Ert þú með ábendingu?

Sendu okkur myndir eða myndskeið úr þínu nærumhverfi á netfrett@mbl.is eða með skilaboðum á Facebook-síðu mbl.is

mbl.is

Við þökkum fyrir samfylgdina, umfjölluninni hefur lokið.

Næstu tveir til þrír mánuðir

Þórólfur segir að veiran sé komin til að vera hér næstu tvo til þrjá mánuði.

Þá er fundinum lokið og við þökkum fyrir í dag.

Skoða ekki alla sem koma frá Munchen

Fréttamaður á staðnum spyr hvort yfirvöld hafi skoðað alla farþega sem koma frá Munchen en fjöldinn allur kemur þaðan daglega og einhverjir þeirra hafa mögulega verið á áhættusvæðum.

Víðir segir að farþegar sem komi til landsins fái fyrirmæli og þau verði útvíkkuð eftir daginn í dag og verði skýrari. Ekki er ólíklegt að einhver sem hafi komið þaðan sé smitaður.

Smit innalands á höfuðborgarsvæðinu

Þeir tveir sem smituðust innanlands búa á höfuðborgarsvæðinu en Víðir segir spurður að ekki sé vitað hversu marga, ef einhverja, hinir smituðu umgengust, áður en úr þeim voru tekin sýni.

Mögulegt sé að fólkið hafi verið í vinnu eftir það smitaðist.

Beint í sóttkví frá Veróna

Á morgun kemur vél frá Veróna, frá áhættusvæði. Víðir segir að vélin lendi rétt fyrir klukkan fimm í Keflavík.

Rútur munu fara með farþega beint í rými þar sem enginn annar í flugstöðinni er. Sýni verða tekin af þeim sem eru með einkenni en markmiðið er að koma öllum farþegum beint heim í 14 daga sóttkví.

Óábyrgt að nefna tölur

Þórólfur segir að það sé erfitt að gefa einhverjar tölur um hversu margir gætu smitast af veirunni.

„Það eru svo margir með væga sýkingu,“ segir Þórólfur.

Hann bætir við að um 80% af þeim sem fái veiruna fá væg einkenni og að nefna tölur í þessu samhengi sé óábyrgt af honum.

„Ef ekkert verður að gert mun veiran breiðast víða út. Veikir og eldri borgarar geta farið illa út úr þessari sýkingu,“ segir hann.

Tökum hart á málunum

Þórólfur segir að heilbrigðisyfirvöld taki hart á málum og þess vegna sé skíðasvæði í Austurríki skilgreint sem áhættusvæði.

Hann segir að heilbrigðisyfirvöld í Evrópu séu líkast til einu til tveimur skrefum á eftir Íslandi hvað þetta varðar.

Aðspurður segir sóttvarnalæknir að það sé mjög ólíklegt að Íslendingarnir hafi smitast í flugvél en ekki á skíðasvæðunum.

Þarf meira til að samkomubann verði sett

Víðir segir aðspurður að til að samkomubann verði sett á hér á landi þurfi að fá fleiri smit og meiri staðfestingu á að veiran berist manna á milli hér á landi.

„Við viljum ekki beita samkomubanni fyrr en við þurfum að hefta útbreiðslu alveg,“ segir Víðir.

Hann mun samt sem áður ræða við ÍSÍ í kvöld vegna þess að neyðarstigi hefur verið lýst yfir.

Voru í samskiptum við fólk sem var í Ölpunum

Þórólfur segir að innlendu smitin séu tilkomin vegna tólks sem var í tengslum við einstaklinga sem kom frá skíðasvæðunum í Austurríki og N-Ítalíu.

Hann bætir við að einn hafi verið lagður inn á spítala í gær en það hafi meira verið gert af öryggisráðstöfunum en að öðru leyti liggi enginn smitaður á spítala.

„Þeir greindust vegna þess að þeir veiktust eftir að hafa verið í samgangi við veika einstaklinga og leituðu fljótt til heilbrigðiskerfis,“ segir Þórólfur.

Heilbrigðiskerfið er í viðbragðsstöðu

Sjúkrahúsið á Akueyri er tilbúið og Landspítali er tilbúinn, segir Alma D. Möller landlæknir vegna nýrra frétta um innanlandssmit.

Enginn sjúklingur á gangi á bráðamóttöku á Landspítala og því einfaldara að sinna vörnum.

„Gámur við Landspítala hefur gefist vel á meðan greining er að fást og það er verið að bæta við öðrum slíkum,“ segir Alma.

Brýnir heilbrigðisstarfsmenn og þá er aðlatriðið að starfsfólk sé í viðeigandi hlífðarbúnaði. Að það æfi sig að fara í og úr búningunum.

Kári Stefánsson býðst við þess að skima fólk sem á við öndunarerfiðleika að stríða en hefur ekki verið á áhættusvæðum.

Þetta á eftir að útfæra og verður kynnt þegar útfærslu er lokið, segir Alma.

Fyrstu innlendu smitin - lýsa yfir neyðarstigi

Sex ný tilfelli af kórónaveirunni hafa greinst á Íslandi í dag, til viðbótar þeim 37 sem voru staðfest í gær. Alls eru þau nú orðin 43. Búið er að taka um 400 sýni. Tvö af þessum sex tilfellum eru innlend smit, þau fyrstu hér á landi, og er því fyrirhugað að uppfæra hættustig almannavarna upp í neyðarstig.
Meira »

Viðkvæmir forðist mannamót

Víðir segir að þetta sé hluti af viðbragðskerfinu og eigi ekki að hafa stór áhrif á almenning.

Stofnanir herða á sínum málum og skipulagi og kröfur um sóttvarnir verði ítrekaðar.

Ekki samkomubann en það hlýtur að styttast í þann tímapunkt, að mati Víðis.

„Eitt það sterkasta sem við höfum í verkfærakistunni er samkomubann og það þarf að beita því rétt og óumflýjanlegt að fara þá leið á einhverjum tímapunkti,“ segir Víðir og bætir við að hann hvetji viðkvæma til að forðast mannamót.

Sex ný smit í dag - smit innanlands

Sex ný smit hafa verið greind í dag og eru tilfellin orðin 43. Búið er að taka um 400 sýni. Tvö smitanna eru innlend smit. Þetta eru kona og karl á sextugs- og sjötugsaldri.

Fyrirhugað er að uppfæra hættustig almannavarna í neyðarstig.

Flest eru tilfellin vegna ferða í skíðasvæði á Ítalíu og Austurríki, eins og áður, segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Hann segir að rekja megi flest tilfelli í Evrópu til þessara svæða; skíðasvæði í Ölpunum. Þar er greinilega einhver sýking.

Í skoðun er hvort eigi að uppfæra áhættusvæðið í Ölpunum en það hefur ekki verið ákveðið.

Heilbrigðisráðherra fylgist með

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fylgist með blaðamannafundinum og segir að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sé á leiðinni.

Styttist í að fundurinn byrji

Þá styttist í að fundinn en hann átti upphaflega að hefjast klukkan tvö.

Blaðamannafundur vegna kórónuveirunnar

Boðað hef­ur verið til blaðamanna­fund­ar í húsa­kynn­um al­manna­varna í dag kl. 15 vegna út­breiðslu kór­ónu­veirunn­ar sem veld­ur önd­un­ar­færa­sjúk­dómn­um COVID-19. 37 hafa greinst með sýk­ingu af völd­um veirunn­ar hér á landi til þessa. Fundur átti að hefjast klukkan 14 en hefur verið frestað um klukkustund.
Meira »