Spegillinn

Spegillinn

21 sakborningur í Bankastrætismálinu mætti fyrir dómara í dag í umfangsmestu þingfestingu sem sést hefur í héraðsdómi. Allir neituðu sök. Forsætisráðherra segir að stjórnvöld hafi ekki brugðist við af nægilegri festu í loftslagsmálum. Yfirmaður skrifstofu loftlagsþjónustu og aðlögunar segir nauðsynlegar mótvægisaðgerðir við loftslagsbreytingum ekki á færi einstaklinga, þær séu undir stjórnvöldum komnar. Menn verða að flýta sér hægt í orkuskiptum og taka tillit til fuglalífs þegar staðsetning vindorkugarða er ákveðin. Þetta segir fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun. Karlar voru í miklum meirihluta í valnefndum Eddunnar. Konur í kvikmyndum gagnrýna þetta harðlega og segja það ótrúlegt eftir allt sem á undan sé gengið. ----- Börnin okkar munu lifa í breyttum og heitari heimi en ákvarðanir okkar skipta sköpum um hve gjörbreyttur hann verður frá því sem við þekkjum. Heimsbyggðin hefur tvö ár til snúa hlýnun jarðar við áður en hún verður óstöðvandi og stjórnlaus. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna birtir nákvæmar leiðbeiningar um hvernig hægt er að gera það í nýjustu skýrslu sinni sem kom út í gær. Gríðarmiklar kerfisbreytingar þarf til og þær eru ekki á færi einstaklinga. Hafdís Helga Helgadóttir ræðir við Önnu Huldu Ólafsdóttur,yfirmann skrifstofu loftlagsþjónustu og aðlögunar. Lögreglunni í Lundúnum eru ekki vandaðar kveðjurnar í nýrri skýrslu sem gefin var út í dag. Kynþáttafordómar eru alls ráðandi innan lögreglunnar og nauðgunarmál hafa fallið niður vegna innanhússklúðurs. Meðal annars var sett beikon í skó íslamsks lögreglumanns og kynlífstæki í kaffibolla kvenlögreglumanna. Lögreglustjórinn og stjórnvöld lofa umbótum. Bjarni Rúnarsson fjallar um málið Það er góðæri til sjávarins og fiskverð hátt á Íslandi sem i Noregi. En norskir útvegsmenn eru venjufremur svartsýnir á framtíðina. Með norska kvótakerfinu átti að sníða af gallana sem fylgja því íslenska. En núna sjá norskir útvegsmenn fram á að missa stóran hluta af kvótum sínum og fá þá í hendur stjórnmálamanna. Gísli Kristjánsson segir frá. Spegillinn 21. mars 2023. Umsjón:Bjarni Rúnarsson. Tæknimaður: Jón Þór Helgason. Stjórn fréttaútsendingar: Margrét Júlía Ingimarsdóttir.

Svört loftslagsskýrsla og svört lögregluskýrslaHlustað

21. mar 2023