Vorið sem varð að vetri

Fjölskylda Tariqs Abu Ziads kemur saman til málsverðar við sólarlag …
Fjölskylda Tariqs Abu Ziads kemur saman til málsverðar við sólarlag í föstumánuðinum ramadan í rústum heimilis síns í bænum Ariha í Idlib-héraði í Sýrlandi. Heimili þeirra var eyðilagt í árás stjórnarhersins og bandamanna hans á bæinn og þau flúðu burt. Myndin var tekin í byrjun mái þegar fjölskyldan sneri aftur í rústirnar. AFP

Skömmu eftir uppreisnina í Túnis vatt sér stúdent inn á skrifstofu Noahs Feldmans, prófessors við Harvard, og bað hann að koma með sér að aðstoða við að semja nýja stjórnarskrá í landinu. Feldman hefur nú sent frá sér bókina Arabíski veturinn þar sem hann fjallar um það sem gekk upp í Túnis í kjölfar arabíska vorsins og fór aflaga annars staðar. Í bókinni er dregin upp dökk mynd og undirtitill hennar er harmleikur, en um leið segir Feldman að arabíska vorið sýni hvað fólk er tilbúið að leggja á sig til að öðlast rétt til sjálfsákvörðunar þrátt fyrir möguleikann á að gera mistök.

Þegar arabíska vorið hófst 2011 litu margir svo á eða vonuðu að um væri að ræða framhald á atburðunum 1989 þegar almenningur reis upp, Berlínarmúrinn féll og Sovétríkin liðuðust í sundur, en þær vonir urðu fljótt að engu. Hvað fór úrskeiðis? Í nýútkominni bók sinni, The Arab Winter: A Tragedy (Arabíski veturinn: Harmleikur, útg. Princeton), fjallar Noah Feldman, prófessor við lagadeild Harvard-háskóla, um það hvernig seig á ógæfuhliðina í öllum tilfellum nema einu í kjölfarið á uppreisninni og mótmælunum, sem fengu viðurnefnið arabíska vorið. Feldman segir að ekki sé hægt að tala um að eitthvað eitt hafði farið úrskeiðis, því aðstæður voru ólíkar eftir löndum.

Tóku pólitísk örlög í eigin hendur

„Mig langar samt til að byrja á að tala um jákvæðu hliðarnar, áður en ég nefni það sem aflaga fór,“ segir hann. „Það jákvæða var að í fyrsta skipti í næstum því öld tók arabískumælandi fólk pólitísk örlög sín í eigin hendur líkt og menn gerðu í Evrópu í aðdraganda hruns Sovétríkjanna. Þetta var enn óvæntara vegna þess að þessir atburðir áttu sér ekki í stað vegna hruns stórveldis eins og gerðist í Evrópu. Að miklu leyti voru þessir atburðir fyrirvaralausir og sjálfsprottnir. Það er einnig merkilegt þegar horft er til Mið-Austurlanda vegna þess að sögulega hefur margt af því, sem þar hefur gerst, verið með nýlenduveldi eða heimsveldi í bakgrunni. Það átti ekki við hér.“

Feldman segir misjafnt eftir löndum hvað fór aflaga. Í Egyptalandi hafi vorið virst ætla að leiða til jákvæðrar þróunar og gengið var til kosninga, en síðan megi segja að almenningur hafi hafnað hinni lýðræðislegu nálgun.

„Það má að minni hyggju rekja til þeirra mistaka hinnar kjörnu ríkisstjórnar að gera sér ekki grein fyrir fyrstu lexíu stjórnarskrárbundins lýðræðis, sem er að það þýðir ekki að þú ráðir þótt þú fáir meirihluta,“ segir hann. „Það þýðir að þú þarft að gera málamiðlanir.

Þar við bættist að í Egyptalandi er fyrir hendi lífseigur andlýðræðislegur þráður meðal almennings, sem er mjög sterkur og réð því hvernig fór.“

- Utan frá séð virðist sá þráður hafa verið furðulega stuttur vegna þess að hin lýðræðislega kjörna stjórn íslamistaflokksins Múslimska bræðralagsins fékk ekki mörg tækifæri og reyndist ekki langlíf. Má segja að fólkið hafi kastað af sér einræði og ákveðið síðan að kalla það strax yfir sig aftur?

