, bæði innanlands og utan. Við höfum meðal annars gengið upp á sex þúsund metra hátt fjall í Perú. Verkaskiptingin okkar er þannig að ég skipulegg utanlandsferðir, og höfum við farið til dæmis til Galapagos og Hawaii, en eiginmaðurinn skipuleggur innanlandsferðir. Þá förum við upp á hálendi sem er best í heimi. Við viljum þá komast í algjörar óbyggðir og sofum þá í tjaldi. En ég legg upp úr því að hafa með góðan mat og gjarnan að það sé fallega lagt á borð,“ segir Alma.

Því hafði nefnilega verið hvíslað að blaðamanni að Alma færi jafnvel með fallegt matarstell upp í óbyggðir, þegar flestir láta sér nægja útilegudiska úr plasti.

„Það er betra að vera með fallegt stell; það fýkur heldur ekki. Það er lítið mál að fara með tvo fína diska. Ég legg mikinn metnað í að skipuleggja matinn. Við getum farið í vikuferð en samt borðað eðal mat, enda bragðast matur hvergi betur en úti undir beru lofti.“

Önnur áhugamál Ölmu eru hannyrðir og tónlist og eru óperur í sérlegu uppáhaldi. „Það er langt síðan ég fór að hlusta á óperur og við höfum séð óperur víða um heim. Ef ég fer í vinnuferðir athuga ég alltaf hvort ekki sé verið að sýna óperu og fer þá ef svo er.“

Sá þetta ekki fyrir

Hinn fyrsta apríl hefur Alma gegnt embætti landlæknis í tvö ár og segir hún árin hafa verið gríðarlega skemmtileg.

„Þetta starf hentar mér ágætlega og mér finnst alltaf gaman í vinnunni. Það koma upp alls konar mál og sum erfið en heilt á litið er starfið mjög fjölbreytt. Ég vinn með góðu fólki og hef verið mjög sátt. Ég vinn mjög vel með mínum næsta yfirmanni, heilbrigðisráðherra. Við eigum í góðu og skemmtilegu samstarfi,“ segir Alma en þess má geta að embættið varð 260 ára í vikunni og sjaldan hefur mætt eins mikið á því og nú.

Grunaði þig einhvern tímann að þú myndir standa frammi fyrir þessari ógn sem heltekur nú heiminn?

„Nei. Ég get ekki sagt það. Auðvitað hefur maður hugsað um heimsfaraldra og ég var komin heim til Íslands þegar SARS- faraldurinn, sem er skyldur þessum, gekk yfir árið 2003. Við fórum þá í vinnu og undirbjuggum ýmsa hluti sem við búum að núna. Þegar svínaflensan gekk yfir vann ég á gjörgæslunni og hún olli miklu álagi en við réðum vel við það. Það komu 170 sjúklingar á spítalann og sextán á gjörgæslu en þeir dreifðust vel yfir tíma. Í kjölfarið var gerð áætlun um heimsfaraldur þannig að hún var til. En auðvitað erum við að læra mikið. Ég var ekki búin að sjá þetta fyrir. Svo var ekki í starfslýsingunni að vera svona mikið í fjölmiðlum. Maður hefur þurft að sjóast hratt því það er svo mikilvægur hluti af þessu verkefni.“

Frá vinstri eru Torfi, tengdasonurinn Daníel, Helga, Alma, Jónas, tengdadóttirin …
Frá vinstri eru Torfi, tengdasonurinn Daníel, Helga, Alma, Jónas, tengdadóttirin Andrea og hundurinn Mói, en myndin er tekin í júní á síðasta ári þegar Helga og Daníel útskrifuðust með meistaragráðu í jarðfræði, Jónas með BA í lögfræði og Alma með diplóma í opinberri stjórnsýslu, öll frá HÍ. Ljósmynd/Helga Kristín Torfadóttir

Vernda þá viðkvæmustu

Hvernig hefur þér fundist ganga að miðla áfram upplýsingum og hvernig finnst þér almenningur taka þessu?

„Auðvitað ríkir mikil óvissa og faraldurinn er á fleygiferð. Það er mikið áhyggjuefni þegar ný veira kemur og þessi er meira smitandi en inflúensa. Og það er hvorki til bóluefni né meðferð. Við sjáum hvað gerðist í Kína og hvað er að gerast á Norður-Ítalíu. Þetta er mjög alvarlegur faraldur og veldur gríðarlegu álagi á heilbrigðiskerfið. En ég er mjög sátt við framgöngu sóttvarnalæknis og er sátt við aðgerðirnar. Það er mikilvægt að fræða almenning og mér finnst það hafa gengið vel. Það hjálpar okkur í því hvað við erum fámenn,“ segir Alma.

„Við leggjum ofuráherslu á að vernda þá sem myndu fara verst út úr veikindinum, aldraða og þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma. Mér finnst allir vera með á nótunum. Það er auðvitað kvíði og óvissa í þjóðfélaginu því það er ekkert okkar sem veit hvað er framundan. Við þurfum að teygja á faraldrinum því annars ræður heilbrigðiskerfið ekki við það,“ segir Alma.

