Sigldi brennandi skipi sínu á beitiskip óvinar

HMS Glowworm sést hér skjóta reyksprengjum. Myndin er tekin í …
HMS Glowworm sést hér skjóta reyksprengjum. Myndin er tekin í miðri orrustu um borð í Hipper aðmíráli. Ljósmynd/Wikipedia.org

Laust fyrir klukkan tíu að morgni 8. apríl árið 1940 mætti breski tundurspillirinn HMS Glowworm óvænt þýska beitiskipinu Hipper aðmíráli úti fyrir ströndum Noregs. Við tók ein harðasta sjóorrusta seinni heimsstyrjaldar og varði hún einungis í um klukkustund. Breski skipherrann hlaut Viktoríukross vegna þess hugrekkis sem hann sýndi í orrustunni en það var andstæðingur hans um borð í þýska beitiskipinu sem mælti fyrir heiðursmerkinu.

HMS Glowworm var af G-gerð tundurspilla sem smíðaðir voru fyrir konunglega breska sjóherinn um miðjan fjórða áratug síðustu aldar. Framkvæmdir hófust við smíði þess í skipasmíðastöð í Southampton á Bretlandi 15. ágúst 1934 og var það afhent til herþjónustu 22. janúar 1936. Glowworm var tæpir 99 metrar að lengd, 10 metrar að breidd og fullvopnað vó það 1.370 tonn en hraðast gat skipið siglt á 36 hnútum. Tundurspillar af G-gerð voru vopnaðir fjórum 120 millimetra fallbyssuturnum, tveimur í stefni og tveimur í skut, og nokkrum vélbyssustæðum til að...