Höfnuðu einræði og kröfðust þess aftur

„Tilgáta mín er sú að egypska þjóðin, að svo miklu leyti sem hægt er að tala um þjóð með stórum staf, fór af heilum hug út á götu og krafðist þess af heilum hug að Hosni Mubarak forseta yrði steypt af stóli,“ segir Feldman. „Hún fékk því framgengt. En það var ekki gefið að þeir, sem stóðu að byltingunni, myndu greiða íslamistum atkvæði sitt. Það höfðu margir mjög miklar áhyggjur af íslamistastjórninni og hvað hún myndi gera þegar hún kæmist til valda. Það var því mikill þrýstingur á þessari stjórn að sýna að hún væri fær um að gera bandalag við aðra, gera tilslakanir og miðla málum líkt og íslamistar í Túnis, en það gerðu þeir ekki. Íslamistarnir í Egyptalandi töldu einnig að þeir ættu sér óvini sem vildu steypa þeim af stóli, og það var satt. Það er gamalt orðtak að jafnvel sá vænisjúki eigi sér óvini. Þeir hefðu engu að síður átt að gera víðtækar málamiðlanir frekar en að segja einfaldlega:

„Við náðum meirihluta og almenningur er á bak við okkur og því ættum við að geta gert það sem okkur sýnist.“ Þegar þar var komið sögu var nógu stórum hluta almennings nóg boðið og hin frjálslynda intelligensía veitti forustu nýrri hreyfingu, sem vildi taka annan snúning, líkaði ekki niðurstöður hinna lýðræðislegu kosninga og ákvað að leita á náðir hersins um að steypa þessu fólki af stóli. Á þessari ögurstundu þurftu Egyptar að ákveða hvort þeir tryðu á lýðræðið.“

Mótmæli á Tahrir-torgi í Kaíró í janúar 2011. Hosni Mubarak …
Mótmæli á Tahrir-torgi í Kaíró í janúar 2011. Hosni Mubarak forseti hrökklaðist frá völdum í Egyptalandi vegna mótmælanna. 2013 var mótmælt að nýju og kölluðu mótmælendur aftur yfir sig einræði. AFPFeldman segir að atburðarásin í Egyptalandi sé ólík því sem hefur gerst í nokkrum löndum Austur-Evrópu þar sem átt hefur sér stað hægfara afturhvarf frá lýðræði með einvalda við stjórnvölinn. Fólk hafi til að mynda greitt atkvæði með flokki Viktors Orbans í Ungverjalandi, PIS-flokknum í Póllandi eða Vladimír Pútín í Rússlandi. Þar sé ekki hægt að benda á ákveðið augnablik þar sem segja megi að fólkið hafi farið út á götu og sagt að það vildi ekki lengur sjá lýðræði.

„Það gerðist hins vegar í raun í Egyptalandi,“ segir hann. „Þannig að ætlum við að hafa lögmæti stjórnarskiptanna sem viðmið þá fékk fólkið það sem það bað um, sem var að snúa aftur til einræðisins sem áður var, jafnvel með aðeins verri lífskjörum. Í mínum huga er það ótrúlega sorglegt, að fólk skyldi eftir að hafa tekið upp lýðræði segja að það hefði ákveðið að skipta um skoðun, þetta viljum við ekki lengur.“

- Má þá segja að tekin hafi verið lýðræðisleg ákvörðun um að afnema lýðræði?

„Ég myndi frekar tala um almannavilja en lýðræðislega ákvörðun – hún var ekki lýðræðisleg í þeirri merkingu að gengið hefði verið til atkvæða, en tala má um almannavilja að því leyti að hún var jafn lögmæt og upprunalegu mótmælin sem komu Mubarak frá. Ég held að þetta sé eitt af því sem fólk muni eiga erfiðast með að sætta sig við af því sem ég hef fram að færa í bókinni. Það er auðvelt fyrir stuðningsmenn lýðræðis að segja að þegar fólk biðji um lýðræði sé það rétt, en þegar fólk vilji ekki lengur lýðræði sé það ólögmætt. Það er hins vegar ekki góð röksæmdafærsla, ef lýðræðið kemur frá fólkinu verður að fallast á ákvarðanir fólksins.“

- Gallinn er þá sá að eftir að einræði hefur verið komið á gefst ekki tækifæri í kosningum fjórum árum síðar til að skipta um skoðun.

„Það er rétt, en það eru bara rök fyrir því að það sé slæm hugmynd að taka upp einræði, að þegar sú ákvörðun hafi verið tekin sitji menn uppi með hana. En Egyptar tóku þessa ákvörðun og ég held að það hafi verið röng ákvörðun eins og ég segi í bókinni.“

-Þú leggur í bókinni áherslu á að arabíska vorið og atburðirnir í kjölfarið hafi ekki mótast af heimsveldum heldur þátttakendunum. Hvers vegna skiptir það máli?

