Gratíneraður saltfiskur að hætti Portúgala

Gratíneraður saltfiskur með kartöflum er vinsæll í Portúgal. Þessa útgáfu fengum við á veitingastað í San Martinho do Porto og fengum eldhúsið til að láta okkur uppskriftina í té.

  • 500 g saltfiskur (helst vel útvötnuð hnakkastykki)
  • 500 g kartöflur, soðnar
  • 2 dl rjómi/matreiðslurjómi
  • 3 hvítlauksgeirar, pressaðir
  • 1 msk paprika
  • klípa af múskati
  • klípa af Cayennepipar
  • parmesanostur
  • ólífuolía

Byrjið á því að sjóða kartöflurnar. Stappið þær saman við saltfiskinn. Blandið næst pressuðum hvítlauknum, papriku, múskati, cayennepipar og rjómanum saman við. Setjið í eldfast form og breiðið úr fiskstöppunni.

Eldið við 200 gráður í ofni um 15-20 mínútur. Takið út og dreifið vel af nýrifnum parmesan yfir. Setjið aftur í ofninn í nokkrar mínútur. Berið fram með salati og góðri ólífuolíu. Það fullkomnar réttinn að hella nokkrum dropum af olíu yfir fiskinn á diskinum.

Með þessu gott suður-evrópskt hvítvín, það er ekki mikið um portúgölsk hvítvín í boði en Albarino frá Galisíu á Spáni er áþekkt hvítvínunum í Minho, hinum megin við landamærin.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert