Heimskviður

Heimskviður

Aðalpersónunni í hlaðvarpsþáttunum Serial, Adnan Syed, rúmlega fertugum Bandaríkjamanni, var sleppt úr fangelsi á mánudag, eftir 23 ára vist á bak við lás og slá. Syed var 17 ára þegar hann var handtekinn í Baltimore í Bandaríkjunum 1999, grunaður um að hafa myrt fyrrverandi kærustuna sína. Hann var fundinn sekur, þó að rannsókn lögreglu á morðinu hafi verið afar hroðvirknisleg, segja margir, og sönnunargögnin gegn drengnum í besta falli vafasöm. Syed er mjög líklega ekki eini maðurinn sem situr í steininum í Bandaríkjunum á grundvelli vafasamra sönnunargagna. Svo ég tali nú ekki um maður sem er dökkur á hörund. Talið er að um fimm prósent fanga í Bandaríkjunum séu saklausir af þeim glæp sem þeir sitja inni fyrir. Og í dag eru tvær komma ein milljón fangar þar í landi, sem þýðir að um 105 þúsund manns sitja saklausir í fangelsi. Sunna Valgerðardóttir fjallar um málið. Lygilegt er fyrsta orðið sem kemur upp í huga Árna Arnþórssonar, aðstoðarrektors Ameríska háskólans í Afganistan, um atburðarásina sem fór af stað þegar Talibanar náðu völdum. Hann stjórnar aðgerðunum um að koma fólki úr landi og í ágúst á fyrra leituðu vel á annað þúsund manns til hans dag og nótt. Rúmu ári eftir valdatöku Talibana vinna þau enn að því að koma burt, í síðasta mánuði var tæplega 70 konum snúið við á flugvellunum í Kabúl því þær höfðu ekki karlkyns fylgdarmann. Ólöf Ragnarsdóttir ræddi við Árna. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar um það sem gerist ekki á Íslandi. Umsjón: Birta Björnsdóttir, Bjarni Pétur Jónsson og Sunna Valgerðardóttir.

117 | Serial og flóttinn frá AfganistanHlustað

24. sep 2022