„Fyrir því eru tvær ástæður. Önnur er siðferðisleg og hin sagnfræðileg. Siðferðisleg vegna þess að um er að ræða ákvarðanir sem fólk í arabaheiminum getur og ætti að taka af ábyrgð. Það er líka grundvallarþáttur lýðræðis og sjálfstjórnar að fólk taki sínar mikilvægustu ákvarðanir sjálft og það sé ekki gert fyrir það. Ég trúi því að það sem veiti pólitískum aðgerðum merkingu og göfgi sé einmitt að þá séum við sjálf að móta örlög okkar. Það er eitt þegar fólk tekur ákvarðanir við aðstæður þar sem það er undir þrýstingi utanaðkomandi afla. Það gæti litið lýðræðislega út, en er það þó ekki að fullu. Þarna sýnist mér hins vegar að um raunverulega sjálfsákvörðun hafi verið að ræða víða í löndum hins arabískumælandi heims. Þarna var ekki ákveðið að láta til skarar skríða í skugga heimsvelda.

Þverrandi máttur Bandaríkjanna

Síðan eru það hinar sögulegu ástæður. Þegar horft er til nútímasögu Mið-Austurlanda aftur til Tyrkjaveldis má segja að rauði þráðurinn sé að þjóðir sem mæla á arabísku hafi ekki haft frelsi til að taka sjálfar ákvarðanir, þær mótuðu ekki eigin sögu. Fyrst kom Tyrkjaveldi, síðan Bretar og Frakkar og svo Bandaríkjamenn og Sovétmenn á kantinum. Þetta takmarkaði pólitískt frelsi í arabaheiminum. Fólk í Mið-Austurlöndum gat því sagt að það væri ekki við það að sakast að það væri eftir á þegar kæmi að lýðræði og ég held að það hafi lengi vel verið satt. Fyrir því voru margar ástæður, þar á meðal olía, og þær voru raunverulegar. En það hefur breyst. Það er að hluta til vegna þess að heimsveldið sem var í áhrifaríkustu stöðunni á þeim tíma, Bandaríkin, fór verulega fram úr sér í Afganistan og Írak. Fyrir vikið hafði það ekki mátt lengur til að gera sig gildandi í þessum heimshluta eins og leiðtogar þess hefðu upphaflega viljað. Við það opnaðist rými vegna ofþenslu heimsveldisins og hnignunar og áður en nýtt heimsveldi gæti fyllt upp í það nýtti fólkið tækifærið og greip til sinna ráða til að móta eigin örlög. Þegar spurt er hvað ráði því að fólk fái tækifæri til að móta eigin framtíð getur skipt miklu máli að ekki sé heimsveldi til staðar.“

Feldman segir að nóg sé að nefna fall Sovétríkjanna til að útskýra mál sitt.

„Það er ekki eins og þjóðir austantjaldslandanna hafi ekki viljað njóta sjálfsákvörðunarréttar fyrir það – í þeim efnum nægir að benda á Ungverjaland, Tékkóslóvakíu og Samstöðu í Póllandi,“ segir hann. „Hreyfingarnar þar voru einfaldlega brotnar á bak aftur að undanskilinni Samstöðu. En þegar heimsveldinu hnignaði – það hrundi – opnaðist allt. Í ljósi sögunnar er þetta mikilvægt þegar reynt er að skilja þróun sjálfsákvörðunar í heiminum. Menn þurfa að gera sér grein fyrir að sjálfsákvörðun er ekki algildur eiginleiki sem allir njóta alltaf. Möguleikarnir til sjálfsákvörðunar birtast í þeim tækifærum sem eru fyrir hendi. Þar eiga við hin frægu ummæli Marx í Átjánda Brumaire Loðvíks Napóleons um að menn móti sína sögu, en ekki eins og þeir ætli sér.“

Harmleikurinn í Sýrlandi

- Þú tekur Sýrland einnig fyrir í bókinni. Þar hefur farið sérlega illa. Landið er í rúst, mannfallið gríðarlegt og milljónir manna á vergangi. Úr lokaorðum kaflans má nánast lesa þá niðurstöðu að betra sé að reyna ekki að rugga bátnum. Það er grátleg niðurstaða.