„Við erum að búa okkur undir að taka á móti fleiri mikið veikum. Þetta snýst allt fyrst og síðast um mannskap. Alls staðar í heiminum er skortur á heilbrigðisstarfsfólki.“

Aðgerðir halda veirunni í skefjum

Áttuð þið von á að útbreiðslan yrði svona hröð?

„Nei, ég get ekki sagt það. Reyndar rann upp fyrir mér ljós fyrir nokkrum vikum um hvernig þetta gæti þróast en ég held að ekkert okkar hafi séð það fyrir þegar fyrsta tilfellið greindist 28. febrúar, hversu hratt tilfellum myndi fjölga,“ segir Alma og útskýrir að hér á landi sé gengið mjög hart fram í að taka sýni sem gæti skýrt það hversu mikið tölurnar hækka hér á landi, frekar en annars staðar þar sem ekki er unnið eins ötullega að söfnun sýna.

Heldurðu að veiran hafi verið farin að grassera áður en fyrsta fólkið greindist sem kom hingað af skíðasvæðum Ítalíu?

„Nei, mér finnst það mjög ólíklegt og ég byggi það á skimuninni hans Kára. Það kom frekar á óvart að það væru ekki fleiri smitaðir. Þess vegna halda allar aðgerðir áfram að hafa gildi; eins og einangrun, smitrakning, sóttkví, samkomubann og lokun framhaldsskóla. Við reiknum með að þessar aðgerðir muni halda veirunni í skefjum.“

Nú taka aðrar þjóðir öðruvísi á málunum, eins og með að loka landamærum. Myndir þú vilja sjá það hér?

„Það gæti hugsanlega komið til þess. Þetta er í sífelldri skoðun. Það er mismunandi hvernig þjóðir gera þetta og það er engin ein leið.“

Veiran fer um allan heim

Alma segir ný verkefni koma í fangið á þeim á hverjum degi. „En við erum líka að vinna fram fyrir okkur og verið er að búa til spálíkan um hvernig fjöldi smitaðra og veikra muni þróast. Við vitum ekki hvað margir Íslendingar eiga eftir að smitast. Það eru alls konar prósentutölur á sveimi og best að miða við það sem við vitum að gerðist, eins og í Kína. Ég vona að við séum með betri tök á þessu en Ítalir. Ef ástandið eins og það er á Ítalíu væri hér væru nú þegar tólf látnir. Það eru allar líkur á því hér að fólk muni veikjast alvarlega og að fólk deyi,“ segir Alma og nefnir að bóluefnis sé ekki að vænta á næstunni.

Alma segist ekki geta svarað því hvenær lífið fari aftur í sömu skorður og áður.

„Við höfum sagt að þetta taki einhverja mánuði. Og svo það sé alveg á hreinu, þá er hvorki hægt að loka þessa veiru inni né úti. Hún fer um allan heim,“ segir hún og leggur áherslu á að halda öldruðum og fólki með undirliggjandi sjúkdóma frá veirunni.

„Við þurfum að hafa það fólk í bómull, eins og mömmu mína.“

Búum okkur undir það versta

Hver eru mikilvægustu skilaboð sem þú myndir vilja koma til þjóðarinnar?

„Það er að sýna áfram yfirvegun. Að kynna sér málin á áreiðanlegum miðlum eins og covid.is og landlaeknir.is. Að hlýða öllum tilmælum, eins og að gæta hreinlætis, fara ekki úr sóttkví eða einangrun. Virða samkomubann og vanda sig í umgengni við aldraða. Þetta eru mörg skilaboð en öll mjög mikilvæg. Svo þarf fólk að hjálpast að. Þeir sem veikjast eru fórnarlömb og þetta getur komið fyrir hvern sem er. Við verðum að passa að láta veiruna ekki komast upp á milli okkar. Eitt af því góða sem gæti komið út úr þessu er að við förum að hugsa betur hvert um annað. Þetta verður að þjappa þjóðinni saman því við erum öll í þessu saman.“

Ertu bjartsýn eða svartsýn?

„Hvorugt. Ég er í þessu verkefni og tek því eins og það kemur. Ég er auðvitað að vona að við lendum ekki í eins málum og Ítalía. Við vonum það besta en búum okkur undir það versta. En ef eitthvað gott á að koma út úr þessu vona ég að það verði að fólk meti mikilvægi heilbrigðisstarfsfólks, mikilvægi hreinlætis og mikilvægi náungakærleika.“

Móðir Ölmu, Helena Sigtryggsdóttir, stillti sér upp á mynd með …
Móðir Ölmu, Helena Sigtryggsdóttir, stillti sér upp á mynd með dóttur sinni á 95 ára afmælinu. Alma segir það hafa verið tilviljun að þær voru svipað klæddar og að nú sé gert grín að henni fyrir að klæða sig eins og 95 ára kona. Ljósmynd/Helga Kristín Torfadóttir
mbl.is