Óttast smit með aukinni mætingu

Sóttvarnalæknir og landlæknir sendu þriðjudaginn 24. mars sl. bréf til skólastjórnenda, kennara og foreldra barna í leik- og grunnskólum. Var þar áréttað mikilvægi þess að nemendur haldi áfram að sækja skóla þrátt fyrir takmarkanir á skólastarfi vegna hraðrar útbreiðslu kórónuveiru hér á landi. Tveir leikskólastjórnendur á höfuðborgarsvæðinu sem Morgunblaðið ræddi við segja bréfið ekki samrýmast fyrri leiðbeiningum. Segjast þeir óttast smit með aukinni mætingu.

„Við höfðum áður fengið þær upplýsingar frá okkar yfirmönnum að reyna að takmarka barnahópinn í húsinu eins og kostur er,“ segir Valborg Guðlaugsdóttir, leikskólastjóri í leikskólanum Langholti í Reykjavík. „Hjá okkur er nú helmingur barna skráður í leikskólann á hverjum degi. Svo kemur það upp að við erum beðin um að taka á móti forgangsbeiðnum, sem við og gerum. Við tökum þá strax ákvörðun um að opna sér forgangsdeildir og erum í dag með þrjár deildir af níu fyrir forgangsbörn.“

Valborg segir starfsfólk leikskólans sl. vikur hafa hvatt þá foreldra sem ekki þurfa nauðsynlega á leikskólaþjónustu að halda að hafa börn sín heima. Eru það t.a.m. foreldrar sem vinna heima eða eiga af öðrum ástæðum auðvelt með að hafa börnin á heimilinu. Á móti auðveldar þetta þeim foreldrum sem verða að hafa börn sín á leikskóla aðgengi að skólanum.

„Á sama tíma hafa borist fréttir af því að fólk eigi að reyna að halda sig sem mest heima og vera ekki að koma að óþörfu á ákveðna staði. Ég hef í þessu ástandi sem nú er uppi lagt ofuráherslu á að fá sem fæsta fullorðna inn á leikskólann. Því færri sem hingað koma þeim mun minni líkur eru á að smit berist inn í leikskólann. Umrætt bréf snýst að stórum hluta um það að börn séu ólíklegri til að smita, en við höfum engar áhyggjur af börnunum. Við sinnum þeim eins og alltaf. Við viljum aftur á móti fá sem fæsta fullorðna hingað inn,“ segir Valborg.

Gera hefði átt greinarmun á skólastigum

Sumir skólar, einkum grunnskólar, hafa gripið til þess ráðs að meina foreldrum inngöngu til að minnka líkur á smiti. Valborg segir það vart ganga upp á leikskólum, börnin séu mörg mjög ung og ekki hægt að taka þau af foreldrunum fyrir utan leikskólabygginguna.

„Við erum að reyna að taka á móti hverju barni um leið og það kemur inn, en þetta eru lítil börn og það er mjög erfitt að rífa lítil börn úr fangi foreldra sinna þegar þau er vön því að foreldrarnir fylgi þeim inn,“ segir hún. 

Komi upp kórónuveirusmit á leikskóla, líkt og þegar hefur gerst á nokkrum leikskólum, er afleiðingin skýr; loka þarf fyrir allt starf í langan tíma. „Þá snýst þetta ekkert lengur um þá sem eiga forgang eða ekki, leikskólinn er bara lokaður til lengri tíma.“

Segir hún því afar mikilvægt að þeir sem geti unnið heima eða af öðrum ástæðum þurfa ekki að senda börn sín á leikskóla, geri það. „Það er okkar besta leið til að halda leikskólum áfram opnum.“

Aðspurð segir hún bréf sóttvarnalæknis og landlæknis á skjön við þessa stefnu leikskólans. „Það er nú verið að hvetja fólk til að koma með börnin sín inn á leik- og grunnskóla. Svo finnst mér afar einkennilegt að setja allt skólakerfið undir sama hatt, einstaklingar sem eru á aldrinum eins til sextán ára. Foreldrar fylgja til að mynda ekki börnum í elstu bekkjum inn í grunnskólana en hér koma fullorðnir alltaf með. Mun réttara hefði verið að senda út tvö bréf; eitt fyrir grunnskóla og annað fyrir leikskóla.“

Þá segir Valborg afar mikilvægt að halda leikskólum opnum eins lengi og mögulegt er. „Það verður þó ekki gert nema með þessum takmörkunum,“ segir hún.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Minna en helmingur barna mætir

Sigríður Kristín Jónsdóttir er leikskólastjóri í leikskólanum Seljakoti í Reykjavík. Hún segir marga foreldra hafa tekið þá ákvörðun að halda börnum sínum heima, einkum ef yngri börn eru einnig á heimilinu. 

„Margir foreldrar hafa valið það að vera með börn sín heima. Skilaboð stjórnvalda í upphafi voru á þá leið að þeir sem gætu ættu einmitt að halda börnunum heima. Hjá okkur er helmingur barna skráður á leikskólann en þau sem mæta eru nokkuð færri,“ segir hún.

Sigríður Kristín segist vita til þess að ólga sé hjá leikskólastjórum og stjórnendum grunnskóla vegna bréfsins. 

„Um leið og lögð er áhersla á sóttvarnarými hér og að starfsfólk og börn eigi ekki að flakka á milli deilda þá er verið að hvetja til mætingar. Það þýðir þó ekki að við viljum ekki halda leikskólum opnum fyrir forgangshópa og þá foreldra sem virkilega þurfa á leikskólaplássi að halda,“ segir hún og bætir við að því færri sem mæta þeim mun líklegra sé að hægt verði að koma í veg fyrir smit í grunn- og leikskólum.

Heilbrigðisstarfsfólk þarf á miklum hlífðarbúnaði að halda við störf sín …
Heilbrigðisstarfsfólk þarf á miklum hlífðarbúnaði að halda við störf sín vegna vírussins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is