„Það er rétt, sú niðurstaða er grátleg. Ég er á því að það hafi ekki verið útilokað fyrir Sýrlendinga að rísa upp gegn stjórn Assads án þess að það leiddi til borgarastríðs, en það hefði verið gríðarlega erfitt að afstýra því. Ástæðan fyrir því er sú að þannig var komið fyrir stjórninni að hún stjórnaði aðeins í þágu eins minnihlutahóps í landinu eða trúarhóps. Í þeirri stöðu er hættan sú að þeir sem krefjast þess að stjórninni verði steypt séu einnig að krefjast þess að þessum hópi verði steypt af stalli. Þá á þessi hópur ekki annars kost en að berjast til síðasta manns vegna þess að hann hefur enga tryggingu fyrir því að öryggi sínu sé borgið. Þetta eru dæmigerðar öryggisógöngur, beggja vegna borðs vita menn að illa mun fara, en verða að gera upp við sig hver muni vernda þá, fjölskyldur þeirra og viðurværi þegar hættan kallar.“

Feldman segir að eitthvað veigamikið hefði þurft til að afstýra slíkri atburðarás, þótt hún hafi ef til vill ekki verið óumflýjanleg, auk þess sem enginn hefði verið tilbúinn að skerast í leikinn.

„Hins vegar var hvorugur tilbúinn eða fær um að koma því á framfæri við hinn með trúverðugum hætti að öryggis yrði gætt og ég er ekki viss um að þeir hefðu getað það. Ég vil hins vegar að það sé alveg skýrt að ég skelli skuldinni á stjórnina, ekki fólkið sem reis upp.“

Mjög erfitt hefði verið að koma að koma atburðarásinni í annan farveg eftir að átök hófust.

„Það leiddi til borgarastyrjaldarinnar og þá voru til að gera illt verra önnur lönd á svæðinu viljug til að skerast í leikinn,“ segir hann. „Bandaríkjamenn tóku hins vegar afstöðu um að fara bil beggja með skelfilegum afleiðingum. Það var kannski skiljanlegt. Bandaríkjamenn vildu ekki steypa Assad vegna þess að þeir vissu ekki hvað tæki við. Eftir reynsluna í Írak höfðu þeir líka áhyggjur af að þeir myndu þurfa að bera ábyrgð á afleiðingunum. Um leið vildu þeir ekki heldur draga sig í hlé og leyfa Assad að kæfa uppreisnina. Þeir hötuðu Assad, hann var óvinur þeirra. Að auki hefðu Bandaríkjamenn getað styrkt stöðu sína í þessum heimshluta félli Assad. Þeir vissu ekki hvora leiðina þeir áttu að fara, þannig að þeir völdu að vera í miðjunni, sem varð til þess að stríðið dróst á langinn svo um munaði. Það gerðu þeir með því að láta uppreisnarmenn hvorki fá nægan stuðning til að steypa Assad, né að stíga til hliðar og leyfa Assad að kveða niður uppreisnarmennina. Ég skil vissulega hvers vegna stjórn Obama tók þessa afstöðu og ég átta mig á hvað það var gríðarlega erfitt fyrir hana að fara aðra leið, en ég held að það hafi verið rangt. Betra hefði verið að fara aðra hvora af hinum leiðunum.“

Feldman segir að fórnarkostnaðurinn fyrir Sýrlendinga skipti þar mestu. Helmingur íbúa landsins hafi misst heimili sín, sex milljónir manna flúið úr landi. Afleiðingarnar nái líka langt út fyrir landsteinana. Flóttamannavandinn hafi á margan hátt verið afdrifaríkur og hann hafi átt stóran – en alls ekki allan – þátt í vanda Evrópusambandsins á þessum árum og sá vandi sé enn óleystur.

„Þetta hafði áhrif á Schengen og það sem reyndist goðsagan um samstöðu Evrópu við þessar kringumstæður,“ segir hann. „Það var ekki lítið mál. Þetta skipti fólk um alla Evrópu máli, fólk í mörg þúsund kílómetra fjarlægð frá Sýrlandi.“

Uppgangur Ríkis íslams

Feldman leiðir uppgang Ríkis íslams einnig af arabíska vorinu. Hvers vegna náðu þessi hryðjuverkasamtök slíkum árangri og hvaða lærdóm má draga af uppgangi þeirra?

