Sátu fyrir skipum Þjóðverja með hreindýr um borð

HMS Trident sést hér við breska höfn. Hann varð ekki …
HMS Trident sést hér við breska höfn. Hann varð ekki einungis þekktur fyrir afrek sín í stríðinu heldur einnig fyrir það að hafa hýst óvenjulegan gest. Ljósmynd/Imperial War Museums

Í ágústmánuði árið 1941 lagði breskur kafbátur, HMS Trident (N52), úr sovéskri höfn eftir stutt viðgerðastopp. Var stefnan tekin á hafsvæðið í kringum Noreg þar sem til stóð að herja á sjóher Þriðja ríkisins (Kriegsmarine). Um borð í Trident voru alls 56 sálir og eitt hreindýr. Átti skepna sú eftir að fylgja áhöfninni í rúmar sex vikur áður en komið var til hafnar í Bretlandi.

Sagan segir að hreindýrið, sem áhöfnin gaf nafnið Pollýanna með vísan í sovésku herskipahöfnina sem liggur við bæinn Polyarny í Múrmansk, hafi verið gjöf til skipherra Tridents, Geoffrey Sladen að nafni, frá sovéskum aðmíráli. Eru þeir félagar sagðir hafa setið að mat og drykk eitt kvöldið og farið vítt og breitt í umræðunni. Á þá Sladen skipherra meðal annars að hafa sagt aðmírálnum frá eiginkonu sinni og barni heima á Englandi og hversu erfitt það sé fyrir hana að dröslast um með þungan barnavagninn í snjónum. Sovétmaðurinn var ekki lengi að finna lausnina, barði í borðið og sagði: „Það sem þú þarft er hreindýr!“ Og úr varð að farið var með hreindýrakálf á hafnarsvæðið og um borð í kafbátinn breska.

HMS Trident var af T-gerð kafbáta sem smíðaðir voru fyrir breska sjóherinn á fjórða áratug síðustu aldar og var hann tekinn til herþjónustu 1. október 1939. Trident var 84 metrar að lengd, rúmir 8 metrar á breidd og gat hraðast siglt á rúmum 15 hnútum á yfirborðinu en níu hnútum í kafi. Báturinn var vopnaður tundurskeytum og 102 millimetra fallbyssu á dekki. 

Hluti áhafnarinnar sést hér á dekki kafbátsins. Fyrir aftan hópinn …
Hluti áhafnarinnar sést hér á dekki kafbátsins. Fyrir aftan hópinn sést í öfluga fallbyssuna. Ljósmynd/Imperial War Museums

Þó fjallað verði um hreindýraleiðangur Tridents í þessari umfjöllun er vert að nefna stuttlega helstu afrek kafbátsins í heimsstyrjöldinni seinni. Í maí 1940 réðst áhöfnin til atlögu gegn þýsku birgðaskipi við strendur Noregs og var skipinu sökkt með tundurskeytum. Tímabilið 1941 til miðs árs 1943 herjaði Trident á her- og birgðaskip Þjóðverja á Norðurhöfum með góðum árangri. Þar sökkti báturinn kaupskipinu Edmund Hugo Stinnes, flutningaskipunum Ostpreußen; Donau II; Hödur og Bahia Laura. Þá sökkti Trident einnig þýska tankskipinu Stedingen og skipinu UJ1213, sem hannað var til aðgerða gegn kafbátum. Trident réðst einnig gegn fleiri skipum á þessum tíma og laskaði mörg þeirra illa með tundurskeytum. Frægustu skipin sem Trident réðst á eru vafalaust þýsku beitiskipin Prinz Eugen og Scheer aðmíráll, en orrustan var háð við strendur Noregs hinn 23. febrúar 1942. Alls skaut Trident þá sjö tundurskeytum að beitiskipunum og hæfði eitt þeirra mark sitt. Skeytið sprakk utan í skut Prinz Eugen með þeim afleiðingum að vél þess skemmdist og stýrið festist. Scheer aðmíráll slapp aftur á móti heill frá árásinni.

