Hleypur til að gleðja langveik börn

Sara fékk margt skemmtilegt, á borð við þessa kanínu, í …
Sara fékk margt skemmtilegt, á borð við þessa kanínu, í MIA-boxinu sínu, eins konar gjafaöskju sem er sérsniðin að hverju barni.

Júlía Lind Sigurðardóttir hyggst hlaupa 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn nk. og safnar áheitum fyrir MIA Magic, góðgerðarfélag sem hefur það að markmiði að gleðja langveik börn og foreldra þeirra. Systir Júlíu, Sara Natalía, greindist með krabbamein á fjórða stigi árið 2019.

„Mig langaði til þess að hlaupa og styðja MIA Magic vegna þess að systir mín gekk í gegnum veikindi og MIA Magic hjálpaði henni svo mikið. Mig langar til að hjálpa öðrum börnum líka,“ segir Júlía.

Í heildina hafa safnast um 360 þúsund krónur úr 81 áheitum. Átta hlaupa fyrir félagið.

„Ég byrjaði á seinasta ári í frjálsum íþróttum og það var eiginlega í fyrsta skipti sem ég byrjaði að hlaupa mikið. Mér finnst það mjög skemmtilegt,“ segir Júlía um sinn bakgrunn er snýr að skokki og hlaupi og segir endasprettinn það skemmtilegasta við það að hlaupa.

„Þegar maður er alveg að gefast upp og klárar svo.“