„Ég vil gera greinarmun á því hvers vegna Ríki íslams kom fram og hvers vegna því gekk svo vel um skeið,“ segir hann. „Ríki íslams kom fram vegna þess hvað ríkisvaldið í Írak var veikt, sérstaklega á svæðum súnnímúslima vegna mistakanna við hernám Bandaríkjamanna. Atburðarásin í Írak í framhaldi af því skapaði ásamt hruninu í Sýrlandi aðstæður fyrir Ríki íslams til að vaxa fiskur um hrygg. Við það skapaðist tómarúm í báðum löndum og Ríki íslams gat starfað þvert á landamæri. Samtökin, sem urðu að Ríki íslams, höfðu verið til í Írak svo árum skipti, en þau voru nánast horfin. Meira að segja aðrir íslamistar gerðu grín að þeim og kölluðu þau pappírsríkið. Samtökin þurftu því að komast í þá stöðu að geta lagt undir sig land. Hrun ríkisvaldsins í Sýrlandi gerði þeim skyndilega kleift að ná undir sig landi.“

Liðsmenn Ríkis íslams fagna töku Rakka í Sýrlandi í júlí …
Liðsmenn Ríkis íslams fagna töku Rakka í Sýrlandi í júlí 2014. Samtökin héldu borginni í fimm ár og stjórnuðu með grimmd og ofbeldi. AFPFeldman segir að við það hafi orðið kaflaskil.

„Um leið og Ríki íslams náði undir sig landsvæði var hægt að segja að þar væri komin fram íslömsk, umbótasinnuð, byltingarkennd útópía. Á þetta legg ég áherslu í bókinni. Ólíkt al-Qaeda, sem helgaði sig því að heyja heilagt stríð, en í raun með neikvæðum formerkjum, að verja múslima gegn gripdeildum trúvillinganna án þess að reisa útópískt ríki. Ríki íslams var að reisa útópískt ríki. Forsenda þess að samtökin gætu lýst yfir stofnun kalífaveldis var í fyrsta lagi að búa yfir landsvæði einfaldlega samkvæmt skilgreiningu og í öðru lagi að geta sagt við múslima um allan heim að þeir væru kraftbirting fyrirmyndar að því hvernig múslimar ættu að lifa með beinni vísun allt aftur til spámannsins. Þá gætu þau sagt: „Við erum að búa þessa útópíu til.““

Feldman bendir í bók sinni á að þetta megi bera saman við stofnun kommúnistaríkja á liðinni öld og nefnir sem dæmi lönd á borð við Kúbu, sem höfðu aðdráttarafl fyrir ungt fólk víða að.

„Með útópíunni verður til hvatning fyrir ungt fólk, sem hefur áhuga á að byggja fyrirmyndarríkið, til að vera með líkt og ungt fólk vildi fara til Kúbu eftir byltinguna þar, eða þá að fólk víða um heim vildi fara til Sovétríkjanna á fyrstu árum bolsévismans. Fólk fær innblástur, jákvæða framtíðarsýn, ekki bara neikvæða. Þú værir ekki að fara til að deyja, eins og þú hefðir gert ef þú gengir í al-Qaeda, heldur að taka þátt í uppbyggingu. Það skýrir hvers vegna konur fóru á vettvang, hvers vegna svo margir alls staðar að í múslimaheiminum fóru. Þetta skýrir líka að hluta hvers vegna þetta fór svona hræðilega úrskeiðis og leiddi til öfgakennds ofbeldis. Það verður að kalla morð og nauðganir réttu nafni.

Þetta gerist og það er ekki óþekkt fyrirbæri í útópísku, byltingarkenndu, umbótasinnuðu samfélagi með fyrirmyndarríkishugmyndir að verknaðir sem þátttakendunum myndi undir venjulegum kringumstæðum þykja siðlausir og brjálaðir verða normalíseraðir. Við sáum útgáfur af þessu eftir byltingu bolsévika, við sáum þetta í menningarbyltingunni í Kína eftir að kommúnistar tóku völd og meira að segja í aftökum og ofbeldi eftir byltinguna á Kúbu þótt það hafi alls ekki verið í sambærilegum mæli.

Þetta gerðist líka á miðöldum og snemma í evrópskri samtímasögu. Þetta er ekki eitthvað sem á bara við um múslimaheiminn eða okkar tíma, en það er hryllilegt. Einn daginn lifir einstaklingur venjulegu lífi á Englandi eða í Túnis, þann næsta gengur hann í byltingarhreyfingu og viku síðar er hann farinn að taka þátt í hræðilegum fjöldamorðum og skipulögðum nauðgunum.“

- Ríki íslams reis hratt og náði undir sig stóru landsvæði á mjög skömmum tíma. Nú hefur það hins vegar verið þurrkað út og þótt samtökin séu enn til eru þau nú án yfirráðasvæðis og í sömu stöðu og önnur slík samtök á borð við al-Qaeda. En má eiga von á að sagan endurtaki sig?