Troðið inn um tundurskeytalúgu

Þegar búið var að koma hreindýrinu Pollýönnu niður á bryggju var næsta verk að flytja það um borð í kafbátinn. Töldu menn einfaldast að koma dýrinu fyrir við tundurskeytalúgu og var því ýtt þá leiðina inn í bátinn. Með hreindýrinu fylgdi nokkurt magn af mosa til að éta á leiðinni til Bretlands. Upphaflega var gert ráð fyrir að geyma hreindýrið inni í tundurskeytaklefa bátsins ásamt mosabirgðunum en eftir að lagt var af stað kom fljótlega í ljós að þar vildi skepnan alls ekki vera. Þess í stað vildi Pollýanna skoða sig um og er þess getið í heimildum að hreindýrið hafi svo gott sem ferðast frjálst um allan bátinn, hvort sem það var í vopnageymslunni, hinum og þessum vistarverum áhafnar, matsal eða sjálfri brúnni. Helst vildi Pollýanna þó halda sig inni í káetu skipherrans og er þess getið að þar hafi hreindýrið nær alltaf verið þegar skipherrann hvíldi sig.

Geoffrey Sladen skipherra ásamt hreindýrinu Pollýönnu.
Geoffrey Sladen skipherra ásamt hreindýrinu Pollýönnu. Ljósmynd/Myndasafn breska sjóhersins

Trident var líkt og aðrir kafbátar Breta mikilvægt stríðstól á þessum tíma og hafði því skyldum að gegna. Áhöfninni var gert að vakta hafsvæðið við Noreg áður en stefnt skyldi til heimahafnar á Bretlandi. Kallaði þetta á meira en sex vikna úthald á sjó. Hreindýrið hafði aftur á móti ekki svo mikinn mosaforða með sér. Að lokum kláraðist því mosinn og voru dýrinu þá gefnir matarafgangar að éta. Það er þó ekki það eina sem hreindýrið lagði sér til munns því það mun hafa í einni af mörgum ferðum sína í brúnna étið nokkur, og vafalaust mikilvæg, siglingakort með tilheyrandi óþægindum fyrir áhöfnina. Auk matarafganga og siglingakorta rataði mjólkurþykkni sjóhersins einnig á matseðilinn og er Pollýanna sögð hafa tekið vel í þá næringarríku mixtúru. 

Rúmar sex vikur eru nokkuð langur tími á sjó og þá sérstaklega fyrir klaufdýr. Allt þykir þó benda til þess að Pollýanna hafi vanist lífinu á sjó nokkuð vel. Með tímanum fóru vélahljóð og viðvörunarbjöllur ekki jafn illa í dýrið og áður og lagði það í vana sinn að lúta höfði þegar gefin var skipun, með tilheyrandi bjölluómi, um að kafa bátnum í flýti. Þá stundaði Pollýanna það einnig að strunsa rakleiðis í átt að aðallúgu kafbátsins í hvert skipti sem báturinn kom upp á yfirborðið. Gerði dýrið það til að anda að sér fersku lofti og máttu sjóliðar þá gjarnan bíða á meðan.

Að lokum lagðist Trident að bryggju í Blyth á austurströnd Bretlands og tók þá við heldur flókið og um leið óvenjulegt ferli; að koma hreindýri frá borði. Fljótlega áttuðu menn sig á því að ekki yrði hægt að koma Pollýönnu frá borði með sama hætti og henni var komið inn, þ.e. í gegnum tundurskeytalúgu. Ástæðan er sú að dýrið hafði, fyrir tilstilli matarafganga og mjólkurþykknis, bætt svo mjög á sig að það komst ekki lengur inn í lúguna. Eina leiðin fyrir hreindýrið til að komast út var í gegnum aðallúgu bátsins og með aðstoð reipis og kústa var hægt að tosa í og reka á eftir Pollýönnu. Þegar út var komið fór hreindýrið ekki til eiginkonu skipherrans, líkt og sovéski aðmírállinn hafði stungið upp á í fyrstu, heldur beint í hendur dýrahirða sem fluttu það í dýragarðinn í Lundúnum. Þar átti Pollýanna eftir að enda ævina. Þess má þó geta að allt þykir benda til þess að tími Pollýönnu á sjó hafi einnig fylgt henni í landi því í hvert skipti sem dýrið heyrði bjölluóm í dýragarðinum drúpti það höfði líkt og það hafði áður gert um borð í bátnum.

Pollýanna drapst árið 1947, sama ár og HMS Trident var tekinn úr þjónustu sjóhersins og seldur í brotajárn.

mbl.is