Ert þú með ábendingu?

Sendu okkur myndir eða myndskeið úr þínu nærumhverfi á netfrett@mbl.is eða með skilaboðum á Facebook-síðu mbl.is

mbl.is

Við þökkum fyrir samfylgdina, umfjölluninni hefur lokið.

Þetta mun taka sinn tíma

„Þetta mun taka sinn tíma. Þetta mun vera mikið álag. En við munum koma vel út úr þessu ef við höldum áfram að feta þessa leið sem við höfum farið fram að þessu,“ sagði Þórólfur að lokum.

Fundinum er nú lokið. Við þökkum fyrir samfylgdina.

Heimapróf hafi litla þýðingu

Það hefur ekki mikla þýðingu í þessari vinnu sem gerð er núna að fara í heimapróf, að sögn Þórólfs. Bretar hafa gripið til þess að fá samfélagsþegna til að taka slík próf sem segja að einhverju leyti til um hvort fólk sé sýkt.

Óljóst hversu lengi dvalarheimili verði lokuð

Erfitt er að segja hversu legni dvalarheimili verða lokuð fyrir heimsóknum aldraðra, að sögn Þórólfs. Hið sama gildir um aðrar aðgerðir.

Afar og ömmur mega hitta barnabörn

Engin tilmæli hafa verið gefin út um að afar og ömmur megi ekki hitta barnabörn sín, að sögn Þórólfs.

Allar aðgerðirnar sem gripið hefur verið til miða að því að hægja á faraldrinum, minnka toppinn eins mikið og hægt er svo sýkingin verði ekki of útbreidd, segir Þórólfur.

Enginn brotið samkomubann

Víðir segir að engar tilkynningar hafi borist vegna brota á samkomubanninu.

Margar aðgerðir nauðsynlegar

„Það þarf að grípa til margra aðgerða til þess að hefta svona vöxt,“ segir Þórólfur sem bendir á að hérlendis sé gripið til margra aðgerða og það hafi sannarlega skilað árangri.

Decode ætti að geta gefið í

Ekkert er því til fyrirstöðu að halda áfram að taka sýni frá einstaklingum með einkenni. Decode ætti líka að geta gefið í í sinni sýnatöku svo hægt sé að sjá útbreiðslu í samfélaginu, að sögn Þórólfs sem bætir þó við að sýnin sem tekin eru hérlendis séu sérstaklega mörg.

„Það eru alltaf takmörk fyrir því hvað er hægt að taka mörg sýni.“

Börnin við góða heilsu

40 börn eru undir eftirliti vegna COVID-19 sýkingar. Hver er staðan á þessum börnum sem eru í eftirliti?

„Ég veit ekki annað en að öll þessi börn séu við góða heilsu enda fá börn vægari einkenni,“ segir Þórólfur.

Alma staðfestir að það sé rétt.

Gögnin sýna heftan vöxt á Íslandi

Meðalaukning smita á Íslandi er með því lægsta sem gerist í Evrópu og eru Íslendingar að standa sig mjög vel í baráttunni gegn veirunni. Aðgerðirnar sem hefur verið gripið til eru að skila árangri. Gögnin sýna heftan vöxt, ekki veldisvöxt. Þetta sagði Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við HÍ.
Meira »

Skortur á hjúkrunarfræðingum

Spurð hvort nóg sé af heilbrigðisstarfsfólki sem kunni á öndunarvélar segir Alma að helst sé skortur á hjúkrunarfræðingum.

„Við erum ekki með nógu marga hjúkrunarfræðinga en við erum með öfluga bakvarðasveit sem og svæfingarhjúkrunarfræðinga sem kunna þessi störf.“

Útlit fyrir mörg próf áfram

Líkanið er háð því að á því séu gerðar prófanir. Thor segir að líkanið verði stöðugra með tímanum. „Nú voru mjög mörg sýni tekin í gær.“ Útlit er fyrir að slíkt muni halda áfram.

Smit hjá starfsfólki Barnaspítala hringsins

Nú er verið að loka Rjóðrinu vegna smita á Barnaspítala hringsins. Alma segir að um sé að ræða smit hjá starfsfólki.

Mikilvægt að halda aldursdreifingunni

Þróunin í Kína hefur verið þannig að fleiri og fleiri útskrifast og færri eru lagðir inn. „Fólk er að ná sér og það hefur orðið viðsnúningur,“ segir Thor.

Aldursdreifing smitaðra á Íslandi er enn mjög hagstæð, að sögn Thors. Flest smitin eru hjá fólki á miðjum aldri.

„Það er gríðarlega mikilvægt að halda þessari dreifingu sem lengst því áhættan á því að leggjast inn á spítala eykst snarlega með aldri.“

Ef aldursdreifingin breytist og leggist þvert á þjóðina þá munu virkar gjörgæslulegur aukast um 2 til 3 á mesta annatíma.

„Þetta er mjög takmörkuð auðlind og því er mjög mikilvægt að fresta sem mest smitum í eldri hópa.“

Toppur á Íslandi og Ítalíu á sama tíma

Í nýrri spá frá rannsóknarhópi kemur fram að toppinum verði náð á svipuðum tíma á Ítalíu og við erum að spá fyrir Ísland. Sá toppur kemur líklega rétt fyrir páska.

Ætla að prófa 500 þúsund á viku

Þjóðverjar taka 500 þúsund sýni á viku hjá einstaklingum vegna gruns um kórónuveirusmit. Lykilatriði er að greina veiruna snemma, að sögn veirufræðings. Enn sem komið er hafa tillölulega fáir látist af völdum veirunnar í landinu miðað við þann fjölda sem hefur greinst með hana þar.
Meira »