„Ég held ekki,“ segir Feldman. „Ég lít þannig á að arabíski veturinn, sem nú stendur yfir, standi fyrir þrot. Sumt af því sem misheppnaðist eru hlutir sem ég kann að meta, eins og lýðræðistilraunir sem tókust í Túnis en misheppnuðust alls staðar annars staðar. Hugmyndin um lýðræðisvæðingu í miklum mæli í arabaheiminum mun þurfa að bíða eina kynslóð hið minnsta. En arabíski veturinn ber því einnig vitni að hlutir, sem mér líka ekki, hafi mistekist.

Þar má nefna Ríki íslams. Hugmyndin um að byltingarkenndar útópíuhugmyndir muni leiða til íslamsks ríkis, að það muni verða kalífaveldi og ráða yfir landi, brást. Ef þú trúir að Guð ráði för verður þú að trúa því að hann hafi ekki verið á bandi kalífaveldisins lengur – ef það er forsendan sem þú gefur þér. Þrot Ríkis íslams skiptir miklu máli vegna þess að í íslömsku samhengi er ekki hægt að halda því fram að þú sért að búa til kalífadæmi nema þú sért með virkt stjórnvald, kalífadæmi er ekki eitthvað sem er til í kenningunni, það er áþreifanlegt. Það áþreifanlega fyrirbæri brást. Auðvitað mun fólk áfram nota merkmiða Ríkis íslams, en nú er það bara önnur útgáfa af al-Qaeda og hefur ekki lengur þann grunn sem það hafði. Aðdráttaraflið minnkar líka verulega, þótt það hverfi ekki alveg.“

Lýðræðisþróun í Túnis

- Alls staðar hefur sigið á ógæfuhliðina eftir arabíska vorið nema í Túnis þar sem það átti upptök sín. Hvað gekk upp í Túnis?

„Það er mikilvægt að leggja áherslu á þetta, sem næstum er gleymt,“ segir Feldman. „Í Túnis breyttust hlutirnir til batnaðar. Túnis er lítið land, aðeins tíu milljónir íbúa. Þar er fullgilt lýðræði í landi þar sem töluð er arabíska. Það er spurning hvað á að fara langt aftur, en þótt miðað sé við 2013-14 þegar verið var að staðfesta stjórnarskrána, þá hefur það verið við lýði í sex ár og það hafa nokkrum sinnum orðið stjórnarskipti. Íslamistaflokkurinn hefur umbreyst í múslimskan demókrataflokk með kristilega demókrataflokka sem fyrirmynd. Þetta sýnir að það er einfaldlega ekki satt að lýðræði geti aldrei komist á í landi þar sem töluð er arabíska. Það er að gerast og þú þarft ekki að hafa mig fyrir því, það er nóg að skoða það sem er að gerast í Túnis.“

Feldman segir að vitaskuld séu hindranirnar margar. „Við eigum til að gleyma því hvers vegna fólk reis upp í arabíska vorinu, sérstaklega við á Vesturlöndum. Við viljum trúa því að allir vilji alltaf stöðugt lýðræði. Við héldum að endalok Sovétríkjanna snerust um sigur lýðræðis yfir kommúnisma. Auðvitað var það ekki þannig. Lok kalda stríðsins voru sigur kapítalismans yfir kommúnisma, ekki sigur lýðræðis. Sönnunin fyrir því er að í Kína kom aldrei lýðræði, en kapítalisminn kom. Í Sovétríkjunum fyrrverandi höfum við kapítalisma og afgerandi fráhvarf frá lýðræði þannig að nú er svo komið að þar er það í raun ekki við lýði. Lýðræðið sigraði því ekki, en við í vestrinu höfum tilhneigingu til að segja alltaf að lýðræðið sé á sigurbraut. Sú er ekki raunin.

Þannig að þegar fólk fór út á götur og torg að krefjast reisnar og réttlætis var lýðræði ekki á kröfulistanum. Helsti hvatinn var mannleg reisn í þeirri merkingu að eiga til hnífs og skeiðar, vera með mannsæmandi vinnu og að vera sýnd grundvallarvirðing af hálfu yfirvalda. Í Túnis fékk fólk þetta að hluta. Það býr við þá reisn að geta kosið sér stjórn sem mun koma betur fram við það en einræðisstjórn. En það fékk ekki grundvallarlausn á efnhagsvandanum sem blasir við landinu, og hann er alvarlegur. Ástæðan fyrir því að það fékkst ekki er sú að lýðræðið lumar ekki á töfralausn á efnahagsvandanum. Það þarf ákveðnar forsendur til að ná árangri í efnahagsmálum og þar á Túnis í vanda. Túnis hefur hvergi forskot í samkeppni, vinnuafl er dýrt, menntunarstigið er hátt, en þeim hefur ekki tekist að finna sér svið til að nýta sér forskotið sem í því gæti falist. Við íbúum Túnis blasir því misræmi á milli þess sem knúði þá til að gera byltingu og þess sem þeir höfðu upp úr krafsinu. Þeir vildu efnahagslegar umbreytingar, en fengu lýðræði. Ég styð lýðræði heilshugar og hef varið ævinni í rannsóknir á lýðræði. En lýðræði er ekki allrameinabót.“

- Á þetta misræmi eftir að verða lýðræði í Túnis að fótakefli?

„Ég held að það muni gera erfitt fyrir og verða viðvarandi áskorun,“ segir Feldman. „Í hreinskilni sagt þurfti umbætur í uppbyggingu þjóðfélagsins í Túnis. Það getur verið erfitt að knýja slíkar breytingar fram við kjöraðstæður, málið vandast fyrir alvöru þegar um er að ræða stjórn sem er að reyna að stjórna við viðkvæmar aðstæður með því að fara sáttaleiðina og að komast hjá samfélagslegu hruni. Til þess að ná fram grundvallarbreytingum þarf einhver að taka áhættu. Fræðilega gætum við talið okkur trú um að stjórn byggð á þjóðarsátt eigi auðveldara með að stíga á tær en annars konar stjórn, en í veruleikanum er það oft erfitt vegna þess að hún er byggð á viðkvæmri sátt um að breyta engu, sem heldur henni saman.“

Feldman segist þó bjartsýnn fyrir hönd Túnis og finnst hann eiga persónulegra hagsmuna að gæta. Þar hafi mönnum tekist að gera pólitískt kraftaverk. Það hafi þeir gert með því að leggja áherslu á eitt af grundvallargildum stjórnmálanna, pólitíska ábyrgð.

„Þetta er nokkuð sem lesendur þínir þekkja vel,“ segir hann. „Þeir skilja að Ísland býr yfir taktísku og strategísku forskoti sem heimurinn nýtur góðs af, en samt mun enginn þegar á reynir koma til að bjarga Íslandi ef allt fer á versta veg nema Íslendingar. Þegar þið lentuð í efnahagskreppu urðuð þið að bjarga ykkur sjálf. Það kom enginn til bjargar. Túnisbúar lærðu þessa lexíu á meðan önnur arabalönd gerðu það ekki, að enginn myndi koma og bjarga þeim ef þeir klúðruðu þessu, þannig að þeir gerðu málamiðlanir og hegðuðu sér skynsamlega og af ábyrgð. Þetta virðist augljóst, en er það þó ekki í löndunum í þessum heimshluta, að fólk hugsi: Þetta er undir okkur komið og engum öðrum.“

Ástæðan fyrir því að Feldman er ástandið í Túnis svo hugleikið er að hann átti þátt í að móta nýja stjórnarskrá landsins á sínum tíma.

„Ég skal lýsa því hvernig það kom til,“ segir hann. „Ég hef kynnt mér rækilega lýðræði í arabaheiminum og hafði unnið að stjórnarskránni í Írak. Sumarið 2011 eftir byltinguna og kosningarnar í Túnis kom nemandi að nafni Duncan Picard á skrifstofuna til mín. Hann hafði verið um sumarið í Túnis og verið að vinna í kringum kosningarnar. „Við höfum aldrei hist,“ sagði hann, „en þú þarft að koma með mér, við þurfum að fljúga til Túnis þar sem þeir eru að byrja að semja stjórnarskrá og þurfa hjálp.“

Ég hugsaði með mér, hvaða strákur er þetta, hann er með metnað. En hann bað mig um að treysta sér og í ljós kom að hann þekkti alla helstu stjórnmálamennina sem voru að ryðja sér til rúms í landinu. Þetta var 23 ára gamall stúdent og ég spurði hann: „Með fullri virðingu, en hvernig þekkir þú allt þetta fólk, þú talar ekki arabísku og ert bara búinn að vera þarna í sumar?“ Hann svaraði því til að Túnis væri lítið land og auðvelt að kynnast fólki.

Ég ákvað að fara með honum til Túnis og umfang verkefnisins var slíkt að verðandi forustumenn í stjórnmálum í Túnis voru mjög opnir og tilbúnir að tala við hvern sem er. Í fyrstu voru allir mjög kurteisir og maður sá að þeir hugsuðu með sér: „Þennan sjáum við örugglega aldrei aftur.“ En það breyttist þegar við komum aftur í annað, þriðja, fjórða, fimmta og sjötta skipti. Strax í annarri heimsókninni vorum við komnir inn í herbergin þar sem verið var að leggja drög að nýjum ákvæðum þar sem leitað var svara við spurningum á borð við hvernig eigi að orða þetta ákvæði, hvaða umgjörð á að vera um það, hvernig er þetta gert í öðrum löndum. Vitaskuld var þetta lýðræðislegt ferli, þeirra að ákveða og leggja í dóm kjósenda. Þetta var gjörólíkt aðstæðum í Írak þar sem hernámslið réð ríkjum þegar ég kom þangað. Þetta var mun æðra og snerist um ráð og hugmyndir og ég var ekki einn, þarna voru aðrir hópar. Við svöruðum mörg hundruð spurningum á tveggja ára tímabili og reyndum að gera lista til að sjá hvað mörg af svörunum enduðu í stjórnarskránni.

Afraksturinn var nokkuð góður, um 60% af okkar tillögum voru tekin upp, en auðvitað veit maður ekki hvort það var vegna þess að við lögðum það til eða það var einfaldlega augljóst að fara bæri þá leið. Í raun get ég ekki eignað mér neitt af þessu, heimamenn tóku allar ákvarðanirnar, en þarna voru klárir og ábyrgir menn á ferð að reyna að átta sig á hvernig ætti að leggja drög að stjórnarskrá, fæstir með bakgrunn í þessum fræðum, hvorki lögfræðilegan né í samanburði stjórnarskráa, og þeir voru opnir fyrir því að hlusta, ekki að láta segja sér fyrir verkum, en hlýða á hugmyndir. Það er líka þess vegna sem ég lít svo á að í Túnis hafi stjórnmálamennirnir sýnt ábyrgð. Ég varð vitni að því þegar fulltrúar allra stjórnmálahreyfinga voru að semja og allir gerðu sér far um að sitja saman, ræða saman og kynnast. Þarna urðu til óformleg sambönd sem á endanum skiluðu árangri og gerðu mikið gagn.“

Göfug tilraun

Feldman segir að hann noti orðið harmleikur í undirtitli bókarinnar vegna þess að honum finnist það eiga við um atburðarásina sem arabíska vorið hratt af stað í flestum tilvikum, en einnig vegna þess að harmleikur geti aðeins átt sér stað þar sem eitthvað göfugt eigi sér stað.

„Fyrsta áhersluatriðið í bókinni er ekki hvað ástandið sé hræðilegt, heldur að hér átti sér stað göfug tilraun hugrakks fólks til að axla ábyrgð á eigin lífi og bæta það,“ segir hann. „Og þetta hugrekki er ekki horfið. Mörgum árum eftir arabíska vorið sáum við íbúa Alsír og Súdan rísa gegn stjórnvöldum. Fólk þar ætti að hafa raunsærri væntingar en menn höfðu sjö árum fyrr um hvað það gæti kostað, en lét samt til skarar skríða og er enn að reyna. Það er vonarmerki. Ég nefni bókina Arabíski veturinn, en veturinn er hluti af hringrás árstíða. Eftir veturinn mun koma nýtt vor og ég held að það sé mikilvægt að hafa það í huga. Ástandið er ekki gott, en það mun lagast og fólk mun reyna aftur líkt og í Alsír og Súdan.

Ég er ekki yfirmáta bjartsýnn um útkomuna þar, en fólk er tilbúið að reyna og það er dæmi um mátt mannsandans, að reyna að leita sjálfsákvörðunar, að láta ekki segja sér fyrir verkum, og það er líka mikilvæg lexía. Ég vil ekki að fólk líti svo á að arabíska vorið hafi verið söguleg bóla. Það var ekki söguleg bóla, heldur fordæmi sem veitir innblástur um hvað fólk er tilbúið að leggja á sig til að öðlast sjálfsákvörðunarréttinn þrátt fyrir möguleikann á að gera mistök. Það sem gerir pólitískar aðgerðir göfugar er einmitt sá möguleiki að manni verði á mistök og útkoman verði slæm. Ef það væri alltaf auðvelt að ná árangri væri engin göfgi í því fólgin.“

mbl.is